Tix.is

Um viðburðinn

Upplifðu Heiðmörk á nýjan og óvæntan hátt!

Twisted Forest eftir alþjóðlega leikhópinn Wunderland er þátttökuverk, einskonar listræn útgáfa af hlutverkaspili (e. role playing game). Í upphafi fá áhorfendur sérstakan hlífðargalla og hljóðbúnað til að notast við á sýningunni. Á ólíkum stöðum í Heiðmörk, utan við hina hefðbundu gönguleið, hafa verið sett upp ólík svæði sem bjóða áhorfendum að upplifa umhverfið í kringum sig á nýjan og óhefðbundin hátt. Verkið er þannig völundarhús af ólíkum upplifunum í skóginum sem áhorfendur upplifa bæði í hópi og einir síns liðs. Á sumum svæðum hitta áhorfendur leikara sem leiða þá í gegnum verkið en annars staðar eru þeir leiddir áfram af hljóðmyndinni. Þeir geta stoppað eins lengi og þeir vilja við hverja upplifun, ákveðið hvort þeir vilja eða vilja ekki taka þátt og hvenær þeir halda áfram ferð sinni. Þannig er upplifun hvers og eins persónubundin og ólík upplifun annara.

Í verkinu er ferðast um Heiðmörk utan við hefðbundnar gönguleiðir svo áhorfendur þurfa að geta gengið á ólíku undirlagi.

Mikilvægt er að klæða sig eftir veðri og vera í góðum skóm.

Verkið hentar fyrir 10 ára og eldri en hljóðmyndin er á ensku.


Nánar um verkið og leikhópinn:

Twisted Forest rannsakar vistkerfi náttúrunnar og hvernig við, mannfólkið erum hluti af vistkerfi heimsins, auk þess sem hver og einn einstaklingur er sitt eigið vistkerfi. Það er byggt á heimspekikenningum um að hugurinn sé líkt og landkönnuður, líkaminn sé hið ókannaða land og ástand hugans sé tjáð í gegnum líkamann. Áhorfandinn upplifir verkið að miklu leiti í gegnum könnun á áður óþekktu landslagi í skóginum með líkamlegri skynjun; með því að leggjast í mjúkan mosa, skríða í gegnum þykkt kjarr, halda jafnvægi á viðardrumbi, finna lykt af mold o.s.frv. Svæðin sem áhorfendur ferðast um byggja á ólíkum líkamspörtum á borð við lungu, blóð og æðakerfi, bein og vöðva. Þessir líkamspartar endurspeglast í náttúrulegu umhverfinu. Stundum leiðir hljóðmyndin áhorfendur í gegnum þessa samþættu eiginleika en stundum uppgötva þeir það sjálfir með sínum eigin líkama.

Alþjóðlegi leikhópurinn Wunderland sérhæfir sigí að búa til verk í óhefðbundnum rýmum sem bjóða áhorfendum að nota skynvit sín á óvæntan og nýjan máta. Í verkum hópsins er áhorfandinn þátttakandi sem ferðast um verkið einn eða í hópi. Verk leikhópsins hafa verið sýnd víða um heim, en hópurinn sýndi m.a. verk sitt Phoenix í Snarfarahöfn á Listahátíð í Reykjavík árið 2017 og verkið Horse Inside Out í Hafnarhúsinu árið 2022.