Tix.is

Um viðburðinn

Kammersveit Reykjavíkur mun bjóða upp á fjölbreytta dagskrá með frumflutningi á innlendum og erlendum verkum.

Efnisskrá
* Catena, fyrir kammersveit eftir Hauk Tómasson
* Drifting light, fyrir kammersveit og visuals eftir Jörgen Hall (1986), Svíþjóð (Frumflutningur)
* Nýtt verk eftir Elínu Gunnlaugsdóttur (1965) (Frumflutningur)
* Vanascere (2021) eftir Veronique Vaka (1986) (Frumflutningur)
Einleikari: Þórunn Ósk Marínósdóttir

Flytjendur
Kammersveit Reykjavíkur / Reykjavík chamber orchestra
Stjórnandi: Mirian Khukhunaishvili
Einleikari: Þórunn Ósk Marínósdóttir, víóla

Kammersveit Reykjavíkur var stofnuð árið 1974 af Rut Ingólfsdóttur ásamt 12 hljóðfæraleikurum, sem flestir voru nýkomnir heim frá námi erlendis og störfuðu í Sinfóníuhljómsveit Íslands og við Tónlistarskólann í Reykjavík. Markmiðið með stofnun hennar var að gefa áheyrendum kost á reglulegum tónleikum með kammertónlist, allt frá barokktímanum til nútímans, og um leið að gefa hljóðfæraleikurunum tækifæri til að glíma við áhugaverð verkefni. Óhætt er að fullyrða Kammersveitin hafi tekist ætlunarverk sitt því hún hefur átt fastan sess í tónlistarlífi höfuðborgarinnar síðan. Kammersveit Reykjavíkur kemur fram í misstórum hópum, allt frá 3 til 35 manns, en stærð hópsins ræðst af þörfum tónverkanna hverju sinni. Meðlimir Kammersveitarinnar eru virkir þátttakendur í tónlistarlífi Íslendinga enda meðlimir í Sinfóníuhljómsveit Íslands og ýmsum öðrum hljómsveitum auk þess að stunda tónlistarkennslu. Enn hafa þeir að leiðarljósi það takmark að auðga íslenskt tónlistarlíf með því að leyfa áheyrendum að hlýða á fyrsta flokks flutning tónbókmennta frá ýmsum tímabilum tónlistarsögunnar. Markmið stofnenda Kammersveitarinnar eru því jafn mikið í gildi í dag og þau voru fyrir þremur áratugum. Kammersveitin er kunn fyrir fjölbreytt verkefnaval og góðan flutning. Hún hefur frumflutt fjölda íslenskra og erlendra verka sem samin hafa verið fyrir hana og ennfremur staðið fyrir íslenskum frumflutningi þekkra erlendra verka, þ.á.m. Pierrot Lunaire, Serenöðu, Kammersinfóníu nr. 1 og fleiri verka eftir Arnold Schönberg, Kvartetts um endalok tímans og Des Canyons aux Étoiles eftir Olivier Messiaen, Façade eftir William Walton, Fratres, Te Deum og fleiri verk Arvo Pärts. Kammersveitin hefur fengið ýmsa þekkta stjórnendur til liðs við sig. Einkum hefur hún unnið náið með Paul Zukofsky, Reinhard Goebel, Jaap Schröder og Vladimir Ashkenazy píanóleikara og stjórnanda. Starfsemi Kammersveitar Reykjavíkur rúmar jafnt tónleikahald innanlands sem utan og einnig upptökur fyrir útvarp og sjónvarp. Hún kemur reglulega fram á Listahátíð í Reykjavík og hefur leikið á fjölmörgum tónlistarhátíðum erlendis. Kammersveit Reykjavíkur hefur komið fram fyrir Íslands hönd við fjölmörg tækifæri erlendis, t.d. á heimssýningunum í Lissabon 1998 og í Hannover árið 2000, sem og við opnun sendiráðs Íslands í Tokyo. Í maí 2003 fór Kammersveitin í tónleikaferð til Belgíu og Rússlands í boði Vladimirs Ashkenazys, þar sem hann kom fram bæði sem einleikari og stjórnandi. Í október 2004 flutti Kammersveitin efnisskrá með íslenskum verkum á Íslenskum menningardögum í París, Islande de glace et de feu. Á undanförnum árum hefur Kammersveit Reykjavíkur lagt áherslu á upptöku og útgáfu þeirra fjölmörgu tónverka sem íslensk tónskáld hafa samið sérstaklega fyrir hana. Ætlunin er að geisladiskarnir endurspegli þá listrænu samvinnu sem Kammersveitin hefur átt við helstu listamenn landsins í gegnum tíðina.

