Tix.is

Um viðburðinn

Vindur og vissa – á tímaflakki um Evrópu.

Söngsveitin Fílharmonía blæs til vortónleika þar sem flutt verður tónlist eftir tónskáld frá ýmsum Evrópulöndum. Farið verður vítt og breytt um tónlistarstefnur, allt frá síðustu árum endurreisnar til vorra daga og innihalda textarnir gjarnan hugleiðingu um lífið. Yfirskrift tónleikanna „Vindur og vissa“ vísar í ljóð eftir einn kórfélagann, Davíð Hörgdal Stefánsson, þar sem spurningum um lífið og tilveruna er velt upp. Magnús Ragnarsson stjórnandi kórsins samdi lagið við ljóðið sem verður að sjálfsögðu flutt á tónleikunum.

Frítt er fyrir börn 14 ára og yngri og þarf ekki að panta miða fyrir börnin.

Það er nóg um að vera hjá Söngsveitinni Fílharmóníu nú sem endranær. Í fyrra fagnaði kórinn 60 ára afmæli sínu með frábærum flutningi á Sálumessu Verdis og hlaut lof gagnrýnenda fyrir. Um síðustu jól flutti kórinn svo Jólaóratoríuna eftir Johann Sebastian Bach við mikla hrifningu áheyrenda. Nú að undanförnu, meðfram því að undirbúa vortónleikana þann 16. apríl, hefur kórinn unnið að upptökum á nokkrum íslenskum kórverkum og gefið út á Spotify og fleiri streymisveitum undir nafninu “Philharmonic Choir of Iceland”. Kórinn mun svo enda þennan starfsvetur í Eldborgarsal Hörpu þegar hann tekur þátt í flutningi á Carmina Burana ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands og fleiri kórum þann 1. júní næstkomandi.