Tix.is

Um viðburðinn

Barbörukórinn flytur nýja íslenska kórtónlist í bland við klassíska sálma og ættjarðarlög. Nú á vordögum hljóðritaði kórinn ný íslensk verk, sem samin voru sérstaklega fyrir kórinn, og verða nú að hluta til flutt á tónleikunum á Sönghátíð í Hafnarborg. Umfjöllunarefni verkanna tengjast öll með einum eða öðrum hætti sambandi manns, náttúru og andlegs lífs í þessu harðbýla landi og endurspegla þau ólíku öfl sem þjóðin hefur sótt í styrk og æðruleysi í gegnum aldirnar – allt frá heiðni til kristni, frá huggun skáldskapar og þjóðsagna til samsemdar með náttúru- og dýralífi landsins.


Efnisskrá

Íslenskt Þjóðlag. Úts. Smári Ólason (1948) Ég byrja reisu mín (Hallgrímur Pétursson)

Auður Guðjohnsen (f.1975) Faðir vor (Bæn úr Mattheusarguðspjalli)

Hugi Guðmundsson (f.1977) Hrímey (Sigurbjörg Þrastardóttir)

Þóra Marteinsdóttir (f. 1978) Örlög (Ása Hlín Benediktsdóttir)

Bára Grímsdóttir (f.1960) Hver sem að reisir hæga byggð (Einar Sigurðsson í Eydölum)

Gott ár oss gefi. (Jón Þorsteinsson)

Þórarinn Guðmundsson (1896-1979) Land míns föður. (Jóhannes úr Kötlum)

Hugi Guðmundsson (f.1977) Barbara mær. (Þórarinn Eldjárn)

Jakob Hallgrímsson (1943-1999) Ó, undur lífs. (Valdimar Þorsteinsson)

Þorkell Sigurbjörnsson (1938-2013) Heyr himnasmiður. ( Kolbeinn Tumason)

Auður Guðjohnsen (f.1975) Hér á ég heima. (Auður Guðjohnsen)

Jón Nordal (f.1926) Smávinir fagrir. (Jónas Hallgrímsson)

Ingi T. Lárusson (1892-1946) Ó blessuð vertu sumarsól. (Páll Ólafsson)

Þorkell Sigurbjörnsson (1938-2013) Nú hverfur sól í haf. (Sigurbjörn Einarsson)

 

Kórinn skipa:

