Tix.is

Um viðburðinn

Við árslok 2020 bauð píanistinn Þórir Úlfarsson veirufaraldrinum birginn og sendi frá sér sína fyrstu sólóplötu. Platan var reyndar gefin út undir formerkjum Thor Wolf, sem er listamannsnafn og hliðarsjálf Þóris. Það má segja að þessi plata hafi verið í hægri vinnslu undanfarin 30 ár. Flest lögin samdi Þórir fyrir tvítugt, en alltaf dróst að fullklára þau, enda hefur Þórir um langt árabil verið önnum kafinn sem einn eftirsóttasti píanisti og hljóðversmaður landsins.

Í fyrravetur lét hann þó loks verða að því að klára þessi „gleymdu“ lög og gaf út á plötunni "Cold Fusion", sem Þórir hlaut fyrr á þessu ári tilnefningu fyrir í flokki lagasmiða á Íslensku tónlistarverðlaununum. Tónlist plötunnar er ósungin (instrumental) og í ætt við það sem á íslensku hefur verið kallað "bræðingur", eins og heiti plötunnar gefur til kynna.  Þetta verða einstakir tónleikar, sem unnendur slíkrar tónlistar skyldu alls ekki að láta framhjá sér fara.

Þóri til fulltingis verða margir af snjöllustu spilurum landsins og þótt víðar væri leitað, Þess má geta, að auk þess að flytja lög plötunnar, þá munu Thor & Co flytja nokkur uppáhaldslög af svipuðum toga, t.d. úr ranni Steely Dan o.fl. — einnig sem von er á óvæntum gestum á svið.


Þeir sem koma fram: Þórir Úlfarsson - Phil Doyle - Einar V. Scheving - Jóhann Hjörleifsson - Jóhann Ásmundsson - Pétur Valgarð Pétursson - Kjartan Hákonarson - Samúel J. Samúelsson - Jóel Pálsson - Ívar Guðmundsson - Pálmi Gunnarsson