Tix.is

Um viðburðinn

Björn Steinar Sólbergsson, organisti í Hallgrímskirkju og Guja Sandholt, söngkona, flytja verk eftir Johann Sebastian Bach og Johann Crüger í tónleikaröðinni Haust í Hallgrímskirkju laugardaginn 2. október næstkomandi.

Efnisskrá tónleikanna:

Johann Sebastian Bach 1685 – 1750
Schafe können sicher weiden, aría úr kantötu BWV 208


Johann Crüger 1598 – 1662
Þú sem líf af lífi gefur (texti: Hjálmar Jónsson)


Johann Sebastian Bach
Schmücke dich, o liebe Seele BWV 654


Vergnügte Ruh, beliebte Seelenlust, aria úr Kantötu BWV 170


Toccata í F-dúr BWV 540/I


Um flytjendurna

Björn Steinar Sólbergsson er organisti við Hallgrímskirkju í Reykjavík. Hann er einnig
skólastjóri Tónskóla Þjóðkirkjunnar þar sem hann kennir jafnframt orgelleik.
Björn Steinar stundaði tónlistarnám við Tónlistarskólann á Akranesi og í Tónskóla
þjóðkirkjunnar í Reykjavík. Meðal kennara hans þar voru Haukur Guðlaugsson og Fríða Lárusdóttir. Framhaldsnám stundaði hann á Ítalíu hjá James E. Göettsche og í Frakklandi við Conservatoire National de Region de Rueil Malmaison hjá Susan Landale þar sem hann útskrifaðist með einleikarapróf í orgelleik (Prix de virtuosité) árið 1986. Hann starfaði sem organisti við Akureyrarkirkju í 20 ár þar sem hann vann að uppbyggingu tónlistarstarfs við kirkjuna. Björn Steinar hefur haldið fjölda einleikstónleika hér heima, á öllum Norðurlöndunum, í Evrópu og Norður-Ameríku. Hann hefur leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Sinfóníuhljómsveit Stavanger og The Cleveland
Institute of Music Orchestra. Á þessu ári kemur Björn Steinar fram á tónleikum á Íslandi, Finnlandi, Þýkalandi og Noregi.
Hann hefur hljóðritað fyrir útvarp og sjónvarp og á geislaplötur, m.a. öll orgelverk Páls
Ísólfssonar hjá Skálholtsútgáfunni og orgelkonsert Jóns Leifs hjá útgáfufyrirtækinu BIS
sem hlaut einróma lof gagnrýnenda. Björn Steinar hlaut Menningarverðlaun DV 1999, Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2001 og var valinn bæjarlistamaður Akureyrar 2002. Auk þess hlaut hann listamannalaun árin 1999 og 2015.

Guja Sandholt starfar sem sjálfstætt starfandi söngkona, listrænn stjórnandi Óperudaga, við kennslu og ýmiss konar menningarmiðlun. Hún kemur reglulega fram sem einsöngvari og kórsöngvari í óperum, óratoríum, tónleikum og ýmiss konar viðburðum. Auk þess gegnir hún hálfri stöðu hjá Hollenska útvarpskórnum í Hollandi.

Nýlega söng hún hlutverk Leonore í uppfærslu Óperudaga á Fidelio eftir Beethoven í Hörpu og óperuhátíð í Narva í Eistlandi en á sömu hátíð flutti hún einni súkkulaðikökuóperuna Bon appétit! eftir Lee Hoiby. Á næstu misserum mun hún syngja hlutverk Rossweisse í samstarfs uppfærslu Íslensku óperunnar og Listahátíðar í Reykjavík á Valkyrju Wagner sem og taka þátt í flutningi á The Little Match Girl Passion eftir David Lang á Óperudögum.

Guja var tilnefnd sem söngkona ársins í sígildum flokki á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2020, m.a. fyrir íslenskan frumflutning á óperunni King Harald's Saga eftir Judith Weir á Reykholtshátíð árið 2019. Hún hefur komið fram sem einsöngvari erlendis og hérlendis við flutning á sumum helstu óratoríum tónlistarbókmenntanna eins og til dæmis Mattheusarpassíunni og Jólaóratoríunni eftir Bach, Messíasi e. Händel; Stabat Mater eftir Pärt og Dvorak, Requiem eftir Mozart; The Armed Man eftir Jenkins og Messu í C eftir Beethoven.

Frá árinu 2016 hefur Guja starfað sem listrænn stjórnandi Óperudaga sem er grasrótarhátíð klassískra söngvara á Íslandi og þeirra samstarfsfólks. Á hátíðinni er lögð áhersla á nýsköpun, tilraunir, vandaðan flutning á nýjum og eldri verkum og innlent og alþjóðlegt samstarf milli fagfólks sem starfar við klassíska sönglist. Eitt af markmiðum hátíðarinnar er að efla starfsvettvang klassískra söngvara á Íslandi og að vekja athygli á því fjölbreytta starfi sem þeir standa fyrir.