Tix.is

Um viðburðinn

 

Rokksveitin Nykur sendi nýverið frá sér glænýja breiðskífu er nefnist Nykur III.  

Af því tilefni mun sveitin blása til veglegra útgáfutónleika í Bæjarbíói, Hafnarfirði laugardagskvöldið 30. september.

 

Þetta er þriðja plata sveitarinnar og er tónmálið hálfgert hlaðborð af ýmsum stílum og stefnum rokksins, borin uppi af gallhörðum gítarriffum í bland við ljúfsárar melódíur - heilmikið ferðalag þar sem glíma við okkur sjálf er undirliggjandi þráður verksins.

Verður nýju tónlistinni gerð góð skil á tónleikunum og einnig fá eldri ópusar að fljóta með ásamt vel völdum ábreiðum.

Tvær smáskífur af nýju plötunni, „Í angist og ótta“ og „Með hjörtun helköld“, hafa þegar litið dagsins ljós og heyrast reglulega í útvarpinu. Platan er nú aðgengileg á helstu streymisveitum og er líka væntanleg á geisladisk.

 

Meðlimir Nykurs eru hertir í áralangri þjónustu rokkgyðjunnar:
Davíð Þór Hlinarson (Buttercup, Dos Pilas) - söngur og gítar,  

Guðmundur Jónsson (Sálin hans Jóns míns, GG blús) - gítar og raddir,

Jón Svanur Sveinsson (Númer núll, Daysleeper) - bassi og raddir,

Magnús Stefánsson (Utangarðsmenn, Egó) – trommur.

 

Rokksveitin Nykur var stofnuð 2013 og þá strax um sumarið gaf sveitin út sína fyrstu plötu, samnefnda hljómsveitinni. Frumraunin fékk prýðis viðtökur, tónlistin var fjölbreytt, bæði járnblendin og grípandi.

Önnur plata sveitarinnar, Nykur II, kom síðan út 2016 með sterkum höfundareinkennum en fetaði líka nýja krókastigu miðað við fyrstu plötu sveitarinnar, margræðnari með þyngri undiröldu.