Tix.is

  • 29. - 31. júlí
Um viðburðinn

Berjadagar tónlistarhátíð í Ólafsfirði 2022

Frítt er á alla viðburði hátíðarinnar fyrir 18 ára og yngri!


Á þriðja tug listamanna koma fram á Berjadögum tónlistarhátíð 2022 í Ólafsfirði og kennir þar ýmissa grasa í tónsköpun landans: Þjóðlög, sönglög, ópera, kammertónlist og samvera í náttúrunni. Berjadagar er hátíð sem á sér enga aðra líka þegar kemur að tengingu klassískrar tónlistar og náttúru. Þar sem Ólafsfjarðarmúli trónir ægistór mæta tónlistarmenn til að gleðja áheyrendur á besta tíma ársins. Múlinn er sannarlega tákn fyrir harðneskju íslenskrar náttúru; ekki langt frá hlíðum hans mótaðist mannlíf í ,Horninu’, úti á Kleifum og í Ólafsfirði í mikilli einangrun. Samhjálp einkenndi samfélagið í Ólafsfirði með trú á náttúruna og almættið og íbúar sameinuðust um að byggja gullfallega kirkju í miðjum bænum og glæsilegt samkomuhús, Tjarnarborg. Í Ólafsfirði er hið fengsæla Ólafsfjarðarvatn og við enda vatnsins, innar í Firðinum er sögufræg kirkja, Kvíabekkjarkirkja. 14 dalir draga hring um svæðið sem er einstakt útivistarsvæði. Njótið tónlistar, göngu, matar og stemningar á Berjadögum 2022! www.berjadagar.is

Hátíðarpassi kr. 8500,- 

 

 

Föstudagur 29. Júlí

Ólafsfjarðarkirkja kl. 13:30: Margrét Hrafnsdóttir sópran og kvartettinn Spúttnik 

Listamenn: Sigríður Bjarney Baldvinsdóttir fiðla, Diljá Sigursveinsdóttir fiðla, Vigdís Másdóttir víóla, og Gréta Rún Snorradóttir selló // Margrét Hrafnsdóttir sópran, Ármann Helgason klarínett  

Fátt er eins heillandi og þessi hljóðfæraskipan: Tvær fiðlur, víóla, selló! Á þessum fyrstu tónleikum leikur ,Spúttnik’, kvartett í Es- dúr eftir ítalska tónlistarstjörnu síns tíma, Maddalena Sirmen (1745-1818) og kvartett Op. 54 No. 1 í G dúr eftir Jósef Haydn (1732 - 1809).

Tónlistarhjartanu ,okkar´ verður lyft í hæðir með vel völdum íslenskum lögum eftir tónskáldin Jón Nordal, Ingibjörgu Azimu, Ingunni Bjarnadóttur, Kjartan (úr Sigurrós) Sveinsson og Sigursvein D. Kristinsson. Margrét Hrafnsdóttir sópran og kvartettinn Spútnik ásamt Ármanni Helgasyni klarínettuleikara í Ólafsfjarðarkirkju á hádegi. Góða skemmtun! www.berjadagar-artfest.com

Miðaverð kr. 2500

 

Tjarnarborg kl. 20: Þjóðlagasveit Hauks Gröndals: Narodna Muzika 

Listamenn: Haukur Gröndal klarínett og saxófónn, Ásgeir Ásgeirsson tamboura, bousouki og saz, Þorgrímur Jónsson bassi, Magnús Trygvason Elíassen, trommur og slagverk. 

Félagarnir í Narodna Muzika leika framandi rytma og hljóma í bland við þjóðlegan tónlistararf Íslendinga. Haukur Gröndal klarínettu- og saxófónleikari hefur starfað manna fremstur hérlendis í fjölþjóðlegum kima tónlistar: Haukur hefur sökkt sér í þjóðlög austursins og balkanskagans og er framarlega á tónleikasviðum ólíkra tónlistarhátíða víða um heim. Hann er iðinn við frumsköpun í tónlist með vinum eins og Ásgeiri Ásgeirssyni sem einnig sérhæfir sig í fjölþjóðlegum tónlistar heimi líkt og þeir allir sem koma fram í Tjarnarborg þetta upphafskvöld. Haukur hefur hlotið íslensk tónlistarverðlaun fyrir tónlistarflutning sinn og frumsamin verk sín og Ásgeir Ásgeirsson var nú síðast á sviði Listahátíðar í Reykjavík með íslensk-íranska sveiflu sem hann nefndi, Persian Path. www.berjadagar-artfest.com 

Húsið opnar kl. 19. Bar og hátíðarstemning að vanda. Góða skemmtun! 