Sópran

Rakel Edda Guðmundsdóttir

Björg Jóhannesdóttir

Hulda Dögg Proppé

Þórunn Vala Valdimarsdóttir


Tenór

Marteinn Snævarr Sigurðsson

Bjarni Guðmundsson

Jón Ingi Stefánsson

Þorkell Helgi Sigfússon


Alt

Elfa Dögg Stefánsdóttir

Kristín Sveinsdóttir

Auður Guðjohnsen

Kristín Sigurðardóttir


Bassi

Pétur Oddbergur Heimisson

Hugi Jónsson

Kristján Karl Bragason

Philip Barkhudarov


Stjórnandi: Guðmundur SigurðssonBarbörukórinn er kammerkór, stofnaður vorið 2007 af Guðmundi Sigurðssyni, organista Hafnarfjarðarkirkju, og nokkrum lærðum söngvurum. Kórinn kennir sig við heilaga Barböru en líkneski af dýrlingnum fannst árið 1950 við uppgröft í fornri kapellu í Kapelluhrauni í Hafnarfirði. Kórinn kemur reglulega fram við helgihald Hafnarfjarðarkirkju auk tónleikahalds og söngs við útfarir þar og víðar. Barbörukórinn hefur lagt sérstaka áherslu á íslenskan tónlistararf og hefur gefið út geisladiskinn „Syngið Drottni nýjan söng“ þar sem fluttar eru útsetningar Smára Ólasonar á perlum úr íslenska tónlistararfinum. Diskurinn fékk góðar viðtökur. Sumarið 2015 kom kórinn fram á tónleikum í Marienkirche í Berlín og við messu í Berliner Dom. Við bæði tækifæri var flutt íslensk kirkjutónlist eftir nokkur af fremstu tónskáldum Íslendinga. Haustið 2016 var kórinn valinn sem fulltrúi Íslands á Norrænt kirkjutónlistarmót í Gautaborg þar sem kórinn flutti íslenska kirkjutónlist á tónleikum í Vasa- kirkjunni þar í borg við góðar undirtektir. Í desember 2017 kom kórinn fram í Hörpu á eftirminnilegum tónleikum með hinum heimsþekkta djasspíanista Jan Lundgren og bassaleikaranum Hans Backenroth, þar sem fluttar voru endurreisnarmótettur við spuna Lundgrens. Féllu tónleikarnir í afar góðan jarðveg og hlaut söngur kórsins sérstakt lof gagnrýnanda Fréttablaðsins sem sagði tónleikana meðal bestu tónleika ársins. Árið 2018 flutti kórinn Requiem eftir Luis de la Victoria í Kristskirkju í tilefni af Allraheilagramessu. Verkið, sem er að mestu í sex röddum, var samið fyrir útför spænsku keisaraynjunnar Maríu sem lést 1603. Það er jafnframt svanasöngur tónskáldsins og markar á vissan hátt endalok spænsku gullaldarinnar. Flutti kórinn verkið við góðar viðtökur tónleikagesta. Vorið 2019 stjórnaði Hilmar Örn Agnarsson kórnum í leyfi Guðmundar Sigurðssonar. Kórinn hélt tónleika í Hafnarfjarðarkirkju með yfirskriftinni Ungfrú Reykjavík fer í heimsferð. Haustið 2019 frumflutti kórinn 13 verk eftir Auði Guðjohnsen í Hafnarborg og fékk mikið lof fyrir. Fyrirhugaðar upptökur eru öðrum þræði framhald af því verkefni. Í september 2021 flutti kórinn Djassmessu, A little jazz mass, eftir Bob Chilcott ásamt Tríói Andrésar Þórs í Hafnarfjarðarkirkju.Guðmundur Sigurðsson hefur verið organisti Hafnarfjarðarkirkju frá 2006. Hann lauk kantorsprófi frá Tónskóla þjóðkirkjunnar árið 1996, þar sem Hörður Áskelsson var orgelkennari hans, og burtfararprófi frá sama skóla 1998. Vorið 2002 lauk hann meistaraprófi með láði frá Westminster Choir College í Princeton þar sem orgelkennari hans var Mark A. Anderson og kórstjórnarkennari hinn nafntogaði Joseph Flummerfelt. Til námsins í Princeton hlaut Guðmundur styrk úr minningarsjóði Karls Sighvatssonar. Guðmundur hefur komið fram á tónleikum hérlendis og erlendis, ýmist sem einleikari eða meðleikari með einsöngvurum og kórum. Hann er reynslumikill orgelkennari, var formaður FÍO/Organistadeildar FÍH á árunum 2004-2009 og er nú varaformaður Kirkjutónlistarráðs. Guðmundur var helsti ráðgjafi Hafnarfjarðarkirkju við endurnýjun orgels kirkjunnar. Sú vinna leiddi til smíði á tveimur stílhreinum orgelum, Scheffler orgeli í þýskum síðrómantískum stíl 2008 og Wegscheider mið-þýsku barokkorgeli 2009. Guðmundur, söngkonan Magnea Tómasdóttir og tónvísindamaðurinn Smári Ólason unnu saman að gerð geisladisksins„... allt svo verði til dýrðar þér“ árið 2003 þar sem þau Guðmundur og Magnea fluttu útsetningar Smára á perlum úr þjóðlagaarfinum í útgáfu Smekkleysu. Vorið 2007 stofnaði hann Barbörukórinn sem haustið 2012 gaf út geisladiskinn „Syngið Drottni nýjan söng“ við góðar undirtektir. Undir stjórn Guðmundar hefur kórinn jafnframt komið fram við fjölda kirkjulegra athafna og á tónleikum hérlendis og erlendis. Árið 2009 hleypti hann af stokkunum tónleikaröðinni „Hádegistónleikar í Hafnarfjarðarkirkju“ þar sem fram koma íslenskir orgelleikarar. Í febrúar 2019 sl. kom út fyrsta orgeleinleiksplata Guðmundar „Haf“, sem Hafnarfjarðarkirkja gaf út í tilefni af 10 ára afmæli orgela kirkjunnar. Voru Guðmundi veitt starfslaun listamanna í sex mánuði til að fylgja útgáfu plötunnar eftir með tónleikahaldi innanlands og erlendis.


Leiðarljós - Sönghátíð í Hafnarborg 18.6. – 10.7.2022

Sönghátíð í Hafnarborg býður upp á átta tónleika með framúrskarandi söngvurum, kór og hljóðfæraleikurum sem flytja fjölbreytta tónlist frá ólíkum tímum. Á sjötta tug atvinnutónlistarmanna frá Íslandi og erlendis að taka þátt í hátíðinni. Á Sönghátíð í Hafnarborg er einnig boðið upp á fimm námskeið. Þema hátíðarinnar í ár er Leiðarljós.

,,Vissi ég áður voruð þér, vallarstjörnur um breiða grund, fegurstu leiðarljósin mér. Lék ég að yður marga stund“. Þannig orti Jónas Hallgrímsson í ljóðinu Úr Hulduljóðum, einnig þekkt sem Smávinir fagrir. Ljóð Jónasar er innblástur hátíðarinnar í ár þar sem það minnir okkur á gildi fegurðarinnar, hins smáa og viðkvæma þegar við höfum villst af leið. Ljóð og tónlist geta hjálpað okkur við að tengja við okkur sjálf, umheiminn, náttúruna, sjá samhengið á milli okkar og annarra, veita okkur innblástur og kenna okkur að meta fegurð lífsins allt í kringum okkur.


