Tix.is

Um viðburðinn

Kór Hallgrímskirkju heldur hausttónleika sína 30. október næstkomandi. Þar verða flutt bresk tónverk fyrir orgel og kór ásamt nýjum íslenskum kórverkum sem samin er sérstaklega fyrir Kór Hallgrímskirkju. Verkin sem flutt verða eru eftir Hjálmar H. Ragnarsson, Hildigunni Rúnarsdóttur, Þorvald Örn Davíðsson og Sigurð Sævarsson. Einnig verða flutt verk eftir Britten, Howells, Carter og
Macmillan. Stjórnandi er Steinar Logi Helgason og Björn Steinar Sólbergsson leikur á orgel. Einsöngvarar eru úr röðum kórfélaga. Verkin sem frumflutt verða
voru samin með styrkjum frá Tónlistarsjóð kirkjunnar og Stefs og Tónskáldaskáldasjóði Rúv og Stefs.

Kór Hallgrímskirkju var stofnaður haustið 2021 og telur nú hópurinn um 45 manns. Kórinn hefur frá stofnun tekið þátt í helgihaldi í Hallgrímskirkju ásamt tónleikahaldi og upptökum. Kórinn hefur lagt mikið upp úr flutningi á íslenskri kórtónlist og er mikilvægur hluti af starfi kórsins að stuðla að nýsköpun með frumflutningi nýrra tónverka. Haustið 2022 mun kórinn frumflytja 5 ný verk eftir íslensk tónskáld sem samin eru sérstaklega fyrir kórinn. Kór Hallgrímskirkju hefur einnig átt í gjöfulu samstarfi við Barokkbandið Brák en næstu tónleikar Kórs Hallgrímskirkju og Brákar verða 27. nóvember en þeir verða tileinkaðir tónlist Johanns Sebastian Bach.

Steinar Logi Helgason lærði á píanó í Tónmenntaskóla Reykjavíkur, Nýja Tónlistarskólanum og í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hann hóf nám í Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 2010 og kláraði þar kirkjuorganistapróf og lauk síðar bakkalársgráðu úr Kirkjutónlistarbraut Listaháskóla íslands undir handleiðslu Björns Steinars Sólbergssonar. Steinar Logi stundaði meistaranám í ensemble conducting við Konunglegu tónlistarakademíuna í Kaupmannahöfn og útskrifaðist þaðan jólin 2020. Steinar hefur stjórnað fjölda kóra og starfað sem organisti, píanisti og stjórnandi á mörgum vígstöðum. Hann var tilnefndur ásamt Cantoque ensemble sem tónlistarhópur ársins í flokki Sígildrar-og samtímatónlistar. Steinar Logi tók við stöðu kórstjóra Hallgrímskirkju haustið 2021.

Björn Steinar Sólbergsson er organisti og tónlistarstjóri Hallgrímskirkju í Reykjavík. Hann er einnig skólastjóri Tónskóla Þjóðkirkjunnar þar sem hann kennir jafnframt orgelleik.

Björn Steinar stundaði tónlistarnám við Tónlistarskólann á Akranesi og í Tónskóla þjóðkirkjunnar í Reykjavík. Meðal kennara hans þar voru Haukur Guðlaugsson og Fríða Lárusdóttir. Framhaldsnám stundaði hann á Ítalíu hjá James E. Göettsche og í Frakklandi við Conservatoire National de Region de Rueil Malmaison hjá Susan Landale þar sem hann útskrifaðist með einleikarapróf í orgelleik (Prix de virtuosité) árið 1986.

Hann starfaði sem organisti við Akureyrarkirkju í 20 ár þar sem hann vann að uppbyggingu tónlistarstarfs við kirkjuna.