Tix.is

Um viðburðinn

ÍSLENSKI DANSFLOKKURINN: FÓRN

Fórn er glæsileg listahátíð sem kannar tengsl listsköpunar og trúar. Tekist er með nýstárlegum hætti á við ritúalið í hversdagsleika lífs og listar, en viðburðurinn skartar 5 nýjum og spennandi verkum eftir frábæra og virta listamenn úr hinum ýmsu greinum.

Í verkinu Ekkert á morgun (No Tomorrow) eftir Ragnar Kjartansson og Margréti Bjarnadóttur er hugmyndin um æskuna tekin fyrir af hópi dansara sem líða um sviðið með kassagítara, syngja og leika tónlist sem er sérstaklega samin fyrir Íd af Bryce Dessner, tónskáldi og gítarleikara The National.

Sameiningin (Union of the North) eftir bandaríska listamanninn Matthew Barney og þau Ernu Ómarsdóttur og Valdimar Jóhannsson er glæný kvikmynd og innsetning. Hópur manna og kvenna kemur saman í Kringlunni í þeim tilgangi að gæsa og steggja og öðlast um leið andlegan innblástur í musteri verslunarinnar.

Dias Irae eftir Gabríelu Friðriksdóttur er myrk og heillandi vídeó-innsetning sem dvelur við skilin milli lífs og dauða og umbreytingu mannskepnunnar. Myndin er einnig kveikja að dansverkinu Helgidómur (Shrine) eftir Ernu Ómarsdóttur og Valdimar Jóhannsson þar sem dansarar og aðrir sviðslistamenn veita innsýn í sköpunarferlið, eitthvað verður til úr engu og hið fánýta er hafið upp í trúarlega vídd.

Hátíðahöldin ná síðan hápunkti sínum á Markaðnum sem tjaldað hefur verið til í forsal Borgarleikhússins og iðar af lífi og fjöri allan tímann: þar kynna einstaklingar og félagasamtök skoðanir sínar, seldar verða veitingar og listafólk lætur til sín taka.

Fórn er viðamesta uppfærsla í sögu Íslenska dansflokksins sem leggur nú undir sig öll leiksvið Borgarleikhússins (og forsal). Hér flæða dans, myndlist, kvikmyndagerð, leiklist og tónlist saman í einn meginstraum, svo úr verður mögnuð upplifun!

Í samstarfi við Borgarleikhúsið og LÓKAL

Meðframleiðendur: Spring Festival Utrecht; Kunstcentrum BUDA, Kortrijk; Tanzhaus Düsseldorf; Reykjavík Dance Festival (apap).

Verkefnið nýtur stuðnings Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Kulturkontakt Nord, Norræna menningarsjóðsins, Reykjavíkurborgar og Shalala.

Flytjendur : Flytjendur: Aðalheiður Halldórsdóttir, Anaïs Barthes, Ásgeir Helgi Magnússon, Dóra Jóhannsdóttir, Elín Signý W. Ragnarsdóttir, Erna Ómarsdóttir, Friðgeir Einarsson, Halla Þórðardóttir, Hannes Þór Egilsson, Heba Eir Kjeld, Hjördís Lilja Örnólfsdóttir, Inga Maren Rúnarsdóttir, Lovísa Ósk Gunnarsdóttir, Sigtryggur Berg Sigmarsson, Sofia Jernberg, Valdimar Jóhannsson og Þyri Huld Árnadóttir.