Tix.is

Um viðburðinn

Um Gugusar:

Gugusar pródúserar og semur öll sín lög ein síns liðs. Hún gaf út sína fyrstu breiðskífu Listen To This Twice þegar hún var einungis 15 ára gömul. Önnur breiðskífa Gugusar kom út árið 2021. Báðar breiðskífur voru tilnefndar í flokknum Plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum. Gugusar vann einnig í flokknum Flytjandi ársins á íslensku tónlistarverðlaununum 2022.

Það er erfitt að skilgreina tónlist gugusar samkvæmt einni tónlistarstefnu. Tónlistin hennar fer um víðan völl og á ekki heima í neinu boxi. Tónlistin getur verið draumkennd, róleg og lagræn, en á svipstundu breytist það í drum & bass. Gugusar er óhrædd við að skrifa og semja bæði á íslensku og ensku, eða jafnvel á engu tungumáli, þar sem hún ómar og syngur án orða. Tónlist gugusar er tilraunakennd og spennandi, þar er erfitt að segja hvað er handan við hornið þegar maður leggur við hlustir.

Gugusar byrjaði ung að æfa og keppa á listskautum. Það var á ísnum sem hún féll fyrir því að koma fram og vera á sviði. Þessi ástríða hennar fyrir því að koma fram sést vel þegar hún stígur á svið og flytur tónlistina sína. Hún hefur gríðarlegan áhuga á því að dansa og er óhrædd við að hreyfa sig á sviði og bæta dansrútínum við lifandi tónlistarflutning.


Um Kusk:


KUSK og Óviti, eða Kolbrún og Hrannar, eru live performing pop dúó.

Kolbrún, KUSK, er 20 ára lagahöfundur, pródúser og tónlistarkona. Hún semur bedroom indie popp tónlist og gaf út fyrstu plötuna sína “SKVALDUR” í október 2022.

Hinn 19 ára Óviti, eða Hrannar Máni, gaf út fyrstu plötuna sína “Ranka Við” 2021. Hann er popptónlistar maður og semur og pródúserar tónlistina sjálfur.

Þau sameina svo mismunandi hljóðheima og stíla sína á sviði sem myndar nýja upplifun, bæði fyrir þau og áhorfendur.