Tix.is

Um viðburðinn

Hádegistónleikar - Laugardagur 6. maí

Daníel Þorsteinsson, píanó og orgel
Kristjana Arngrímsdóttir, söngur
Ösp Eldjárn, söngur

Samstarf mæðgnanna Kristjönu Arngrímsdóttur og Aspar Eldjárn Kristjánsdóttur hófst fyrir alvöru árið 2005 þegar Kristjana gaf út plötuna Í húminu. Síðan þá hafa þær reglulega komið fram saman og er samhljómur þannig að erfitt að greina raddirnar í sundur. Þær eru báðar gefnar fyrir hið þjóðlega og tilfinningaríka og samanstendur dagskráin af sálmum, þjóðlögum og frumsömdum lögum. Píanóleikarinn og organistinn Daníel Þorsteinsson, sem einnig kemur fram á tónleikunum, hefur unnið náið með Kristjönu frá því hún hóf sóló ferilinn og hefur m.a ljáð þremur plötum hennar sinn einstaka hljóm.

Söngkonan Kristjana Arngrímsdóttir hóf söngferil sinn í Tjarnarkvartettinum ásamt með Kristjáni Eldjárn Hjartarsyni, eiginmanni sínum, Hjörleifi Hjartarsyni og Rósu Kristínu Baldursdóttur. Eftir að kvartettinn var leystur upp hóf Kristjana sólóferil sinn. Hún hefur fjölbreyttan tónlistarstíl, allt fá þjóðlögum og vísnalögum, sálmum, uppí sjóðandi heita tangóa og dægurlög. Hún hefur haldið fjölmarga tónleika hér á landi og erlendis og gefið út fjóra sólóplötur. Kristjana vinnur nú að sinni fimmtu útgáfu sem inniheldur hennar eigin tónsmíðar við eigin texta og annara og er hún væntanleg á þessu ári.

Ösp Eldjárn hóf snemma að syngja og var farin að koma fram með foreldrum sínum snemma á unglingsárum. Árið 2009 stofnaði hún ásamt vinum sínum alþýðu og suðurríkja hljómsveitina Brother Grass sem átti góðu fylgi að fagna. Árið 2011 flutti Ösp til London þar sem hún stundaði tónlistarnám í LCCM og ICMP. Um það leyti fór Ösp að semja sín eigin lög og texta. Hún gaf út sína fyrstu sóló plötu, Tales from a poplar tree, árið 2017 og hlaut hún tilnefningu til íslensku tónlistarverðlaunanna. Ösp hefur haldið fjölda tónleika á Íslandi, bæði ein og með hljómsveitum sínum og komið fram víða í Bretlandi. Má þar nefna Cambridge Folk Festival, Festival No6 í Wales og Unamplifire í London. Hún vinnur um þessar mundir að fyrstu plötu systkinahljómsveitarinnar Blood Harmony.

Daníel Þorsteinsson (1963) er fæddur í Neskaupstað, hóf hann tónlistarnám sitt þar og nam síðar við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Tónlistarskólann í Reykjavík. Feril sinn sem píanóleikari hóf hann samhliða námi við Sweelinck tónlistarháskólann í Amsterdam þaðan sem hann lauk DM prófi í píanóleik og kennslufræðum árið 1993. Að loknu námi hefur Daníel starfað við tónlistarflutning af ýmsu tagi með fjölmörgum listamönnum og hópum, leikið inn á fjölda hljómdiska, stjórnað kórum og hljómsveitum, auk þess að sinna kennslu við Tónlistarskólann á Akureyri. Með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hefur Daníel leikið reglulega auk þess að útsetja fyrir sveitina og stjórna SinfoniaNord í upptökum á kvikmyndatónlist. Daníel hefur stundað tónsmíðar um árabil, haustið 2019 hóf hann MA nám í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist í desember 2021. Daníel nýtur nú listamannalauna frá íslenska ríkinu en hann verður staðartónskáld á tónlistarhátíðinni WindWorks í Norðri 23 sem fram fer á Norðurlandi í ágúst næstkomandi. Daníel býr í Eyjafjarðarsveit.