Miðaverð kr. 3500

 

Laugardagur 30. júlí 

Ólafsfjarðarkirkja kl. 13:30: Fiðlan dansar með Chrissie og Einari Bjarti 

Hægt verður að prófa fiðlur og boga að loknum þessum tónleikum sem höfða til jafnt ungra sem aldna. Chrissie Guðmundsdóttir er einleikari og frumkvöðull í tónlist og skipuleggur sumarnámskeiðið ,,Fiðlufjör’’ á Hvolsvelli þar sem tugir fiðlukrakka mæta ásamt foreldrum til að hafa gaman í nokkra daga undir handleiðslu frábærra fiðluleikara. Hún mætir í Ólafsfjörð ásamt Einari Bjarti Egilssyni píanóleikara og saman flytja þau litríka dagskrá í kirkjunni og hitta unga áheyrendur að loknum tónleikunum. Þau leika grípandi músík eftir tónhöfunda einsog Piazolla, Einar Bjart, Amy Beach og Vivaldi. www.berjadagar-artfest.com 

Miðaverð kr. 2500

 

Tjarnarborg kl. 20: Hátíðarkvöld í Tjarnarborg 

Listamenn: Ármann Helgason klarínett, Einar Bjartur Egilsson píanó, Ólöf Sigursveinsdóttir selló, Slava Poprugin píanó 

Einleiks-, þríleiks- og tvíleiksverk eftir Jón Nordal, Jóhannes Brahms, Snorra Sigfús Birgisson og Edvard Grieg. Brugðið á leik með fjórum höndum á eitt hljómborð, íslensk tónlist í bland við tríó í c-moll eftir Brahms og kraftur tónlistarinnar drífur kvöldið áfram með klarínettuverkinu Ristur eftir Jón Nordal og klárar það með sellósónötu eftir Edvard Grieg í flutningi Ólafar og Slava Poprugin píanóleikara. www.berjadagar-artfest.com 

Húsið opnar kl. 19. Bar og hátíðarstemning að vanda. Góða skemmtun! 

Miðaverð kr. 3500


Sunnudagur 31. júlí : Ólafsfjarðarkirkja kl. 19: Hundur í óskilum 

Listamenn: Hjörleifur Hjartarson og Eiríkur Stephensen 

Tveggja manna stórsveitin Hundur í óskilum fetar óskilgreinda braut á milli þess að vera hljómsveit, leikflokkur og/eða uppistand. Samstarf þeirra Eiríks Stephensen og Hjörleifs Hjartarsonar hófst einhvern tímann á tíunda áratug síðustu aldar norður á Dalvík. Í upphafi fengust þeir aðallega við að endurvinna þekkt dægurlög í undarlegum útsetningum fyrir ýmis tilfallandi hljóðfæri, eldhúsáhöld og hvaðeina sem að gagni gat komið. Í bland voru eigin tón- og textasmíðar sem hafa orðið fyrirferðarmeiri með tímanum. Á síðari árum hefur sveitin fært sig æ meir yfir í leikhúsið. Hundur í óskilum hefur sett upp fjórar kabarett-skotnar leiksýningar sem gengið hafa lengi fyrir fullu húsi bæði norðan heiða og sunnan auk annarra tón-/leiklistarverkefna. Síðasta leikrit þeirra„ Njála á hundavaði“ gekk á fjölum Borgarleikhússins allt síðasta leikár og verður haldið áfram með haustinu. www.berjadagar-artfest.com 

Miðaverð kr. 3500 

 

Tjarnarborg kl. 20:30: Mozart og Schubert í Tjarnarborg

Listamenn: Margrét Hrafnsdóttir sópran, Kristín Mjöll Jakobsdóttir fagottleikari, Ave Kara Sillaots harmónikka, Slava Poprugin píanó, Chrissie Telma Guðmundsdóttir fiðluleikari, Ólöf Sigursveinsdóttir selló, Einar Bjartur Egilsson píanó, Ármann Helgason klarínett, Sigurlaug Eðvaldsdóttir fiðla, Ágústa Bergrós Jakobsdóttir selló, Vigdís Másdóttir víóla  

Ódauðleg tónlist hljómar á friðsælu kvöldi við kertaljós í Menningarhúsinu Tjarnarborg og tendrar eyru og hjörtu gesta Berjadaga sem stofnaðir voru árið 1999 á berjatíma þegar lyngið sprettur og höfugur ilmur svífur yfir foldu. Sérstakir gestir: Kristín Mjöll Jakobsdóttir fagottleikari og Margrét Hrafnsdóttir sópran. www.berjadagar-artfest.com 

 Tónlist eftir Schubert, Mozart, Einar Bjart, Þorkel Sigurbjörnsson o.fl. 

Miðaverð kr 3500