Tix.is

  • 29. ágú. - kl. 12:00
Miðaverð:3.900 kr.
Um viðburðinn

Ingibjörg Turchi bassaleikari og Hróðmar Sigurðsson gítarleikari hafa verið í samstarfi um árabil í ýmsum hljómsveitum. Þau hafa gefið út nokkrar plötur á síðustu árum. Ingibjörg Turchi, Meliae (2020) og Stropha (2023) og Hróðmar, Hróðmar Sigurðsson (2021). Dúóið mun leika nýja tónlist fyrir gítar og rafbassa sem kemur út á plötu árið 2024 ásamt úrvali af verkum af plötum hvors annars í bland við spuna. Hafa nokkur lög af plötunni litið dagsins ljós og hægt er að hlusta á þau á streymisveitum. Bassaleikarinn og tónskáldið Ingibjörg Elsa Turchi hefur verið sýnileg í íslensku tónlistarlífi síðustu ár og hefur komið fram með mörgum af ástsælustu listamönnum þjóðarinnar, svo sem Emilíönu Torrini, Bubba Morthens, Stuðmönnum og Teiti Magnússyni, bæði á tónleikum og upptökum en einnig hefur hún samið verk fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands sem frumflutt var vorið 2021 á vegum Ung-Yrkju og SÍ. Hún hefur einnig leikið í hljómsveit í Þjóðleikhúsinu og verið partur af verki Ragnars Kjartanssonar, Kona í e-moll, sem var sett upp í Hafnarhúsinu 2017. Ingibjörg gaf út stuttskífuna Wood/Work árið 2017 þar sem rafbassinn var í aðalhlutverki. Í júlí 2020 gaf Ingibjörg svo út sína fyrstu plötu í fullri lengd, Meliae, og hélt áfram að víkka út hljóðheim sinn með hjálp hljómsveitar sinnar. Árið 2020 hlaut platan Meliae Kraumsverðlaunin, var valin plata ársins af Morgunblaðinu og straum.is og fékk 5 stjörnur í gagnrýni Morgunblaðsins. Á Íslensku tónlistarverðlaununum 2021 hlaut Ingibjörg sex tilnefningar og hlaut tvenn verðlaun, annars vegar fyrir plötu ársins í flokki Djass-og blústónlistar og fyrir Upptökustjórn í Opnum flokki. Einnig var hljómsveitin valin til að fara fyrir hönd Íslands á Nordic Jazz Comets 2020 og í kjölfarið á Finnlandstúr í september 2021. Í september 2021 var platan svo tilnefnd til Hyundai Nordic Music Prize. Haustið 2023 kom svo út platan Stropha á vegum Reykjavik Record Shop og var tilnefnd í flokknum Upptökustjórn ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2024. Hróðmar Sigurðsson útskrifaðist úr Tónlistarskóla FÍH árið 2017 með burtfararpróf í rafgítarleik og hefur starfað sem tónlistarmaður síðan. Hann hefur farið um víðan völl og leikið þvert á stíla með tónlistarmönnum eins og Elísabetu Ormslev, Ife Tolentino, Elvari Braga Kristjónssyni, Samúel Jón Samúelssyni og Ingibjörgu Turchi ásamt því að starfrækja sína eigin hljómsveit. Hróðmar gaf út sína fyrstu hljómplötu árið 2021 ,,Hróðmar Sigurðsson" og hefur hlotið mikið lof fyrir. Hróðmar var valin Bjartasta vonin í Djass og blúsflokki á Íslensku Tónlistarverðlaununum árið 2022 og hljómsveit Hróðmars hlaut einnig tilnefningu sem flytjandi í sama flokki.


.

Hróðmar Sigurðsson, rafgítar og lap steel

Ingibjörg Elsa Turchi, rafbassi