Tix.is

  • 26. apríl - 19:30
  • 4 skipti
Um viðburðinn

Þann 26. apríl árið 1986 varð stærsta kjarnorkuslys allra tíma í Tsjernobyl, Úkraínu. Slysið hafði víðtæk áhrif og síðar játaði Míkhaíl Gorbatsjov að það hefði verið ein helsta ástæða þess að Sovétríkin hrundu.

Tsjernobyl-bænin er bók sem byggir á hundruðum viðtala Nóbelsverðlaunahafans Svetlönu Aleksíevítsj við fólkið sem lifði af þessa skelfilegu atburði. Bókin hefur vakið feikna athygli um heim allan: Tsjernobyl-þættirnir vinsælu eru t.d. að miklu leyti byggðir á henni og þýðing Gunnars Þorra Péturssonar á verkinu hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin árið 2022.

Gunnar Þorri nam rússneskar bókmenntir í Moskvu og Sankti Pétursborg og hefur þýtt verk Fjodors Dostojevskís og Antons Tsjekhovs á íslensku. Í fyrra stýrði hann vinsælu námskeiði um Karamazov-bræðurna og nú hyggst hann kryfja Tsjernobyl-bænina til mergjar á fjórum kvöldstundum.

Rakinn verður áhugaverður ferill Svetlönu Aleksíevítsj, verk hennar sett í samhengi við rússneska sögu og bókmenntir en jafnframt leitast við að draga fram þær stóru tilvistarspurningar sem Tsjernobyl-bænin varpar fram – og setja þær í samhengi við atburði líðandi stundar. Hvaða lærdóm má draga af Tsjernobyl-slysinu nú þegar stríð geisar á þessum sömu slóðum? Hvað kemur fólki til bjargar í slíkum aðstæðum: von og hugrekki, bleksvartur húmor, fegurð hryllingsins?

Námskeiðið verður haldið á þriðjudagskvöldum 19.30 – 21.30 í Safnaðarheimili Neskirkju og er styrkhæft hjá mörgum stéttarfélögum.

Ekki er nauðsynlegt að hafa lesið Tsjernobyl-bænina þegar námskeiðið hefst.