Tix.is

Um viðburðinn

The Cartography of Time er flokkur einleiksverka eftir tónskáldið Davíð Brynjar Franzson, sem fjalla öll um upplifun á tíma. Verkin voru þróuð í samvinnu við Gnarwhallaby, Vicky Chow (Bang on a Can), Mariel Roberts, Matt Barbier og Weston Olencki (RAGE thrombones), Rusell Greenberg (Yarn|Wire) og Matthias Engler og Ingólf Vilhjálmsson (Ensemble Adapter). Á tónleikunum má heyra hluta þessara verka og er áheyrendum boðið í ferðalag þar sem mínímalískur hljóðheimur Davíðs Brynjars lýkst hægt og rólega upp.

Efnisskrá
the Cartography of Time (2015) for bowed cymbal and live electronics, ‘20
the Cartography of Time (2014) for contrabass clarinet and live electronics, ‘15
the Cartography of Time (2017) for bass drum and live electronics, ‘15

Um flytjendur
Matthias Engler er slagverksleikari og upptökustjóri. Hann og Gunnhildur Einarsdóttir, hörpuleikari, stofnuðu kammerhópinn Ensemble Adapter árið 2004, þar sem Matthias gegnir hlutverki slagverksleikara, listræns stjórnanda og verkefnastjóra. Eftir tónlistarnám í Amsterdam hefur hann komið fram á tónleikum með ólíkum tónlistarhópum, m.a. Ensemble Modern og MusikFabrik. Matthias hefur flutt verk á þekktum samtíma-tónlistarhátíðum, eftir mikilvægustu tónskáld samtímans, til að mynda; Pierre Boulez, Helmut Lachenmann, Maurizio Kagel og Steve Reich. Matthias kemur reglulega fram í tilraunakenndum leiksýningum og er meðlimur í órafmagnaða teknóhópnum Brandt Brauer Frick Ensemble í Berlín.

John McCowen er tónskáld og klarinettuleikari, sem leggur áherslu á að víkka út möguleika bassaklarinettu og ýmissa annarra hljóðfæra. Með fjöl-hljóðlegri nálgun nýtir McCowen sér drónahljóð, mismunandi tóna og hljóma-slátt til að draga fram þá möguleika sem stakur, akústískur hljóðgjafi býr yfir. Verkum McCowen er best lýst í gagnrýni sem birtist í blaðinu The New Yorker, sem: “the sonic equivalent of microscopic life viewed on a slide”. Útgáfa og umfjöllun um verk McCowen hafa meðal annars birst hjá; International Anthem, Edition Wandelweiser, Astral Spirits/Monofonus Press, Cairn Desk, Superpang og víðar. Hann hefur verið með vinnustofur árin 2017-2019 í Lijiang-stúdíóinu í Yunnan, Kína og sömuleiðis í ISSUE Project Room í Brooklyn, New York árið 2020.

Um tónskáldið
Davíð Brynjar Franzson er sjálfstætt starfandi tónskáld, búsettur í Los Angeles. Á meðal nýlegra verkefna Davíðs er an Urban Archive as an English Garden - sem þróað var í samstarfi við Höllu Steinunni Stefánsdóttur, Russell Greenberg (Yarn/Wire), Matt Barbier (Gnarwhallaby) og nú síðast Júlíu Mogensen, sellóleikara, í sameiginlegu listrannsóknarverkefni við stofnanirnar IRCAM í París og Zenter fur Kunst und Medientechnologie í Þýskalandi. Verkið var til sýnis á vegum Hljóðanar í Hafnarborg, haustið 2020. Meðal annarra verka Davíðs má nefna sellókonsertinn on Matter and Materiality, pantað af BBC Scottish Symphony Orchestra og Tónskáldasjóði RÚV, sem gagnrýnandi The Guardian lýsti sem: „sláandi kyrrstæðum“. Einleiksverkaröðin the Cartography of Time er tileinkuð skynrænni upplifun tímanns og hafa verkin verið unnin í samstarfi við fjölda alþjóðlegra flytjenda á borð við Gnarwhallaby, Vicky Chow (Bang on a Can), Mariel Roberts, Matt Barbier og Weston Olencki (RAGE thromboses) og Matthias Engler og Ingólf Vilhjálmsson (Ensemble Adapter). Platan the Negotiation of Context með verkum skrifuðum fyrir tónlistarhópinn Yarn / Wire, hlaut lofsamlegar móttökur. Verkinu hefur verið lýst sem: „engagingly tactile“ (NY Times), „hljóðlist sem á augljóst erindi” (Gramophone) „heillandi“ (The Wire). Platan sjálf rataði inn á topp tíu lista The Wire yfir samtíma-tónlistarútgáfur ársins 2014. Haustið 2019 gaf Bedroom Community út diskinn longitude, sem rataði sömuleiðis inn á fjölda lista yfir bestu útgáfur ársins. Gagnrýnandi 5:4 lýsti tónlistinni sem: "undurfagurri og örlítið ógnvekjandi í jöfnum hlutföllum". Nýjasta plata Davíðs er unnin í samstarfi við Stephanie Aston og wasteLAnd og inniheldur verkið voice fragments, sem gagnrýnendur hafa kallað töfrandi verk sem ekki megi láta framhjá sér fara. Davíð rekur tilrauna- og samtímatónlistar-plötuútgáfuna Carrier Records ásamt Sam Pluta og Jeff Snyder.

Heimasíða: http://franzson.com