Tix.is

Um viðburðinn

Á þessum kyrrðartónleikum í desemberhádegi flytja Tómas Guðni Eggertsson organisti og Davíð Þór Jónsson píanisti valda aðventu- og jólasálmaforleiki eftir Johann Sebastian Bach (1685-1750). Forleikina er að finna í handritinu Orgelbüchlein, eða Lítil orgelbók, sem Felix Mendelssohn lét prenta á fyrri hluta 19. aldar. Í þeim má m.a. heyra óminn af þekktum jólasálmum á borð við Sjá, himins opnast hlið, Af himnum ofan boðskap ber og Oss barn er fætt í Betlehem.

Sálmaforleikir hins mikla meistara eru hér fluttir á nýstárlegan máta sem spilafélagarnir tveir hafa þróað á undanförnum árum, en í því felst að Davíð Þór spinnur á flygil kirkjunnar í kringum forleikina sem Tómas Guðni leikur á Klais-orgelið. Þá er registeringum orgelsins einnig breytt, miðað við hefðbundinn flutning. Hvergi er þó hvikað frá virðingu við verkin sjálf og upphaflegt erindi þeirra.

Yfirskrift tónleikanna ber með sér að tónlist Bach sé ómissandi í aðdraganda jóla – ár hvert – og þannig eru áhorfendur boðnir velkomnir í ferðalag þar sem hið gamla verður nýtt og nýtt gamalt.

Hægt er að fá miða við innganginn og á tix.is 

Miðaverð er 2000 krónur, ókeypis fyrir börn, 16 ára og yngri.

Um flytjendurna:

Tómas Guðni Eggertsson (f. 1974) lauk prófi í píanóleik frá Nýja tónlistarskólanum vorið 1996. Hann hélt til framhaldsnáms við Royal Scottish Academy of Music and Drama í Glasgow, lauk þaðan BA-prófi 1999 og Postgraduate-námi ári síðar. Hann lauk einleiksáfanga í orgelleik frá Tónskóla þjóðkirkjunnar 2007 og kantorsprófi í kjölfarið. Aðalkennari hans þar var Björn Steinar Sólbergsson. Tómas Guðni er nú tónlistarstjóri og organisti Seljakirkju. Hann hefur fengið að starfa með ólíkum tónlistarmönnum á borð við Dimitri Ashkenazy, Ólaf Kjartan Sigurðarson, Davíð Þór Jónsson og Pétur Valgarð Pétursson, og var nú síðast meðleikari Sveins Dúu Hjörleifssonar við flutning Malarastúlkunnar fögru í Tjarnarbíói, sem hlaut tilnefningu til Grímu og Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Davíð Þór Jónsson píanóleikari og tónskáld hefur frá unga aldri leikið með allflestum þekktari tónlistarmönnum landsins og komið fram á tónlistarhátíðum víða um heim. Hann hefur verið afkastamikill sem hljóðfæraleikari á margvísleg hljóðfæri, píanóleikari, tónskáld, útsetjari og upptökumaður fyrir fjölda tónlistarmanna. Hann hefur unnið náið með sviðslistafólki og myndlistarmönnum, meðal annars með með Ragnari Kjartanssyni og leikhópnum CommonNonsense. Hann hefur hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin, Grímuverðlaunin og ýmis evrópsk verðlaun fyrir kvikmyndatónlist.
Hann stundaði nám í Tónlistarskóla FÍH og útskrifaðist vorið 2001.

Fyrsta sólóplöta hans, Rask, kom út árið 2002. Síðar hafa plöturnar Improvised piano works I og II sem hafa að geyma rauntímatónsmíðar komið út.

En spuni og rauntímaverk hafa lengi verið aðalástríða og viðfangsefni Davíðs Þórs.

Einnig hafa verk J.S.Bach fylgt honum frá blautu barnsbeini og eru ávallt spiluð í hversdeginum sem og við sérstök tækifæri. Davíð og Tómas hafa í meira en áratug leikið choral-forleiki Bachs og heldur sú vegferð áfram inní eilífðina