Tix.is

Um viðburðinn

Tinna Þorsteinsdóttir og Heiða Árnadóttir flytja verk, sérstaklega samin fyrir þær, eftir tónskáldin; Þórönnu Dögg Björnsdóttur, Þórunni Björnsdóttur, Guðmund Stein Gunnarsson og Gunnar Karel Másson. Í rafmögnuðu andrými, leiða verkin áheyrandann í ferðalag um frumefni, endurtekningu og örvæntingu — að sáttum. Þóranna Dögg Björnsdóttir tekur þátt í flutningi á verki sínu: Ilm- og ómleikum.

Efnisskrá
llm- og ómleikar (2021) eftir Þórönnu Dögg Björnsdóttur, Verk fyrir rödd, hljómborðshljóðfæri, hljóð og rafhljóð. Frumfluttningur 15´

Spirit III (2021) eftir Þórunni Björnsdóttur Endurstilling- Reset verk fyrir rödd og harmonium. frumfluttningur 10´

Songs of Violence/Songs of Despair (2020/2021) eftir Gunnar Karel Másson, verk fyrir rödd,
dótapíanó og undirbúið píanó. Frumfluttningur á Songs of Despair 20´

Mamma pikkar á tölvu sumarið 1988 (2013) eftir Guðmund Stein Gunnarsson, verk fyrir dótapíanó. 1´

Adibaran Ocirebal (2021) eftir Guðmund Stein Gunnarsson, sóló ópera fyrir eina rödd og rafhjóð. Frumfluttningur 15´

Um flytjendur
Tinna Þorsteinsdóttir er konsertpíanisti með víðtæka reynslu á sviði nýrrar tónlistar og hefur frumflutt fjölda verka sem samin hafa verið sérstaklega fyrir hana. Hún vinnur náið með mörgum íslenskum tónskáldum, er liðtæk í tilrauna-tónlistarsenunni og hefur unnið að einleiksverkum með listamönnum eins og Helmut Lachenmann, Alvin Lucier, Christian Wolff, Peter Ablinger, Morton Subotnick, Cory Arcangel og Mme Yvonne Loriod-Messiaen. Tónlist 21. aldar er hennar aðalástríða. Undirbúið píanó, rafhljóð, dótapíanó, leikhúsverk og gjörningar rata gjarnan inn á efnisskrár hennar. Undanfarin ár hefur Tinna skapað innsetningar og ýmis konar hljóð- og performans-verk, þar sem kemur við sögu efniviður, á borð við; píanóhluta, heilabylgjur hennar sjálfrar, heitt og kalt gler og raftónlist..

Heiða Árnadóttir er söngkona og staðarlistamaður Myrkra músíkdaga 2020-2022. Á ferli sínum hefur Heiða lagt ríka áherslu á flutning nútímatónlistar, sem og þjóðlaga-, djass-, tilrauna-, og ljóðatónlist. Hún hefur frumflutt fjölmörg verk eftir íslensk tónskáld, svo sem; Gunnar Karel Másson, Ásbjörgu Jónsdóttur, Hafstein Þórólfsson, Birgit Djupedal, Þórönnu Björnsdóttur og Guðmund Stein Gunnarsson. Ásamt fjölda tónleika á Íslandi, þar sem hún hefur meðal annars frumflutt verk með Ensemble Adapter og Caput, hefur Heiða einnig komið fram í Hollandi, Belgíu, Frakklandi, Indlandi, Svíþjóð og Danmörku. Hún hefur flutt verk á Norrænum músíkdögum, Iceland Airwaves, Sumartónleikum í Skálholti, Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði, Jazzhátíð Reykjavíkur og ýmsum hátíðum erlendis. Heiða er lagahöfundur, textaskáld og söngkona í hljómsveitinni Mógil, sem gefið hafa út fjórar plötur. Platan þeirra Ró, sem gefin var út af Radical Duke í Belgíu, var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2008 og var nýjasta plata þeirra, Aðventa, gefin út af hinu virta útgáfufyrirtæki Winter and Winter í Þýskalandi.

Um tónskáldin
Þóranna Dögg Björnsdóttir (f. 1976) stundaði tónlistarnám frá unga aldri og hefur komið víða við á vettvangi tónlistar. Þóranna lauk burtfararprófi í klassískum píanóleik frá Tónlistarskóla FÍH og hóf að því loknu nám við Konunglega Listaháskólann í Haag í Hollandi. Þar stundaði hún þverfaglegt listnám og lauk þaðan BA prófi. Einnig hefur Þóranna lokið M.Art.Ed frá Listkennsludeild LHÍ, hún hefur sótt ýmis námskeið og vinnustofur í tengslum við tónlist, hljóð- og myndlist og staðið að kennslu í þeim efnum. Verk Þórönnu eru sambland af mynd og hljóði; byggja m.a. á samspili kvikmyndar og lifandi tónlistarflutnings og taka á sig mynd í formi hljóðskúlptúra, gjörninga og hljóðverka. Verk hennar hafa verið flutt víða og hefur hún komið fram á fjölmörgum tónleikum og listahátíðum á Íslandi og erlendis. Þóranna starfar einnig sem hljóð- og gjörningalistamaður með listahópnum Wunderland. http://thorannabjornsdottir.com/ https://soundcloud.com/aka-trouble

