Þann 25. september næstkomandi verða söfnunartónleikar í Hallgrímskirkju undir heitinu „Hljómar frá heimsskautsbaugi“ þar sem norðlenskir stórsöngvarar og tónlistarfólk koma fram. Þar er um að ræða Eyþór Inga Jónsson organista og söngvarana Ívar Helgason, Jónas Þór Jónasson, Kristjönu Arngrímsdóttur, Óskar Pétursson og Ösp Eldjárn. Þau hafa áður efnt til slíkrar söfnunar í Akureyrarkirkju vegna nýrrar Miðgarðakirkju. Auk þess taka Björn Steinar Sólbergsson organisti, Steinar Logi Helgason kórstjóri og Kór Hallgrímskirkju þátt í tónleikunum.
Sóknarnefnd Hallgrímskirkju hefur haft forgöngu um að safna fyrir nýjum kirkjuklukkum í Miðgarðakirkju sem verið er að reisa í Grímsey. Kirkjan sem fyrir var brann til grunna að kvöldi 21. septembers 2021. Kirkjuklukkurnar tvær úr bronsi í Miðgarðakirkju bráðnuðu í eldinum þannig að ekkert varð eftir heillegt nema kólfarnir sem eru úr járni. Haustið eftir brunann efndi Hallgrímskirkja til samskota vegna kirkjubyggingar í Grímsey í þremur messum. Sérstakar tengingar er um að ræða meðal annars vegna þess að Grétar Einarsson yfirkirkjuvörður, er sonur Einars Einarssonar listasmiðs sem var um sex ára skeið djákni í Grímsey og setti mikinn svip með verkum sínum á Miðgarðakirkju þau 14 ár sem hann bjó í eynni. Síðar varð að ráði að gefa Miðgarðarkirkju klukkur í stað þeirra sem bráðnuðu og er af því einstök saga. Með þessu framtaki er Hallgrímssöfnuður ásamt vinum að endurgjalda með táknrænum hætti gjöf sem gefin var Hallgrímskirkju fyrir hálfri öld í nafni Grímseyinga.