BAROKK Á AÐVENTUNNI
Fyrsti sunnudagur í aðventu 3. desember kl. 17
Barokkbandið Brák
Georg Kallweit, konsertmeistari
Lára Bryndís Eggertsdóttir orgel
Kór Hallgrímskirkju
Harpa Ósk Björnsdóttir sópran
Hildigunnur Einarsdóttir messósópran
Fjölnir Ólafsson barítón
Steinar Logi Helgason stjórnandi
Miðasala í Hallgrímskirkju og á https://tix.is/is/event/16548/
Aðgangseyrir 4.900 kr.
Flutt verða verk eftir Telemann og Handel. Hljómsveitarsvíta eftir Telemann, Orgelkonsert í F-dúr eftir Handel og kantatan Nun komm der Heiden Heilamd (Nú kemur heimsins hjálparráð) eftir Telemann fyrir kór, hljómsveit og einsöngvara. Leikið er á upprunahljóðfæri í barokkstillingu. Fiðluleikarinn Georg Kallweit leiðir Barokkbandið Brák að þessu sinni, en hann hefur getið sér gott orð fyrir flutning á barrokktónlist og sérstaklega tónlist Telemann. Hallgrímskirkja hefur um árabil verið leiðandi í flutningi barokktónlistar á upprunahljóðfæri á Íslandi. Barokkbandið Brák og Kór Hallgrímskirkju munu einnig flytja hluta efnisskrárinnar í útvarpsmessu á tónleikadegi (Fyrsta sunnudag í aðventu 3. desember kl. 11.00).
Barokkbandið Brák hefur skipað sér fastan sess í íslensku tónlistarlífi síðustu misseri. Hópinn skipa hljóðfæraleikarar sem eiga það sameiginlegt að hafa sérhæft sig í upprunaflutningi á tónlist barokktímabilsins og vilja nýta þessa þekkingu til tónleikahalds og verkefna á Íslandi. Barokkbandið Brák hefur verið starfrækt frá árinu 2014 og var stofnað af fiðluleikurunum Elfu Rún Kristinsdóttur, Laufeyju Jensdóttur og Guðbjörgu Hlín Guðmundsdóttur.
Brák hefur staðið fyrir fjölda tónleika í Reykjavík og víðar frá árinu 2015 og fær hópurinn reglulega til liðs við sig jafnt íslenska sem erlenda hljóðfæraleikara, söngvara og dansara til að glæða nýju lífi í tónlist barokks- og endurreisnartímans. Þá hefur Brák einnig haft það að leiðarljósi að efla nýja tónsköpun fyrir upprunahljóðfæri með því að frumflytja reglulega verk eftir íslensk samtímatónskáld.
Brák hefur hlotið góðar viðtökur jafnt áheyrenda og gagnrýnenda og verið lofuð fyrir líflegt og fjölbreytt tónleikahald frá stofnun hópsins. Þónokkrir tónleikar Brákar hafa verið hljóðritaðir og þeim útvarpað af Ríkisútvarpinu. Þá hefur Brák margsinnis hlotið tilnefningar til Íslensku Tónlistarverðlaunanna, sem Tónlistarflytjandi Ársins (2017, 2018 og 2020) en einnig fyrir Tónlistarviðburð Ársins í flokki Sígildrar- og Samtímatónlistar (2018 og 2020).
Verðlaunin féllu einmitt hópnum í skaut árið 2020 fyrir tónleikana Brák og Bach sem fram fóru í Eldborgarsal Hörpu í september það ár.
Georg Kallweit konsertmeistari hinnar heimsþekktu upprunasveitar Akademie für Alte Musik Berlin leiðir Barokkbandið Brák að þessu sinni.
Lára Bryndís Eggertsdóttir organisti og semballeikari, stundaði orgelnám á Íslandi hjá Herði Áskelssyni, í Svíþjóð hjá Hans-Ola Ericsson og í Danmörku hjá Ulrik Spang-Hanssen og Lars Colding Wolf, sem einnig var sembalkennari hennar. Hún lauk meistaragráðu í kirkjutónlist frá Tónlistarháskólanum í Árósum vorið 2014, en starfaði samhliða náminu og næstu árin sem organisti við Sønderbro kirkju í Horsens og semballeikari hjá BaroqueAros í Árósum. Lára Bryndís flutti árið 2018 aftur heim til Íslands og er nú organisti og kórstjóri við Grafarvogskirkju, en kennir jafnframt orgelleik við Tónskóla þjóðkirkjunnar og kemur fram sem orgel- og semballeikari við ýmis tækifæri. Lára hefur haldið fjölmarga einleikstónleika á orgel, bæði hérlendis og á hinum Norðurlöndunum, og leikið inn á ýmsar upptökur en þar má helst nefna að árið 2014 stóð hún fyrir tónlistarverkefninu „Ég heyrði þytinn frá vængjum þeirra“, þar sem sjö íslensk tónskáld sömdu orgelverk að beiðni Láru, og gaf út samnefndan geisladisk. Lára Bryndís hefur hlotið ýmsa styrki og viðurkenningar, m.a. frá Rótarý á Íslandi og Minningarsjóði Jean-Pierre Jacquillat.
