Tix.is

Um viðburðinn

Hér leiðir Bergsveinn Birgisson, höfundur samnefndar bókar, okkur inn í töfraveröld sem lengi lá í þagnargildi.

Í íslenskum fornsögum var aðeins að finna örstutt brot um „svartleitan“ mann sem þar bregður fyrir – Geirmund heljarskinn. Hann er sagður dökkur og ljótur, með mongólska andlitsdrætti af konunglegum uppruna, sagður „göfgastur landnámsmanna“ og ríður um sveitir Íslands með áttatíu vopnaða menn, og á mörg stórbú þar sem hann heldur hundruðir þræla.

En hver var Geirmundur heljarskinn? Af hverju er engin saga varðveitt af honum og af hverju hefur hann nánast fallið í gleymsku?

Með sleitulausri vinnu við að rýna í miðaldaheimildir, fornleifar, örnefni og genarannsóknir leitar Bergsveinn svara við þessum spurningum. Á undraverðan hátt kveikir hann fortíðina til lífs og púslin raðast saman í spennandi sögu með traustum fræðilegum bakgrunni og frásagnargleði.

Tilgátur Bergsveins í bókinni um Svarta víkinginn hafa kollvarpað fyrri hugmyndum um efnið, ekki aðeins fest í sessi tilgátu um veiðimenningu, heldur gefið ljóslifandi dæmi um frumlandnám og fall þess efnahags sem markaði upphaf Íslands.

Bergsveinn er doktor í norrænum fræðum og var tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2016 fyrir Leitina að svarta víkingnum.