Tix.is

Um viðburðinn

Hrífandi a cappella kórverk eftir samtímatónskáldin Eric Witacer, Ola Gjelo, Galina Gregorjeva, P. Lukaszewsky, D. Elder, Paul Mealor, Pärt Uusberg, Hauk Tómasson, Þóru Marteinsdóttur, Hreiðar Inga Þorsteinsson, Sigurð Sævarsson og kórfélagana Auði Guðjohnsen og Björn Thorarensen auk útsetningar eftir Hafstein Þórólfsson og John Hearne. 

Tónlistin túlkar kyrrð og fegurð sem birtist í ýmsum þekktum textum kirkjunnar m.a. Ave verum corpus, Sanctus, In Paradisum o.fl. Þessi efnisskrá er hljóðrituð í september 2021 í Skálholtsdómkirkju og verður gefin út af sænska útgáfufélaginu BIS, en diskur kórsins, MEDIATIO, sem gefinn var út af BIS 2016 hefur hlotið mikið lof á alþjóðlegum markaði. 

Kammerkórinn Schola cantorum var stofnaður árið 1996 af Herði Áskelssyni kantor í félagi við nokkra meðlimi úr Mótettukór Hallgrímskirkju. Allar götur síðan hefur kórinn gegnt mikilvægu hlutverki í íslensku tónlistarlífi. Frumflutningur á verkum íslenskra tónskálda hefur jafnan vegið þungt á efnisskrá kórsins en einnig fjölröddun endurreisnartímans auk þess sem Schola cantorum hefur flutt ýmis stórvirki barokksins ásamt Alþjóðlegu barokksveitinni í Hallgrímskirkju. Schola cantorum hefur komið fram á tónleikum víðsvegar um Evrópu. Vorið 2017 söng kórinn ferna tónleika í boði Fílharmóníusveitar Los Angeles í Walt Disney Hall á Reykjavík Festival. Í mars 2018 frumflutti Schola cantorum með Sinfóníuhljómsveit Íslands verkið Eddu II eftir Jón Leifs. Verkið var hljóðritað af sænska útgáfufyrirtækinu BIS sem þáttur í heildarútgáfu fyrirtækisins á hljómsveitarverkum tónskáldsins. Kórinn kemur víðar við sögu í þeirri útgáfu. Schola cantorum sendi frá sér diskinn Meditatio, einnig í samstarfi við BIS, árið 2016 þar sem hljóma margar áhrifaríkar tónsmíðar kórtónbókmenntanna frá 20. og 21. öld, íslenskar jafnt sem erlendar. Hefur diskurinn hlotið lofsamlegar viðtökur víða um heim. 

Schola cantorum hefur unnið með fjölmörgum listamönnum við tónleikahald og upptökur. Má þar nefna Björk, Sigur Rós, Jóhann Jóhannson, Kjartan Sveinsson, Tim Hecker og sænska dúettinn Wildbirds and Peacedrums. Þá má geta þess að söngur kórsins gegnir veigamiklu hlutverki í tónlist á hinum vinsæla tölvuleik God of War sem Sony gaf út 2018. Schola cantorum var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2007 og valinn tónlistarflytjandi ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar á Íslensku tónlistarverðlaunum 2017. 

Fjölmargir spennandi viðburðir eru framundan hjá Schola cantorum, m.a.upptökur á jóladisk með íslenskri jólatónlist sem BIS gefur út, Jólatónleikar í Kristskirkju 15. des. nk, tónleikar á Alþjóðlegu kirkjutónlistarhátíðinni í Osló í mars 2022, Listahátíð í Reykjavík í júní 2022, tónlistarhátíð í Normandí í júlí 2022 auk fleiri hátíða hérlendis og erlendis.


FLYTJENDUR:

KAMMERKÓRINN SCHOLA CANTORUM

       Stjórnandi: HÖRÐUR ÁSKELSSON


Efnisskrá/ Programme:

1.   Elegy                                 Daniel Elder (f.1986)/Daniel Adams Butterfield

2.   Nú legg ég þér í lófa          Þóra Marteinsdóttir (f.1978)/J. Hausmann-Sigb. Einarsson

3.   Ave verum corpus             Auður Guðjohnsen (f.1975)/ Latneskur trúartexti

4.  Vor hinsti dagur                 Haukur Tómasson (f.1960)/Halldór Laxnes

5.  Lux aeterna                         Hreiðar Ingi Þorsteinsson (f.1978)/Latn. texti úr sálum.

6.   Sofðu unga ástin mín        íslenskt þjóðlag, úts. Hafsteinn Þórólfsson (f.1977)

7.   Sanctus: London               Ola Gjeilo (f.1978)/“Heilagur“ latneskur messutexti

8.   Agnus Dei                         Björn Thorarenssen „Guðs lamb“ latneskur messutexti

9.   Fagurt er í fjörðum            íslenskt þjóðlag, úts. John Hearne (f.1937)

                                                Einsöngur: Rakel Edda Guðmundsdóttir

10. Ubi caritas                         Paul Mealor (f.1975)/Biblíutexti

11. Ave verum corpus             Sigurður Sævarsson Latneskur trúartexti

12. In paradisum                     Galina Gregorjeva /f. 1962

13. Nunc dimittis                     Pawel Lukaszewsky Lofsöngur Símeons (f. 1968)

14. In paradisum                     Pärt Uusberg (f.1986)/ Latneskur texti úr sálumessu

15. Sleep                                 Eric Whitacre