Tix.is

Um viðburðinn

Leikaraval er mikilvægur og stór þáttur í kvikmyndagerð. Leikarar vekja handrit til lífsins og dýpka persónur verksins. Til að velja rétta fólkið í hlutverkin þarf að þekkja söguheim verksins og hafa skilning á persónum þess og þeirri stefnu sem verkið á að taka. Leikaravalsstjórar leika lykilhlutverk í þessu ferli. Til að ná sem bestum árangri það viðkomandi að búa yfir góðri þekkingu á leik, hafa næmt auga fyrir hæfileikaríkum leikurum og djúpan, leikrænan skilning á textanum. Þá þarf leikaravalsstjóri að hafa næmni og hæfni til að meta og skynja tengsl milli leikara.

Við val á leikurum í verk er farið yfir mikinn fjölda andlitsmynda, ferilsskráa og áheyrnaprufa til að finna rétta fólkið til að glæða sögupersónur kvikmynda- eða sjónvarpsverkefna holdi og blóði. Til að svo megi verða þarf nána samvinnu við leikstjóra, framleiðendur og handritshöfunda og allir þurfa að ganga í takt, hafa sömu sýn. Það krefst þess að leikaravalstjóri þarf að geta tengst fagfólki innan geirans, hafa hæfileika til að uppgötva nýtt og upprennandi hæfileikafólk og stundum þarf að taka óvenjulegar ákvarðanir til að þjóna verkefninu sem best. Þá þarf að huga að fjölbreytni í leikaravali til að endurspegla sem best margbreytileika samfélagsins.

Leikaraval er listform. Það snýst svo sannarlega ekki aðeins um að para saman andlit og hlutverk heldur felur það í sér að finna réttu blönduna af hæfileikum, sjarma og trúverðugleika. Þegar vel tekst til skilar það sér í stórbrotinni upplifun áhorfenda. Rétt leikaraval getur bætt frásögnina og fært alla framleiðslu á hærra plan.

Í þessu meistaraspjalli mun Ólafur Darri Ólafsson, leikari, framleiðandi og handritshöfundur, ræða við Alexu L. Fogel sem hlotið hefur fjölda Artios og Emmyverðlauna fyrir hlutverkaval. Saman munu þau deila sinni innsýn og reynslu af þessu ferli.


Nánar inn á: https://stockfishfestival.is/events/um-leikaraval-alexa-l


Stockfish Film Festival 2024