Tix.is

Um viðburðinn

Listahátíð í Reykjavík

Í stjörnuveri Perlunnar fer fram Íslandsfrumflutningur strengjakvartettsins Spektral á verkinu Enigma eftir eitt fremsta tónskáld samtímans, Önnu Þorvaldsdóttur, og hinn virta vídeólistamann Sigurð Guðjónsson. Til grundvallar verkinu liggur hugmyndin um það sem er „á milli“. Hér kallast á flæði og uppbrot; saman við taktfasta undirstöðuna sem sífellt rís og hnígur er teflt brotakenndum efniviði – skuggum sem lifa sem hluti af heildinni.

Spektral Quartet sem kölluðu sérstaklega eftir verkinu hafa hlotið fjórar tilnefningar til Grammy-verðlaunanna. Enigma hefur verið lýst sem strengjakvartett af alveg nýjum toga; stórfenglegu verki á mörkum tónleika og innsetningar.

Tónverk Önnu Þorvaldsdóttur hafa verið flutt af mörgum helstu sinfóníuhljómsveitum og tónlistarhópum samtímans. Meðal viðurkenninga sem henni hafa hlotnast eru hin eftirsóttu Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs. Sigurður Guðjónsson var valinn myndlistarmaður ársins 2018 á Íslandi, hefur sýnt víða um heim og er fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2022. Í vídeóverkum hans fléttast mynd, hljóð og rými saman á áhrifaríkan hátt.

Tónskáld: Anna Þorvaldsdóttir

Myndbandsverk: Sigurður Guðjónsson

Spektral kvartett:
Fiðla: Clara Lyon
Fiðla: Theo Espy
Víóla: Doyle Armbrust
Selló: Russell Rolen