Tix.is

Um viðburðinn

Flytjendur Karin Torbjörnsdóttir mezzósópran
Elena Postumi píanó

Karin og Elena munu flytja ljóð eftir frönsk, sænsk og íslensk tónskáld á Söngskemmtuninni sem ber yfirskriftina SÖNGVAR HJARTANS. Meðal tónskáldanna eru Debussy, Poulanc og Daníel Bjarnason.

Karin Torbjörnsdóttir kom fram í fyrsta sinn í uppfærslu Íslensku óperunnar árið 2019 og söng þar hlutverk Cherubino í Brúðkaupi Fígarós sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu haustið 2019. Hún hlaut Grímuverðlaunin fyrir túlkun sína á hlutverkinu sem Söngvari ársins 2020.

Karin er fjölhæf söngkona og hefur tekið þátt í heimsfrumsýningum á óperum og kammertónlist og komið fram á ýmsum tónleikum, sungið hlutverk í óperum og komið fram á tónlistarhátíðum víða í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu. Má nefna Lucerne Festival, Anima Mundi Festival í Pisa á Ítalíu, 67th Macau International Music Festival, Barocknacht og Nacht der Komponisten í Salzburg.

Karin fæddist í Svíþjóð og ólst þar upp. Hún lærði frá unga aldri á píanó og stundaði nám í Söngskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og síðar framhaldsnám við Universität Mozarteum í Salzburg. Þaðan lauk hún bæði Bachelorsgráðu í söng hjá Barbara Bonney og Mastersgráðu með láði í Óperusöng og Sviðslistum hjá Andreas Macco.

Elena Postumi píanóleikari hefur tekið þátt í ýmsum uppfærslum Íslensku óperunnar. Hún hóf tónlistargöngu sína við Santa Cecilia tónlistarháskólann í Róm og útskrifaðist með hæstu einkunn í einleik, ljóðameðleik og tónsmíðum. Auk þess lauk hún bakkalárnámi frá ,,La Sapienza’’ Háskólanum í Róm í frönskum og þýskum bókmenntum árið 2017.

Frá árinu 2016 til 2020 stundaði hún nám í ljóðameðleik við tónlistarháskólann í Leipzig undir handleiðslu Prof. Alexander Schmalcz í meistaranámi og Meisterklasse prógrammi skólans.

Hún hefur komið fram víða í Evrópu og í Bandaríkjunum og árið 2019 þreytti hún frumraun sína með Gewandhaus hljómsveitinni í uppsetningu á “The Carnival of the animals” eftir Saint-Saens við Óperuna í Leipzig. Sem einleikari lék hún tvöfaldan konsert (BWV 106) eftir Bach ásamt Tommaso Graiff í Leipzig 5. píanó konsert eftir Beethoven sem hluti af ,,Beethoven 2020” hátíðarhöldum í Róm. Elena gegnir nú stöðu sem Solorepetiteur og aðstoðarhljómsveitarstjóri við Staatstheater í Darmstadt.