Tix.is

Um viðburðinn

Bróðir minn Ljónshjarta er hugljúf stríðssaga af þeim bræðrum Snúð og Jónatan. Yngri
bróðirinn Snúður er dauðvona en Jónatan reynir að hughreysta Snúð með því að segja
honum hvað gerist eftir dauðann. Eftir stutta jarðneska dvöl hittast bræðurnir aftur í Nangijala
eins og þeir höfðu talað um. Þar er lífið himneskt eða ætti öllu heldur að vera það, það er
svikari í Kirsuberjadal sem aðstoðar það grimma í þeim heimi, Riddaranum Þengli og hans
fólk ásamt eldspúandi drekanum Kötlu sem eiga sitt aðsetur í Þyrnirósadal.


Leikfélag Hörgdæla setur nú upp verkið Bróðir minn Ljónshjarta í félagsheimili sínu að
Melum. Alls eru 15 leikarar í sýningunni og fleiri tugir manns sem koma að sýningunni með
einum eða öðrum hætti. Leikfélag Hördæla var stofnað árið 1997. Saga leiklistar í Hörgárdal
er þó mun lengri. Bindindisfélagið Vakandi og leikdeild Ungmennafélags
Skriðuhrepps höfðu staðið fyrir leiksýningum allt frá árinu 1928.


Leikfélag Hörgdæla og fyrirrennarar þess setja reglulega upp leiksýningar á félagsheimilinu
að Melum í Hörgárdal sem er lítið en hlýlegt hús sem var byggt árið 1934. Sýningar á Melum
hafa getið sér gott orð, til að mynda Með fullri reisn sem var sett upp árið 2011 og verkið Í
fylgd með fullorðnum árið 2020. Það verður enginn svikinn af heimsókn á Mela.


Leikstjóri sýningarinnar er Kolbrún Lilja Guðnadóttir en hún hefur mikla reynslu úr
leiklistarheiminum. Þetta er í fyrsta skipti sem hún leikstýrir hjá Leikfélagi Hörgdæla en þó
ekki í fyrsta skipti sem hún kemur á Mela þar sem hún lék í Gauragangi árið 2019. Kolbrún
leikstýrði Fólkinu í blokkinni árið 2023 í Freyvangsleikhúsinu og Tröll sem leikfélag VMA setti
upp árið 2022.
Svavar Knútur hannar hljóðheiminn í sýningunni en hann þekktur tónlistarmaður hefur getið
sér góðan orðstír sem bæði flytjandi og lagahöfundur bæði hérlendis sem og alþjóðlega
undanfarin ár. Svavar var fyrstur til að hljóta verðlaun úr minningarsjóði Önnu Pálínu
Árnadóttur fyrir framlag sitt til íslenskrar vísnatónlistar, hrífandi túlkun, nýsköpun í
söngljóðagerð og lagasmíðum, endurnýjun hins þjóðlega tónlistararfs fyrir alla aldurshópa og
starf í þágu ungra og upprennandi tónlistarmanna.


Bróðir minn Ljónshjarta er eftir Astrid Lindgren. Astrid er einn þekktasti barnabókahöfundur
heims og mörg hafa lesið bækur hennar í grunnskóla en hennar þekktustu verk eru
bækurnar um Línu langsokk, Emil í Kattholti, Ronju ræningjadóttur og Kalla á þakinu. Til eru
margar kvikmyndir og leikrit sem byggð eru á sögum hennar. Leikgerð er eftir Evu Sköld og
þýðandi er Þorleifur Hauksson.


Í SÝNINGUNNI VERÐA STROBE LJÓS SEM KUNNA AÐ VALDA ÓÞÆGINDUM!