Tix.is

Um viðburðinn

Tvær ævintýraóperur, Ár og öld (fyrir hlé) og Gilitrutt (eftir hlé) samdar af Þórunni Guðmundsdóttur eru sýndar á einni sýningu í Iðnó. Sýningin er hugsuð fyrir alla aldurshópa.
Ár og öld byggist á ævintýrinu um Þyrnirós, en í þetta skiptið verður prinsinn fyrir því óhappi að vekja nornina í staðinn fyrir Rós. Nornin reynir að sannfæra hann um að hún sé prinsessan sem hafi sofið í heila öld. Á endanum vaknar samt Rós þegar prinsinn hnýtur um fótlegginn á henni. Þegar þau hrífast hvort af öðru finnst norninni það vera svik við sig og ákveður að nota snælduna til þess að svæfa prinsinn, en það leiðir til óvæntra endaloka.
Í Gilitrutt kynnumst við bóndanum Einari sem á afskaplega lata konu. Einn daginn kemur hann með heilmikla ull fyrir hana til að vinna úr. Húsfreyja lofar öllu fögru, en gleymir sér í dagdraumum. Þá birtist ókunnug kona sem býðst til þess að vinna alla ullina fyrir hana. Það eina sem hún biður um að launum er að húsfreyja geti upp á nafninu á henni þegar hún komi aftur með ullina. Það kemur svo í ljós að þessi kona er ekkert lamb að leika sér við. Þrjú aðalhlutverk eru í hvorri óperu og sannarlega valinn söngvari í hverju rúmi. Einnig er kór í sýningunni auk sjö manna kammersveitar. Sólveig Sigurðardóttir stjórnar.

Höfundur: Þórunn Guðmundsdóttir
Leikstjórn: Þórunn Guðmundsdóttir
Stjórnandi: Sólveig Sigurðardóttir
Lýsing: Fjölnir Gíslason

Söngvarar í Ár og öld: Björk Níelsdóttir (Rós), Eggert Reginn Kjartansson (prins), Margrét Hrafnsdóttir (norn).

Söngvarar í Gilitrutt: Erla Dóra Vogler (Gilitrutt), Gunnlaugur Bjarnason (Einar bóndi), Hulda Gissurardóttir Flóvenz (Golsa), Kristín Sveinsdóttir (Ragnhildur húsfreyja).

Óperusýningin er styrkt af Tónlistarsjóði.