Tix.is

Um viðburðinn

Listahátíð í Reykjavík - Heimsfrumflutningur

Guðspjall Maríu er ný og magnþrungin óratóría eftir eitt fremsta samtímatónskáld þjóðarinnar, Huga Guðmundsson. Texti þeirra Nilu Parly og Niels Brunse byggist að uppistöðunni til á samnefndu riti frá fimmtu öld en talið er að því hafi verið haldið leyndu þar sem það stangaðist á við kristilegan rétttrúnað síns tíma. Guðspjall Maríu er óhefðbundin og framsækin túlkun á boðskap Jesú Krists sem vegferð til innri andlegrar visku á sama tíma og það hafnar þjáningum og dauða sem leiðum til eilífs lífs. Einnig er ýjað að því að María Magdalena hafi verið postuli sem hefur þótt eldfim hugmynd. Þetta forna helgirit talar sterkt inn í okkar samtíma og tónskáldið lyftir guðspjallinu upp yfir stað og stund.

Verkið er flutt af framúrskarandi hópi tónlistarfólks þar sem saman koma Schola Cantorum, Oslo Sinfonietta og sópransöngkonan Berit Norbakken undir stjórn Harðar Áskelssonar en Hörður pantaði verkið sérstaklega hjá Huga fyrir hönd Listvinafélagsins í Reykjavík.

Í gróskumiklu starfi sínu hefur félagið lagt áherslu á nýsköpun í listum og fjölmörg tónverk verið samin að tilstuðlan þess. Berit Norbakken er ein þekktasta sópransöngkona Noregs og hefur komið fram víða um heim við góðan orðstír, meðal annars í óperuhúsum Sydney og Tókýó.