Tix.is

Um viðburðinn

INGIBJÖRG TURCHI ÁSAMT HLJÓMSVEIT 

Bassaleikarinn og tónskáldið Ingibjörg Elsa Turchi kemur ásamt hljómsveit sinni austur í haust en hún hefur verið afar sýnileg í íslensku tónlistarlífi síðustu ár. Ingibjörg hefur leikið með Emilíönu Torrini, Bubba Morthens, Teiti Magnússyni og Stuðmönnum svo fátt eitt sé nefnt en einnig hefur hún samið verk fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands sem frumflutt var í vor. Ingibjörg gaf út EP-plötuna Wood/Work árið 2017 en í fyrra gaf hún út sína fyrstu plötu í fullri lengd, Meliae, en þar hélt hún áfram að víkka út hljóðheim sinn með hjálp hljómsveitar sinnar. Meliae hlaut margar viðurkenningar, þar á meðal Kraumsverðlaunin, var valin plata ársins af Morgunblaðinu og plata ársins hjá Straum.is. Á Íslensku tónlistarverðlaununum 2021 hlaut Ingibjörg sex tilnefningar og þar af tvenn verðlaun, fyrir plötu ársins í flokki Djass-og blústónlistar og fyrir upptökustjórn og hljóðheim plötu sinnar. 

Á tónleikunum munu Ingibjörg og hljómsveit leika verk af plötunni Meliae, ásamt nýju efni af plötu sem er í bígerð. Búast má við spuna, djassi, tilraunamennsku og naumhyggju í ómþýðri blöndu en það má  treysta því að Ingibjörg og félagar framkalli einstakan og dáleiðandi hljóðheim sem láti engan ósnortinn. 

Hljómsveitina skipa:

Ingibjörg Elsa Turchi (Rafbassi)

Tumi Árnason (Saxófónn)

Magnús Trygvason Eliassen (Trommur)

Hróðmar Sigurðsson (Gítar)

Magnús Jóhann Ragnarsson (Píanó)