Þórunn Ósk Marinósdóttir er leiðari víóludeildar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hún er fædd og uppalin á Akureyri þar sem hún stundaði fiðlunám, lengst af hjá Lilju Hjaltadóttur. Hún lauk Mastersprófi í víóluleik við Konunglega Tónlistarháskólann í Brussel undir handleiðslu Ervin Schiffer. Í Belgíu var hún leiðari víóludeildar kammerhljómsveitarinnar Prima la Musica undir stjórn Dirks Vermeulen og um tíma meðlimur í I Fiamminghi undir stjórn Rudolfs Werthens. Hún hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Prima la Musica, Kammersveit Reykjavíkur, Caput og Sumida Triphony Hall orchestra í Tokýó. Þórunn kennir víóluleik og kammermúsík við Menntaskóla í tónlist og Listaháskóla Íslands auk þess sem hún kennir reglulega á sumarnámskeiðum á við Alþjóðlegu Tónlistarakademíuna í Hörpu (HIMA). Þórunn spilar mikið af kammermúsík og er reglulegur gestur Kammermúsíkklúbbsins og tónlistarhátíða í Reykjavík og víðar. Árið 2012 stofnaði hún Strokkvartettinn Sigga ásamt félögum sínum í kvartettinum en hann hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2018. Hljóðrit kvartettsins hafa einnig verið tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna og fengið lof gagnrýnenda hér heima og erlendis. Frá árinu 2021 hefur Þórunn tekið við listrænni stjórn Reykholsthátíðar ásamt eiginmanni sínum Sigurði Bjarka Gunnarssyni en hátíðin er haldin á hverju sumri í Reykholti í Borgarfirði. Plötuútgáfan Smekkleysa hefur gefið út hljóðritanir þar sem Þórunn fer með einleikshlutverkið í víólukonsertinum “Ombra” ásamt Kammersveit Reykjavíkur og “Dagbókarbrot” fyrir víólu og píanó hvoru tveggja eftir Hafliða Hallgrímsson. Hún hefur einnig spilað inn á fjölda kammermúsík hljóðritana, oftast undir merkjum Kammersveitar Reykjavíkur.

Tónskáldin
Haukur Tómasson er fæddur í Reykjavík árið 1960. Hann stundaði tónlistarnám í Reykjavík, Köln, Amsterdam og lauk mastersprófi frá Kaliforníuháskóla í San Diego. Meðal verka hans má nefna óperuna Fjórða söng Guðrúnar, 13 hljómsveitarverk, 8 konserta og ýmsa kammer- og kórtónlist. Tónlist hans einkennist oft af miklum rytmískum krafti og fjölbreytni í hljóðfærasamsetningum. 

Catena samanstendur af 6 köflum sem taka samtals um 15 mínútur í flutningi. Titillinn getur þýtt keðja eða tengd röð af hugmyndum; kaflarnir eiga margskonar hugmyndir sameiginlegar eða sækja í það minnsta í sömu ræturnar. Catena byggir á verkinu Sería sem Kammersveit Reykjavíkur pantaði í tilefni 30 ára starfsafmælis árið 2004.

Veronique Jacques, listamannanafn Veronique Vaka, fædd 1986, er tónskáld staðsett á suður Íslandi. Hún lærði klassískan sellóleik og electro-acoustic tónsmíðar í Montreal háskólanum og útskrifaðist með meistaragráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands. Árið 2017 var hún ein af tveimur tónskáldum sem valin voru til þátttöku í verkefninu Yrkja þar sem hún skrifaði verkið „Rift“ fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar. Annað hljómsveitarverkið hennar „Lendh“, skrifað 2018, var tilnefnt til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem tónverk ársins 2019 en einnig tilnefnt til Tónlistarverðlauna Norðurlandarráðs fyrir hönd Íslands 2020.