Þórunn Björnsdóttir (1971) nam tónlist og myndlist í Reykjavík og síðar í Amsterdam og Den Haag í Hollandi. Hún hefur unnið í ýmsum miðlum, bæði tónverk og innsetningar og liggja verk hennar oft á mörkum hins persónulega og opinbera rýmis. Hún er einnig blokkflautuleikari og kennari og hefur einnig gefið út ljóð. Verk hennar hafa verið sýnd og flutt á Íslandi og í Evrópu.

Gunnar Karel Másson fæddist í Reykjavík 17. Maí 1984. Tónlistarnám hóf hann ungur að árum í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Hann stundaði nám á nokkur hljóðfæri má m.a. nefna túbunám við undirbúningsdeild fyrir tónlistarháskóla í Danmörku og jazz trompet við tónlistarskóla FÍH. Árið 2007 hóf Gunnar Karel nám við Listaháskóla Íslands og lauk þaðan B.A. gráðu í tónsmíðum vorið 2010. Gunnar lagði stund á framhaldsnám í tónsmíðum við Konunglega Tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn frá 2010 til 2014 og lauk M.Mus. og Advanced post-graduate diploma frá þeim skóla. Kennarar Gunnars í tónsmíðum voru; Tryggvi M. Baldvinsson, Úlfar Ingi Haraldsson, Bent Sørensen, Hans Abrahamsen, Jeppe Just Christensen, Niels Rosing Schow og Juliana Hodkinson. Sem tónskáld hefur Gunnar einbeitt sér fyrst og fremst að kammertónlist, þar sem honum finnst tónlistin fá þar þá athygli og tíma sem hún þarfnast. Einnig hefur hann samið tónlist við fjölda leiksýninga hér heima og erlendis. Fyrir utan tónsmíðarnar þá hefur Gunnar einnig haslað sér völl sem tónleikahaldari. Var hann listrænn stjórnandi Myrkra Músíkdaga 2016 – 2020 og stofnaði árið 2012 Sonic hátíðina í Kaupmannahöfn ásamt kollega sínum Filip C. de Melo. Einnig er hann einn af listrænum stjórnendum tónleikaraðarinnar Jaðarber í Reykjavík sem hefur legið í dvala í nokkur ár. Gunnar starfar einnig hjá Listahátíð í Reykjavík sem verkefnisstjóri norræna samstarfsverkefnisins: Platform GÁTT. Gunnar er meðlimur í Dansk Komponistforening, Sviðslistahópnum 16 elskendur og S.L.Á.T.U.R.

Undanfarin ár hefur tónlist Guðmundar Steins Gunnarssonar þróað hrynmál sem má segja að líkist hrynjandi í umhverfinu. Tónlistin er oftar en ekki lesin af tölvuskjám þar sem nóturnar hreyfast og nær þannig fram ákveðnum hrynblæ. Meðal hljómsveita og tónlistarhópa sem hann hefur unnið með má nefna BBC Scottish Symphony, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Caput hópinn, Ensemble Adapter, Defun Ensemble, l'Arsenale, Kammersveit Reykjavíkur, Íslenska Flautukórinn, Quartet San Francisco, Duo Harpverk, Timo Kinnunen, Mathias Ziegler og Roberto Durante. Tónlist Guðmundar hefur heyrst á hátíðum eins og Tectonics Reykjavík og Glasgow, Transit, November Music, Musikin Aika, Ultima, MATA, Nordlichter Biennale, Thingamajigs Festival og Reno Interdisciplinary Arts Festival. Guðmundur nam tómsíðar við Mills College í Oakland í Kaliforníu með Alvin Curran, Fred Frith og John Bischoff. Einnig í Listaháskóla Íslands með Úlfari Haraldssyni og Hilmari Þórðarsyni. Hann hefur þá sótt tíma hjá Atla Ingólfssyni. Hann hefur verið iðinn við kolann í íslensku tónlistalífi komið að stofnun S.L.Á.T.U.R., Sláturtíðar, Jaðarbers, Fengjastrúts, útgáfunnar Traktorsins og hefur leitt tónlistarhópinn Ferstein. Árið 2011 vann Guðmundur til verðlauna í tónsmíðakeppni í tilefni af 80 ára afmæli Ríkisútvarpsins. Tónverk hans hafa komið út hjá Smekkleysu, Edgetone, Carrier, Tonestrukt og Vauxes Flores.
gudmundursteinn.net: bandcamp.com/gudmundursteinn
soundcloud.com/gudmundursteinn youtube.com/gudmundursteinn https://en.wikipedia.org/wiki/Gu%C3%B0mundur_Steinn_Gunnarsson