Tix.is

Um viðburðinn

Horfðu á tónlistina! - Táknaðir og raddsungnir kórtónleikar

Kæmi það þér á óvart ef við segðum þér að heyrnarlaust og heyrnarskert fólk nýtur tónlistar og semur sína eigin? Að með táknmáli er hægt að búa til nýjar gerðir ljóðlistar? Hvað myndi gerast ef við blönduðum þeim saman við tónlistina sem við þekkjum?

Við erum tveir nemar, einn í tónlist og annar í málvísindum. Yfir sumarið höfum við sett saman verkefni og boðið fólki með mismunandi bakgrunn og lífsreynslu að taka þátt í því: heyrnarlausu fólki, heyrnarskertu fólki, CODA-börnum, fólki sem er táknmálstalandi, fólki sem kann ekki táknmál, tónlistarfólki. Saman ætlum við að koma með hugmynd að tónlistartjáningu sem allir geta notið og enginn er skilinn útundan.

Íslenskt táknmál (ÍTM) verður í forgrunni á þessum tónleikum: í stað þess að þýða texta heyrandi tónlistarfólks sömdum við tónlist út frá táknmálsverkum.

Uppgötvaðu tónlist sem þú sérð og finnur fyrir ásamt því að heyra hana; þar sem rödd og hendur vinna saman til að skapa merkingu og mynda tengsl á milli fólks; uppgötvaðu hvernig táknmál og raddmál mynda eina heild og hvernig lífsreynsla einhvers annars getur auðgað þína eigin.

Komdu og taktu þátt í einstakri tilraun til að kanna nýjar leiðir til að búa til og njóta tónlistar.

Á endanum áttaði ég mig á því, með því að taka heyrnartækin af, að ég heyrði minna með eyrunum og meira með líkamanum.
-Evelyn Glennie, Heyrnarlaus slagverksleikari