Tix.is

Um viðburðinn

Jólaóratórían eftir J.S. Bach er án efa frægasta tónverk jólanna og er flutt um allan heim í aðdraganda jóla og segir söguna af fæðingu Jesú á einstaklega áhrifamikinn og hrífandi hátt.
Jólaóratórían er nú flutt í tilefni af upphafi fertugasta starfsárs Mótettukórsins og Listvinafélagsins í Reykjavík og 40 ára starfsafmæli Harðar Áskelssonar á Íslandi, eftir að framhaldsnámi hans erlendis lauk.
Flytjendur eru Mótettukórinn, Alþjóðlega barokksveitin í Reykjavík og einsöngvararnir Herdís Anna Jónasdóttir sópran, Alex Potter kontratenór, Benjamin Glaubitz tenór, sem syngur hlutverk guðspjallamannsins og einsöngsaríur og Jóhann Kristinsson bassi. Stjórnandi er Hörður Áskelsson.
Með flutningi Jólaóratóríunnar heldur Hörður Áskelsson áfram að gefa íslenskum tónleikagestum kost á að upplifa stórverk tónbókmenntanna í flutningi einvalaliðs hljóðfæraleikara sem hafa sérhæft sig í barokkflutningi og einsöngvara og kórs í fremstu röð. Fluttar verða fjórar fyrstu kantöturnar (I-IV af VI) og tekur hver kantata u.þ.b. 30 mínútur í flutningi.
Tónleikarnir eru um 2 og 1/2 klst með hléi. Flytjendur eru alls um 85 - 60 manna kór, 20 hljóðfæraleikarar, 4 einsöngvarar og stjórnandi.
Mótettukórinn er fullur tilhlökkunar að flytja þetta verk nú í annað sinn í Hörpu, en kórinn flutti allar 6 kantöturnar í nývígðri Hörpu á 30 ára afmæli sínu 2012. Alþjóðlega barokksveitin í Reykjavík flytur verkið nú í 5. sinn undir stjórn Harðar Áskelssonar, en barokksveitin, sem skipuð er afburða hjóðfæraleikurum bæði frá Íslandi og víða að úr heiminum, hefur ávallt fengið mikið lof fyrir leik sinn.