Tix.is

Um viðburðinn

Dúó Edda er nýstofnaður dýnamískur hópur sem samanstendur af tveimur ungum og efnilegum hljóðfæraleikurum sem eru báðar starfandi á Íslandi. Vera Panitch á fiðlu og Steiney Sigurðardóttir á selló. Fyrstu tónleikar Dúó Eddu voru í Eldborgarsal Hörpu vorið 2020. Síðan þá hafa þær haldið fjölda tónleika, bæði á Íslandi og í Danmörku. Síðastliðinn nóvember hlutu þær þriðju verðlaun í Kammermúsíkkeppni á vegum dönsku útvarpsstöðvarinnar P2. Dúó Edda leggur mikla áherslu á að flytja tónlist frá Norðurlöndunum og er markmið hópsins að hafa að minnsta kosti eitt norrænt verk á hverju prógrammi.

Vera Panitch, fædd 1993 í Kaupmannahöfn, hóf fiðlunám hjá Arkadi Zelianodjevo. Árið 2005 fluttist hún til Seattle og hélt þar áfram námi með fiðluleikaranum Yuriy Mikhlin. 15 ára gömul hóf hún nám við Det Kongelige Danske Musikkonservatorium hjá fiðluleikaranum Alexandre Zapolski og lauk þar meistaranámi og sólistarnámi með hæstu einkunn. Við nám í Kaupmannahöfn lærði hún einnig kammermúsik undir Tim Frederiksen. Vera hefur unnið til verðlauna í mörgum keppnum í Danmörku og í útlöndum. Árið 2016 vann Vera stöðu uppfærslumanns annarrar fiðlu í Sinfóníuhljómsveit Íslands og hefur síðan þá einnig unnið stöðu annars Konsertmeistara hjá hljómsveitinni.

Steiney Sigurðardóttir er fædd árið 1996. Hún hóf sellónám 5 ára gömul hjá Örnólfi Kristjánssyni og var nemandi hans í átta ár við Suzuki tónlistarskólann í Reykjavík og Tónskóla Sigursveins. Hún lauk framhaldsprófi vorið 2012 undir handleiðslu Gunnars Kvaran, aðeins 16 ára gömul. Við nám sitt í Tónlistarskóla Sigursveins fékk Steiney sérstök verðlaun fyrir hæstu einkunn á miðstigi og 6.stigi. Frá áramótum 2013 til ársins 2015 var hún nemandi Sigurgeirs Agnarssonar við Listaháskóla Íslands og við Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem hún útskrifaðist með burtfararpróf. Steiney hlaut styrk Halldórs Hansen fyrir framúrskarandi námsárangur og fyrir burtfararpróf sitt. Hún hóf nám 2016 í Tónlistarháskólanum í Trossingen þar sem hún lærði í fjögur ár undir handleiðslu Prof. Francis Gouton. Steiney hefur leikið einleik með Hljómsveit Tónlistarskóla Reykjavíkur, Sinfóníuhljómsveit unga fólksins, Kammersveit Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Tónlistarröðin Heimssviðið er styrkt af Classical Futures Europe, í gegnum ECHO, sem eru samtök evrópskra tónlistarhúsa sjá nánar hér

___________________

Á Heimssviðstónleikum Dúó Eddu er áhersla lögð á tónlist sem er innblásin af þjóðlögum frá mismunandi löndum. Tónleikarnir byrja í ríkri þjóðlagamenningu Ungverjalands. Bartók er eitt af þeim tónskáldum sem fann sína rödd í þjóðlögum og eyddi miklum tíma í að læra um þjóðlagatónlist, taka hana upp og búa til útsetningar á þekktum þjóðlögum. Verkið sem við heyrum var upphaflega samið fyrir píanó en hljómar hér í útsetningu eftir Karl Kreuter.

Næst er ferðinni heitið til Tékklands, til tveggja tónskálda, Martinu og Schulhoff. Bæði tónskáld voru fædd með einungis fjögurra ára millibili og voru meðal þekktustu tónskálda síns tíma. Tónlist þeirra er þó ólík. Martinu var mjög innblásin af Frakklandi og nýjum straumum í franskri tónlist á 20.öld auk þess að halda í tékknesku þjóðlagahefðina í tónlist sinni. Tónlist Schulhoff er ekki eins þekkt nú til dags, þrátt fyrir að hann var með vinsælustu tónskáldum síns tíma. Hann var kommúnisti og gyðingur sem gerði honum erfitt fyrir í heimalandinu, auk þess að honum var bannað að ferðast til Þýskalands og verk hans voru einnig sett á bannlista. Því eru mörg af hans bestu tónverkum sjaldan flutt. ´Sónata hans fyrir fiðlu og selló er blanda af sterkri þjóðlagahefð með djassi og öðrum nútímalegri stílum´ eða svo lýsti gagnrínandi New York Times verkinu árið 1932.

Síðasta verk tónleikanna er frá ungverska tónskáldinu Kodaly. Tónlist hans er mjög innblásin af ungverskri þjóðlagatónlist. Bartók og Kodaly voru góðir vinir allt sitt líf og það má segja að Kodaly hafi tekið Bartok undir sína arma og kynnt houm fyrir aðferðum til að taka upp og safna þjóðlagatónlist. Verk Kodaly fyrir fiðlu og selló er meðal hans frægustu verka. Það er kraftmikið og nýtir hljóðfærin tvö til hins ýtrasta. Verkið er einnig í hópi vinsælustu verka sem hafa verið samin fyrir þessa hljóðfærasamsetningu; fiðlu og selló.

Efnisskrá:

Bohuslav Martinu (1890-1959) - Dúó fyrir fiðlu og selló No 2
-Allegretto
-Adagio
-Poco allegro 

H. Kraggerud (1973-) - Variation Suite fyrir fiðlu og selló

Erwin Schulhoff (1894 - 1942) - Dúó fyrir fiðlu og selló (1925)
-Moderato
-Allegro giocoso
-Andantino
-Moderato - Presto Fanatico

——— hlé ——— 

Béla Bartók (1881-1945) - Ungverskir þjóðdansar fyrir fiðlu og selló
-Allegro ironico
-Allegretto
-Moderato
-Choral, Andante
-Allegretto
-Con moto
-Vivace

Zoltán Kodály (1882 - 1967) - Dúó fyrir fiðlu og selló op.7 (1922)
-Allegro serioso, non troppo
-Adagio
-Maestoso e largamente - Presto