Tix.is

Um viðburðinn

Ensemble Adapter frumflytur Háttatal Guðmunds Steins Gunnarssonar á Norrænum músíkdögum. 

Adapter er þýsk-íslenskur kammerhópur fyrir samtímatónlist með aðsetur í Berlín. Kjarni hópsins samanstendur af kvartett með flautu, klarínettu, hörpu og slagverk. Ásamt fjölmörgum gestahljóðfæraleikurum getur þessi kjarni vaxið í hóp með allt að 10 spilurum. Hópurinn kemur reglulega fram á þekktustu samtímatónlistarhátíðum Evrópu og hefur frumflutt aragrúa tónverka og gefið út alþjóðlega. Adapter hefur lagt ríka áherslu á að þróa stærri þverfagleg verkefni. Með vinnustofum hefur Adapter miðlað þekkingu sinni á því hvernig á að skrifa fyrir hljóðfærin, læra og flytja samtímatónlist til tónskálda, hljóðfæraleikara og skapandi listamenn víðsvegar um heiminn. Adapter tekst á við nýjustu þróun á mismunandi sviðum nútímatónsköpunar og kemur fram á framsækinn hátt með ósviknum og kraftmiklum stíl.

 

Flytjendur:

Ensemble Adapter

(IS/DE):


Kristjana Helgadóttir, flauta

Ingólfur Vilhjálmsson, klarínett

Gunnhildur Einarsdóttir, harpa

Matthias Engler, slagverk

 

Um Háttatal:

Um leið og gömlu hættirnir kynntust rími hófst öld mikillar sýndarmennsku í íslenskri ljóðlist. Hættir gátu farið áfram og afturábak, fyrripartur gat rímað í heilu lagi við seinnipart, vatnsheld sléttubönd með afslætti og hvað þetta nú allt heitir. Ljóðstafirnir voru samt alltaf á samastað og atkvæðafjöldinn líka, fyrir utan eitt og eitt forskeyti.

Þó ekki sé nema smávegis auka innrími bætti inn í aðra hverja línu fær hátturinn nýtt nafn og nýjan blæ. Tónlist, ljóðlist og frásögn voru eitt. Mikið af merkilegum skáldum rituðu háttatöl eða háttalykla, eða á latínu: Clavis Metrica. Síkur lykill var venjulega með dæmum um helstu hætti og sýndi hvernig þær virkuðu með vísum eftir höfundinn sjálfann. Lyklarnir útskýra og kenna en áttu jafnframt að sýna hvers skáldið er megnugt.

Þrátt fyrir allar reglurnar um rím, hákveður og lákveður, ljóðstafi og hvaðeina er tónlistarlega hrynjandin oft mjög teygjanleg í flutningi. Sá þröngi stakkur sem skáldskaparmálið setur tónlistinn býr í rauninni til mjög skýra tilfinningu fyrir endurtekningu sem í rauninni eykur möguleika á sveigjanlegum flutningi þegar kemur að tónlistarlegri hrynjandi, þó tónlistarlega hrynjandin sé toguð og teygð, þekkist form háttanna alltaf, fyrir þá sem fengið hafa fiskinn í eyrað ef svo má að orði komast.

Í Háttatali (2022) Guðmundar Steins Gunnarssonar fylgir hann í fótspor rímnaskáldanna og háttatalsskrifaranna gömlu. Þráður er ofin úr gömlu rímnaháttunum með öllu því skrauti og flúri sem einkenndi gömlu hættina, og allt það án orða eða nokkurs texta. Ýmis hljóð eru dregin fram úr hljóðfærum og hljóðgjöfum ýmiss konar - ljóðstafir, víxlrím, innrím og hvaðeina fær nýtt líf í tungumáli hljóðfæranna. Úr þessu verður til talnaband þar sem hver og ein perla er bara örlítið ólík þeirri síðustu.

Verkið var samið með dyggum stuðningi Starfslaunasjóðs listamanna. Verkið er tileinkað Ensemble Adapter, Svend Nielsen og Atla Ingólfssyni.

 

Við bjóðum ykkur innilega velkomin á Norræna músíkdaga 2022 á Íslandi. Hátíðin fer fram í Reykjavík og Kópavogi. Viðburðarík dagskrá býður upp á fjölbreytta tónleika á ýmsum stöðum og í opinberum rýmum. Samhliða hátíðardagskránni fer fram sýning á nýsköpun í hljóðfærasmíði í Ráðhúsi Reykjavíkur, málstofa um alþjóðleg áhrif í listum, skólatónleikar og vinnustofa fyrir ungt tónlistarblaðafólk. Verið með og deilið ástríðu okkar fyrir uppbyggingu á alþjóðlegu tónlistarsamfélagi!

Norrænir músíkdagar hafa verið haldnir síðan 1888 og er ein af elstu hátíðum fyrir samtíma klassíska tónlist í heiminum. Hátíðin er einstök á þann hátt að hún er skipulögð af tónskáldunum sjálfum. Hátíðin 2022 er skipulögð af Tónskáldafélagi Íslands.