Á Sönghátíð í Hafnarborg er ekki einungis leitast við að leggja rækt við list augnabliksins, heldur er einnig horft til framtíðar með því að birta á YouTube síðu hátíðarinnar valdar myndbandsupptökur af tónleikum og viðtöl við söngvara.

Sönghátíð í Hafnarborg er sjálfstæð hátíð, sem haldin er nú sjötta árið í röð í gjöfulu samstarfi við Hafnarborg. Hátíðin í ár nýtur stuðnings Hafnarfjarðarbæjar, Tónlistarsjóðs, Starfslauna listamanna og Menningarsjóðs FÍH.

Verið velkomin á Sönghátíð í Hafnarborg!


Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og Francisco Javier Jáuregui
listrænir stjórnendur og stofnendur Sönghátíðar í Hafnarborg


Tónleikar á Sönghátíð í Hafnarborg 2022:

18.6. 17:00 – Meiri Mozart! Egill Árni Pálsson tenór, Gunnlaugur Bjarnason baritón, Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað sópran, Karin Björg Torbjörnsdóttir mezzósópran, Oddur Arnþór Jónsson baritón, Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir sópran og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari flytja sönglög, aríur og samsöngsatriði úr óperum eftir W. A. Mozart.

19.6. 17:00 – Barbara mær. Barbörukórinn undir stjórn Guðmundar Sigurðssonar flytur nýja íslenska kórtónlist.

23.6. 20:00 – Diddú master class nemendatónleikar. Nemendur á master class námskeiði Diddúar flytja sönglög og aríur. Helga Bryndís Magnúsdóttir leikur með á píanó.

24.6. 17:00 – Fjölskyldutónleikar. Jón Svavar Jósefsson baritón og Kristján Hrannar Pálsson píanóleikari flytja fjöruga dagskrá. Börn af tónlistar- og myndlistarnámskeiði koma einnig fram.

25.6. 17:00 – Óperugala. Alexander Jarl Þorsteinsson tenór, Bjarni Thor Kristinsson bassi, Eyrún Unnarsdóttir sópran, Kristín Sveinsdóttir mezzósópran og Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari flytja aríur og samsöngsatriði úr ýmsum ástsælum óperum.

26.6. 17:00 – Ó eilífi foss sem rambar á fossvegum guðs. Herdís Anna Jónasdóttir sópran, Hildigunnur Einarsdóttir mezzósópran og CAPUT undir stjórn Guðna Franzsonar frumflytja nýtt verk eftir Kolbein Bjarnason við ljóð eftir Steinunni Sigurðardóttur.

2.7. 17:00 – Leiðarljós - Íslensk einsöngslög. Diddú (Sigrún Hjálmtýsdóttir) sópran, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran, Kolbeinn Jón Ketilsson tenór, Francisco Javier Jáuregui gítarleikari og Sigurður Helgi Oddsson píanóleikari flytja íslensk einsöngslög eftir fjölmörg tónskáld.

10.7. 17:00 – Hnattferð. Sonor Ensemble (strengjakvintett og píanó) sem skipað er hljóðfæraleikurum úr Sinfóníuhljómsveit Spánar flytur spænska og portúgalska tónlist. Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran og Francisco Javier Jáuregui gítarleikari koma fram undir stjórn Luis Aguirre á tónleikum sem innblásnir eru af fyrstu hnattferð Magellan og Elcano fyrir 500 árum.Smávinir fagrir

Smávinir fagrir, foldarskart,

fífill í haga, rauð og blá

brekkusóley, við mættum margt

muna hvort öðru að segja frá.

Prýðið þér lengi landið það,

sem lifandi guð hefur fundið stað

ástarsælan, því ástin hans

allstaðar fyllir þarfir manns.


Vissi ég áður voruð þér,

vallarstjörnur um breiða grund,

fegurstu leiðarljósin mér.

Lék ég að yður marga stund.

Nú hef ég sjóinn séð um hríð

og sílalætin smá og tíð. -

Munurinn raunar enginn er,

því allt um lífið vitni ber.


Faðir og vinur alls, sem er,

annastu þennan græna reit.

Blessaðu, faðir, blómin hér,

blessaðu þau í hverri sveit.

Vesalings sóley, sérðu mig?

Sofðu nú vært og byrgðu þig.

Hægur er dúr á daggarnótt.

Dreymi þig ljósið, sofðu rótt!


Smávinir fagrir, foldarskart,

finn ég yður öll í haganum enn.

Veitt hefur Fróni mikið og margt

miskunnar faðir. En blindir menn

meta það aldrei eins og ber,

unna því lítt, sem fagurt er,

telja sér lítinn yndisarð

að annast blómgaðan jurtagarð.Jónas Hallgrímsson