Tix.is

Sölu á viðburðinn er lokið
Um viðburðinn

Kammerhópurinn Cauda Collective flytur Stabat Mater eftir Luigi Boccherini í Breiðholtskirkju laugardaginn 18. maí kl. 15:15.



Flytjendur og aðstandendur tónleikanna eru:


Björk Níelsdóttir: sópran og verkefnastjórn
Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir: fiðla
Gunnhildur Daðadóttir: fiðla
Kristófer Rodriguez Svönuson: slagverk
Natalia Duarte: víóla
T.C. Fitzgerald: kontrabassi
Þórdís Gerður Jónsdóttir: selló, útsetningar og verkefnastjórn


Um er að ræða frumflutning á Íslandi á fyrri útgáfu verksins sem samin var árið 1781 og er fyrir sópran og strengjakvintett. Síðari útgáfu verksins samdi Boccherini árið 1800 fyrir þrjá einsöngvara og strengjakvintett. Einnig verður flutt ný útgáfa Caudu Collective af verkinu "Næturtónlist á götum Madridar" fyrir strengjakvintett og slagverk sem er einnig eftir Boccherini. Þá verður flutt Rómansa fyrir einleiksgítar eftir Miguel Llobet í nýrri útsetningu Þórdísar Gerðar Jónsdóttur fyrir strengjakvintett.

Cauda Collective er hópur skapandi tónlistarflytjenda sem leita út fyrir rammann í tónlistarflutningi sínum. Hlutverki flytjandans er ögrað; hann semur tónlist, útsetur, spinnur og vinnur þvert á miðla. Hópurinn leitar nýrra leiða til að túlka gamla tónlist í samtali við nútímann, gjarnan með hjálp annarra listforma. Cauda Collective hefur komið fram á Sígildum sunnudögum í Hörpu, Sumartónleikum í Skálholti, Aldrei fór ég suður á Ísafirði, á Myrkum músíkdögum, Tíbrá í Salnum og Centre Pompadour í Frakklandi svo eitthvað sé nefnt. Í starfi Cauda Collective er lögð áhersla á að vinna náið með tónskáldum og hefur hópurinn frumflutt fjölda nýrra tónverka. Hópurinn vinnur einnig í samsköpun nýjar útsetningar á ýmis konar tónlist sem ekki tilheyrir klassískri tónlist, má þar nefna samstarfsverkefni með Mugison á 10 ára afmæli plötunnar Haglél, nýjar útsetningar á tónlist eftir Ragnhildi Gísladóttur og hljómplötuna Adest Festum sem kom út árið 2021 og inniheldur nýja nálgun Cauda Collective á einu elsta nótnahandriti Íslands, Þorlákstíðum. Cauda Collective hlaut nýverið tveggja ára starfssamning við Tónlistarsjóð Rannís.