Tix.is

Um viðburðinn

Séð frá Tungli - Sönglög Jórunnar Viðar í jazz- og kabarett útsetningum
Ásgerður Júníusdóttir, Agnar Már Magnússon, Matthías Hemstock, Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson
Jórunn Viðar (1918-2017) er eitt helsta tónskáld íslendinga og fyrsta íslenska konan sem lagði stund á nám í tónsmíðum. Tónlist Jórunnar er fjölbreytt en hún samdi m.a. fjölda sönglaga, kórverk og píanókonsert, auk þess sem hún var frumkvöðull í smíðum ballett- og kvikmyndatónlistar á Íslandi. Verk hennar hafa löngum þótt hafa yfir sér þjóðlegan blæ enda sótti hún gjarnan í íslenskan arf í viðfangsefnum sínum. Í tónlist hennar má þó greina ýmis önnur áhrif ef betur er að gætt. Jórunn var afburða píanóleikari og hún lagði stund á hljóðfæranám í Berlín á árunum 1937 til 1939. Auk þess lærði hún tónsmíðar í Julliard í New York frá 1943 til 1945 undir leiðsögn Vittorios Giannini sem seinna átti eftir að kenna Herbie Hancock og David Amram meðal annarra. Jórunn samdi mörg sönglaga sinna við ljóð íslenskra samtíma ljóðskálda og var óhrædd við nýjungar.
Ásgerður Júníusdóttir, mezzósópran, er klassískt menntuð söngkona sem um nokkra hríð hefur
skoðað möguleg jazz- og kabarettáhrif í tónlist Jórunnar í samvinnu við Agnar Má Magnússon
píanóleikara og tónskáld, með það fyrir augum að taka upp plötu þar sem sönglög Jórunnar væru
útsett og leikin og sungin í því samhengi. Tökum á plötunni er nú lokið en auk Ásgerðar og Agnars
Más tóku Matthías Hemstock trommu- og slagverksleikari og Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson
kontrabassaleikari þátt í upptökunum, og lögðu þar sitt á vogarskálarnar í þeim nýju útsetningum
sem frumfluttar verða á þessum tónleikum.


Ásgerður Júníusdóttir : rödd
Agnar Már Magnússon : píanó
Matthías Hemstock : trommur
Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson : kontrabassi