Veronique Vaka hefur skrifað verk fyrir sinfóníuhljómsveitir, kammersveitir, einleiksfiðlu og kammersveit skrifað fyrir Unu Sveinbjarnadóttur, strengjakvartett, söngverk við texta Steinunnar A. Stefánsdóttur og einleiksfiðlu skrifað fyrir Höllu Steinunni Stefánsdóttur. Verk hennar hafa verið flutt á Tónlistarhátíð Rásar 1 (2020), Myrkum Músíkdögum (2018, 2019, 2020), Sumartónleikum í Skálholti (2018) en einnig í Evrópu og Norður Ameríku. Meðal þeirra verkefna sem framundan eru má nefna verkið Gemæltan fyrir einleiks Selló og sinfóníuhljómsveit sem skrifað er fyrir Sæunni Þorsteinsdóttir en frumfluttningur verður 2021/22 og verk fyrir einleiks víólu og Kammersveit Reykjavíkur skrifað fyrir Þórunni Ósk Marinósdóttur.

Veronique hefur fært sig nær óhlutbundinni nálgun að tónsmíðum þegar hún hóf að rannsaka „Yfirfærslu landslags til nótnaskriftar“. Markmið verka hennar er að skapa ljóðrænt samband þess sem hún sér, heyrir og skynjar í ósnortinni náttúru sem hún sameinar og vinnur úr í tónsmíðaferlinu. Verkin hennar einkennast af lífrænu flæði tónlistarinnar þar sem áhersla er lögð á smáatriði hvað varðar hryn, áferð og hljómblæ.

Tónskáldið Jörgen Hall (1986) er frá Norður-Svíþjóð. Hann sækir innblástur í hið eðlislæga lífræna handahóf náttúrunnar við mótun hljómandi landslags, þar sem hann lætur „náttúruna“ ganga sinn takt. Hann hefur einnig áhuga á sýn tímans sem sálrænnar víddar, sem við getum ekki skynjað að fullu, þar sem segja má að við séum inni í henni. Þetta, ásamt áhuga á austurlenskri heimspeki, hefur orðið til þess að hann tileinkaði sér kínverska orðtakið „Ekki ýta ánni, hún rennur af sjálfu sér“, sem listrænt kjörorð.

Verkaskrá hans inniheldur kammertónlist, hljómsveitartónlist sem og raf- og hljóðmyndaverk. Tónlist hans hefur verið flutt bæði í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu.

Elín Gunnlaugsdóttir (1965) nam tónsmíðar við Tónlistarskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan 1993. Árið 1998 lauk hún framhaldsnámi í tónsmíðum frá Konunglega tónlistarháskólanum í Den Haag. Þar voru kennarar hennar í tónsmíðum þeir Theo Loevendie og Diderik H. Wagenaar. Hún hefur frá því hún útskrifaðist unnið við tónsmíðar og kennslu.

Verkaskrá Elínar samanstendur af kammerverkum og söngverkum, en hún hefur meðal annars skrifað fyrir Caput-hópinn, Camerarctica og Schola Cantorum auk Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Elín hefur á seinustu árum unnið náið með flautleikaranum Pamelu De Sensi og hefur skrifað fyrir hana fjögur flautuverk sem hún hefur flutt bæði hér heima og erlendis. Þá hefur hún samið fjögur tónleikhúsverk fyrir börn á undanförnum tíu árum. Verkin eru barnaballettinn Englajól (2010/2012), söngleikurinn Björt í sumarhúsi (2015) og tónleikhúsið Nú get ég (2018) við texta eftir Þórarinn Eldjárn. Tónlistarævintýrið Drekinn innra með mér (2018) fyrir sögumann og sinfóníuhljómsveit við texta eftir Lailu Arnþórdóttur.

Um verkið segir Elín: Þegar hljóðfæraleikarinn leikur þá eru tón- og hljóðmyndunin í skugga handa hans. Þannig er samspil hljóðfærleikarans og tónsmiðsins eins konar skuggaleikur. Í verkinu er leikið með þessa hugmynd. Tónhugmyndir ganga á mismunandi hraða og mynda þannig eins konar endurkast af hver annarri.