Kór Hallgrímskirkju var stofnaður haustið 2021 og telur nú um 50 manns. Kórinn hefur frá stofnun tekið þátt í helgihaldi í Hallgrímskirkju ásamt því að sinna tónleikahaldi og upptökum. Hann hefur lagt mikið uppúr flutningi á íslenskri kórtónlist og það er mikilvægur hluti kórstarfsins að stuðla að nýsköpun með frumflutningi nýrra tónverka. Haustið 2022 frumflutti kórinn fimm ný verk eftir íslensk tónskáld sem samin voru sérstaklega fyrir hann. Kór Hallgrímskirkju hefur átt í gjöfulu samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands og Barokkbandið Brák en síðustu tónleikar Kórs Hallgrímskirkju og Brákar voru þann 21. maí 2023 og voru tileinkaðir tónlist Wolfgang Amadeus Mozart.
Harpa Ósk Björnsdóttir stundar nám við óperudeild bæversku Leiklistarakademíunni August Everding, við Prinzregententheater-óperuhúsið og Tónlistarháskólann í München. Áður nam hún við Tónlistarháskólann í Leipzig. Hún hóf að læra söng í Langholtskirkju hjá Þóru Björnsdóttur, því næst við Söngskólann í Reykjavík og síðan í Listaháskóla Íslands hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur, Þóru Einarsdóttur, Hönnu Dóru Sturludóttur og Kristni Sigmundssyni.
Harpa Ósk var einn sigurvegara í keppni Sinfóníuhljómsveitar Íslands og LHÍ, Ungir einleikarar, og hún hlaut titilinn „Rödd ársins 2019“ í keppninni Vox Domini. Hún þreytti frumraun sína með Íslensku óperunni árið 2019 í hlutverki Barbarinu í Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart. Verkefni síðasta árs voru m.a. hlutverk í óperunum Toscu við Oper Leipzig, Hans og Grétu við Oper Halle, Achill unter den Mädchen, Juditha Triumphans og 4:48 Psychosis við Prinzregententheater München, Töfraflautunni í Leipzig og Grimma og með Sinfóníuhljómsveit Íslands í febrúar á þessu ári. Þessa stundina er Harpa gestasöngvari við Oper Halle í hlutverkum Sandmännchen og Taumännchen í Hans og Grétu, og í mars 2024 syngur hún titilhlutverkið í óperunni Zanaida eftir J. C. Bach með Útvarpshljómsveit München, Münchner Rundfunkorchester, í Prinzregenten óperuhúsinu.
Hildigunnur Einarsdóttir lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og Signýjar Sæmundsdóttur og stundaði framhaldsnám í Þýskalandi og Hollandi hjá Janet Williams og Jóni Þorsteinssyni. Hildigunnur hefur einnig lokið B.A. prófi í skapandi tónlistarmiðlun frá Listaháskóla Íslands hvar hún sótti söngtíma hjá Hlín Pétursdóttur Behrens. Hildigunnur stjórnar Árkórnum í Reykjavík og Kvennakórnum Kötlu ásamt Lilju Dögg Gunnarsdóttur. Hildigunnur kennir einnig söng við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Söngskólann Domus Vox.
Hildigunnur hefur verið áberandi í kirkjutónlistarsenunni og sungið einsöngshlutverkin m.a. Messías og Judas Maccabeus eftir Händel, Mattheusarpassíu, Jóhannesarpassíu og Jólaóratoríuna eftir Bach og Guðbrandsmessu eftir Hildigunni Rúnarsdóttur. Hildigunnur hefur einnig sungið einsöng m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Barokksveitinni Brák og Kammersveit Reykjavíkur og frumflutt fjölda verka m.a. eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson, Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur og Kolbein Bjarnason. Hildigunnur var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2014 fyrir túlkun sína á sönglögum Karls O. Runólfssonar með kammerhópnum Kúbus og hlaut nýlega Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir söng ársins í sígildri og samtímatónlist.
Fjölnir Ólafsson barítón hóf nám í klassískum gítarleik 10 ára gamall en gerði sönginn að sínu aðalfagi árið 2008. Hann lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2010 og BMus-gráðu frá Hochschule für Musik Saar í Þýskalandi sumarið 2014.
Fjölnir hefur komið fram á fjölda tónleika, hérlendis og erlendis. Hann hefur sungið einsöngshlutverk í fjölda óratoría og tónleikaverka, svo sem Messíasi og Júdasi Makkabeusi eftir Händel, Mattheusarpassíu, Jóhannesarpassíu og Jólaóratoríu Bachs og sálumessum Brahms og Faurés. Þá hefur Fjölnir komið að frumflutningi nýrrar tónlistar, auk þess sem hann hefur lagt mikla rækt við ljóðasöng. Á óperusviðinu hefur hann farið með fjölda hlutverka, m.a. við Saarländische Staatstheater og hjá Íslensku óperunni.
Fjölnir vann til verðlauna í keppnunum „International Richard Bellon Wettbewerb 2011“, „International Joseph Suder Wettbewerb 2012“ og „Walter und Charlotte Hamel
Stiftung 2013“. Hann var valinn Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2013.
Steinar Logi Helgason, stjórnandi kórsins stundaði meistaranám í ensemble conducting við Konunglegu tónlistarakademíuna í Kaupmannahöfn og útskrifaðist þaðan í árslok 2020. Steinar hefur stjórnað fjölda kóra og starfað sem organisti, píanisti og stjórnandi á mörgum vígstöðum.