Tix.is

Um viðburðinn

Már Gunnarsson tónlistarmaður og sundkappi hefur ákveðið að leggja sundferilinn á hilluna og einbeita sér nú að tónlistinni. Í haust mun hann hefja krefjandi nám í tónlistar-háskóla í Bretlandi og fer þangað einn síns liðs ásamt leiðsöguhundinum Max, en þangað til fyrir brottför mun hann senda frá sér nýja tónlist og fara í stutta tónleikaferð um landið þar sem hann kveður landa sína í bili.

“Ég finn að að ég stend á tímamótum, ég hef náð frábærum árangri í lauginni. Heimsmet og þátttaka á Ólympíuleikum voru markmið sem ég hafði sett mér! En mér finnst það sem laugin býður uppá núna vera meira af því sama. Ég hef keppt á stærstu mótum heims, ég hef staðið á verðlaunapalli og nú er lag að hlusta á hjartað og styrkja mig í tónlistinni. Þess vegna tek ég þessa ákvörðun” Segir Már.

“Ég er að vinna efni núna með frábæru tónlistarfólki. En fyrr í mánuðinum var ég að taka upp valin lög sem Þórir Úlfarsson útsetti með mér. Einar Valur Scheving spilar með mér á trommur, Birgir Steinn Theódórsson spilar á bassa og Pétur Valgarð Pétursson á gítar. Þetta er bæði gamalt íslenskt efni og svo nýtt efni eftir mig í stíl við það” bætir Már við. Um miðjan júlí kemur fyrsta lagið í þessu ferli út en það er nokkurskonar framhald endurgerð Más á laginu Barn eftir Ragga Bjarna við texta Steins Steinars en það söng hann ásamt söngkonunni Ívu og sló svo eftirminnilega í gegn sumarið 2020.

Már heldur áfram að vinna gömul dægurlög og gera þau að sínum en um leið hefur hann samið lög sem hann og Þórir eru að útsetja þannig að heildarmyndin haldi þræði.

Már er fæddur 19. nóvember 1999 og hefur búið í Reykjavík,Vestmannaeyjum, Kaupmannahöfn, Hafnarfirði og Lúxemborg en núna er hann búsettur í Reykjanesbæ. Hann er með augnsjúkdóm sem heitir LCA sem hefur sett mark sitt á líf Más en það er hrörnunarsjúkdómur í augnbotnum sem gert hefur hann blindan.

Þrátt fyrir það hefur Már áorkað meiru en flestir með fulla sjón. Hann er einn fremsti blindi sundmaður heims  og hefur keppt á Norðurlanda, evrópu,heimsmeistaramótum og nú síðast á Ólympíuleikum með góðum árangri!  Már var kjörinn Íþróttamaður fatlaðra árið 2019 og ekki að ósekju því það ár setti Már alls 28 Íslandsmet og synti þrívegis undir gildandi heimsmeti. Már vann til bronsverðlauna á Heimsmeistaramótinu í London 2019. Hann var valinn Íþróttamaður Suðurnesja 2019 og Suðurnesjamaður ársins 2019. Hann er einnig handhafi Kærleikskúlunnar 2019.  Már var einnig valinn sundmaður sundráðs Íþróttabandalags Reykjanesbæjar og Íþróttamaður ársins í röðum fatlaðra árið 2021.

Sérstakur gestur í Garðabæ: Páll Óskar Hjálmtýrsson