Tix.is

Um viðburðinn

Skoski hörpuleikarinn Ruth Wall leikur á tvær hörpur á tónleikunum, keltneska vírstrengda hörpu með bjöllu-hljómi (sem fylgt hefur Skotum síðan á 10. öld) og króka hörpu með girnistrengjum. Þema tónleikanna er Búferlaflutningar  (“Migration”) nú og fyrrum. Ruth Wall hefur lagt sig eftir því að skilja mynstur sem myndast við fólksflutninga eða þegar dýr flakka milli svæða eða breytingar verða á landslagi. Hún beinir sjónum sínum að nútímanum en einnig því tímabili í skoskri sögu sem nefnt hefur verið “The Highland Clearances” (1750-1850) þegar leiguliðar voru flæmdir nauðugir burt af jörðum í hálöndum Skotlands.

Tónlistin sem hún flytur er marglaga og síbreytileg að gerð. Ruth mun leika ævagömul þjóðlög frá skosku hálöndunum og Wales, en einnig lög frá Íran. Þá mun hún leika ný og nýleg verk eftir Philip Glass, Steve Reich, Snorra Sigfús Birgisson, Graham Fitkin og John Cage og fléttar þau saman við þjóðlögin. Tónskáldið Graham Fitkin mun kynna tónlistina og sögu hennar og einnig hljóðfærin og sögu þeirra. Þá mun hann einnig taka þátt í flutningi nokkurra rytmískra verka.

 

Ruth Wall hefur komið fram víðs vegar um veröldina - t.d. í Royal Albert Hall, Sydney Opera House, Berliner Philharmonie og Radio City New York. Hún tók einnig þátt í hátíðahöldum vegna Ólympíuleikanna í London. Hún hefur komið fram sem einleikari með London Chamber Orchestra og BBC Concert Orchestra og ferðast víða sem einleikari og einnig með bresku hljómsveitinni Goldfrapp, sekkjapípuleikaranum Kathryn Tickell, Ockham's Razor og Graham Fitkin. Hún kemur reglulega fram á rásum BBC Radio og leikur hennar heyrist í ýmsum kvikmyndum eins og t.d. ‘Loving Vincent’, 'Sightseers' og ‘The White Queen’.

Tónskáldið Graham Fitkin hefur unnið með Yo-Yo Ma, Kathryn Stott, Sinfóníuhljómsveitinni í Tokyo, BBC Symphony Orchestra og New York City Ballet. Hann hefur unnið til þriggja BASCA verðlauna (British Academy of Songwriters, Composers and Authors) og hlotið tónskáldaverðlaun Royal Philharmonic Society (2015). Nýlega bjó hann til smáforrit sem tengt er uppdrætti af borgum og er þannig úr garði gert að tónverk hans bregst við í samræmi við staðsetningu þess sem hlustar.