Tix.is

Um viðburðinn

Listahátíð í Reykjavík 

Það er óhætt að lofa neistaflugi á sviðinu í Gamla bíói þegar þau Loverboy og Zainab koma alla leið frá Sierra Leone til að leika með Samúel Jóni Samúelssyni og stórsveit hans en bæði eru þau landsþekkt á sínum heimaslóðum. Samúel ferðaðist til Sierra Leone haustið 2018 og tók þar þátt í söngvasmiðju á vegum Aurora Foundation. Þar tókust góð kynni með þeim Loverboy og Zainab og strax kviknaði áhugi á frekara samstarfi. Það verða því fagnaðarfundir í Gamla bíói þegar stórsveit Samúels býður þetta framúrskarandi tvíeyki velkomið til landsins.

 

Loverboy syngur gjarnan frumsamda tónlist við eigin undirleik á heimasmíðaðan gítar auk þess sem hann trommar með fætinum á bassatrommukassa. Zainab er söngkona hljómsveitarinnar Jelliba‘s sem leikur hefðbundna þjóðlagatónlist frá Vestur-Afríku og er ein ástsælasta sveit Sierra Leone. Samúel Jón Samúelsson Big Band þarf vart að kynna en þetta verða fyrstu tónleikar sveitarinnar síðan fyrir heimsfaraldur og meðlimir hennar því fullir tilhlökkunar að leika saman á ný.