Tix.is

Um viðburðinn

Þór Breiðfjörð bregður á leik með sömu góðu félögum og í fyrra. Fluttar verða sígildar perlur Nat King Cole og önnur vinsæl jólalög, útsett í anda tríósins ástsæla. Sem fyrr bregður Þór á leik með óvæntum uppátækjum og spjalli við áhorfendur og leynigesti sem laumast í heimsókn. Tónleikarnir í ár verða haldnir í Kaldalóni í Hörpu.

Þessir persónulegu og hjartnæmu tónleikar hafa átt sérstakan sess í hjarta margra Íslendinga í gegnum árin og platan “Jól í stofunni” hljómar víða dagana fyrir jól.

Með Þór eru Jón Rafnsson, Kjartan Valdemarsson og Ásgeir Ásgeirsson, allir meðal okkar virtustu djasstónlistarmanna. Ásgeir brá á leik í fyrra með strengjahljóðfærum frá botni Miðjarðarhafs þannig að vitringarnir sjálfir virtust mættir til að spila fyrir jesúbarnið.

Þór Breiðfjörð – söngur/vocal
Ásgeir Ásgeirsson– gítar/guitar
Kjartan Valdemarsson – píano/piano
Jón Rafnsson – kontrabassi/double bass

Nánar um listamennina:

Þór Breiðfjörð hefur flutt lög fyrir landsmenn í anda Nat King Cole og fleiri flauelsbarka í mörg ár. Hann á farsælan feril að baki í alþjóðlegum söngleikjum auk þess að hafa unnið Grímuna hér á landi fyrir hlutverk Jean Valjean í Vesalingunum (Þjóðleikhúsið), grímutilnefningu fyrir hlutverk Óperudraugsins í Eldborg og gríðarlega farsæla uppsetningu á Jesus Christ Superstar í Eldborg þar sem Þór söng hlutverk Júdasar. Í febrúar 2024 frumsýnir Þór og leikur aðalhlutverkið í nýja Íslenska gamanrokksöngleiknum Hark! Þór hefur gefið út þrjár einmenningsplötur, meðal annars jólaplötuna Jól í stofunni sem hægt er að hlusta á hér: http://bit.ly/thorjol

Ásgeir Ásgeirsson er einn fremsti djassgítarleikari landsins og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir bæði tónsmíðar og plötuútgáfu. Hann spilar reglulega í leiksýningum og fjölda tónleika hér á landi. Hægt er að lesa sér til um hann hér: https://www.tonlistarskolifih.is/kennarar/4

Jón Rafnsson er gríðarlega afkastamikill og farsæll hljóðfæraleikari og plötuútgefandi. Meðal verkefna hans má nefna tríóin Guitar Islancio, DJÄSS og Delizie Italiane. Hægt er að lesa meira um Jón hér: http://jrmusic.is/jon-rafnsson/ 

Kjartan Valdemarsson er einn af vinsælustu píanistum landsins, bæði í leikhúsi og á alls konar tónleikum. Hann er meðlimur í hljómsveitinni Todmobile, hefur útsett fyrir Stórsveit Reykjavíkur og svo mætti lengi telja. Hægt er að lesa um hann hér: https://is.wikipedia.org/wiki/Kjartan_Valdemarsson