Tix.is

Um viðburðinn

Söngsveitin Fílharmónía flytur ásamt hljómsveit og einsöngvurum Messu heilagrar Sesselju eftir Joseph Haydn þann 21. október kl. 17.00 í Langholtskirkju. Einsöngvarar verða Herdís Anna Jónasdóttir, Kristín Sveinsdóttir, Eggert Reginn Kjartansson og Unnsteinn Árnason. Konsertmeistari er Páll Palomares og stjórnandi Magnús Ragnarsson.

Verkið tilheyrir klassíska tímabili tónbókmenntanna og byggir á messutexta kaþólsku messunnar. Nafn verksins vísar til verndardýrlings tónlistarinnar, heilagrar Sesselju, en dagur hennar er 22. nóvember. Verkið hefur verið flutt nokkrum sinnum á Íslandi og flutti Söngsveitin Fílharmónía verkið síðast árið 2002 í Langholtskirkju.

Söngsveitin Fílharmónía er 70 manna blandaður kór og hefur verið starfandi frá árinu 1960. Kórinn hefur flutt fjölbreytta tónlist frá öllum tímabilum tónlistarsögunnar og heldur reglulega tónleika. Í desember sl. flutti kórinn Jólaóratoríuna eftir J.S. Bach ásamt hljómsveit og einvalaliði einsöngvara og hlaut mikið lof áheyrenda fyrir. Á efnisskrá kórsins þetta starfsárið eru auk Messu heilagrar Sesselju, aðventutónleikar 2. desember þar sem kórinn mun flytja fjölbreytta jólatónlist ásamt sópransöngkonunni Bryndísi Guðjónsdóttur. Þann 17. mars flytur kórinn Stabat Mater eftir Antonín Dvorák ásamt einsöngvurum og píanóleikara. Á vormánuðum mun kórinn vinna að efni til útgáfu á helstu tónlistarstreymisveitur en þegar er þar að finna tónlist í flutningi kórsins.