Tix.is

Um viðburðinn

Brynhildur syngur Piaf, ásamt hljómsveit undir stjórn Jóhanns G Jóhannssonar.

Brynhildur Guðjónsdóttir leikkona, sem sló í gegn í hlutverki Edith Piaf í leiksýningu Þjóðleikhússins, ásamt sjö manna hljómsveit undir stjórn Jóhanns G Jóhannsonar, minnist frönsku söngkonunnar í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá fæðingu hennar. Dagskráin telur mörg af frægustu lögum Piaf í glæsilegum útsetningum Jóhanns G. Um er að ræða fallega og áhrifamikla kvöldstund, í tali og tónum, þar sem Brynhildur og félagar töfra fram anda liðins tíma og heiðra frægustu dóttur Parísar, litla spörfuglinn Edith Piaf.

Franska söngkonan Edith Piaf fæddist þann 19. desember 1915, að því er sagan segir á frakka lögregluþjóns, undir götuljósi í Montmartre-hverfi Parísarborgar. Piaf var sannkölluð goðsögn í lifanda lífi og um vinsældir hennar enn í dag þarf ekki að fjölyrða, tónlistin lifir enn í hjörtum fólks og sífellt bætast nýjar kynslóðir í aðdáendahópinn. Fyrir réttum tíu árum var leikrit Sigurðar Pálssonar, Edith Piaf, frumsýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins. Skemmst er frá því að segja að sýningin naut gríðarlegra vinsælda og var leikið fyrir fullu húsi tvö leikár í röð. Hefur tónlistin og sagan fylgt Brynhildi æ síðan. Í kjölfar þessarar velgengni verður minningu stórstjörnunnar Piaf haldið á loft á deginum sem markar eitt hundrað ár frá fæðingu hennar, laugardagskvöldið 19. desember 2015.

Hljómsveitina skipa:

Jóhann G Jóhannsson, píanó
Birgir Bragason, kontrabassi
Bryndís Pálsdóttir, fiðla
Eiríkur Orri Ólafsson, trompet
Haukur Gröndal, klarinett
Jóel Pálsson, tenór saxófónn
Margrét Arnardóttir, harmónikka