Tix.is

Um viðburðinn

BRUM er hljóðganga í skógi. Þátttakendur hlusta sig inn í skóginn og upplifa tengsl trjánna hvert við annað og manneskjuna. Hvernig er skógurinn í þínu nærumhverfi og hversu vel tekur þú eftir trjánum í kringum þig, veistu hvað þau heita? Hefur þú faðmað tré? Í BRUM gefst þér tækifæri til að fara inn fyrir börkinn og kynnast trjánum á áður óþekktan máta.

Áhorfendur velja sér förunauta í ferðalagið og greiða aðeins fyrir einn miða fyrir hvert tímaslott. Ekkert takmark er fyrir því hversu margir megar fara saman.

Trén í skóginum eru flytjendur verksins og leiða áhorfendur í gegnum ferðalag þar sem þau miðla djúpri vitneskju tilvistar sinnar sem á ævintýralegan hátt endurspegla samfélag manna. Áhorfandinn leggur af stað í leiðangur einsamall eða í félagsskap náinna ferðalanga. Í BRUM gefst áhorfandanum tækifæri á að hverfa tímabundið úr mannmiðjaðri hugsun og slaka inn í augnablikið sem skógurinn hefur uppá að bjóða í hvers kyns veðráttu sem ríkir. Trén hafa áhrif á skynjun áhorfandans í skóginum, mótandi og stýrandi, til dæmis með því að láta áhorfandann leika, snerta, tala, syngja, liggja og upplifa.

Sýnt 28 - 29. ágúst og 4. - 5. september milli 11:00-16:30 í græna hring í Heiðmörk (Borgarstjóraplanið).

Hægt að bóka slot á fimmtán mínútna fresti milli 11:00-16:30. Upplifunin getur tekið á milli 60-120 mínútur, allt eftir hraða áhorfenda.

Aðstandendur: Andrea Elín Vilhjálmsdóttir, Gunnur Martinsdóttir Schlüter, Harpa Arnardóttir, Kara Hergils og Ragnheiður Erla Björnsdóttir.

Verkið er styrkt af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Barnamenningarsjóði.


-----------------------------------------------------------------------------------------

Plöntutíð er ný sviðslistahátíð sem haldin verður í annað sinn dagana 3. - 5. september næstkomandi. Hátíðin var stofnuð sem vettvangur fyrir listamenn sem fjalla um náttúruna og gera tilraunir til að fara handan við mannhverfa sviðslistasköpun.

Á Plöntutíð verða vinnustofur og fjöldi sviðsverka sýnd í óhefðbundnum rýmum víðsvegar um Reykjavík og Kópavog. Dagskránni verður formlega hleypt af stað með gjörningi í streymi fyrir dýr sem heitir ,,Takk fyrir að halda mér á lífi” eftir Wiolu Ujazdowska. Fyrripartur laugardagsins er tileinkaður ungviðinum og tengslaræktun fjölskyldunnar. Hljóðgangan BRUM eftir sviðslistahópinn Trigger Warning fer af stað í Heiðmörk, Plöntuleikhús vinnustofa í Gerðarsafni með Lóu Björk Björnsdóttur stendur frá eitt til þrjú og Unglingurinn í skóginum verður flutt af unglingum leiddum af Ásrúnu Magnúsdóttur í Öskjuhlíð klukkan fjögur. Um kvöldið taka Jakub Zimmerman og Yelena Arkelow á móti fólki í matarupplifunarverkinu Kæra Gulrót, fyrirgefðu að ég gleymdi þér í kuldanum. Eva Halldóra Guðmundsdóttir og Vigfús Karl Sigfússon frumflytja þá hljóðverkið Plöntusnúður fyrir djammþyrstar plöntur í tóma rýminu í Skeljanesi. Á lokadegi hátíðarinnar verður boðið upp á Útþensluferð um Reykjanesið með Mannyrkjustöð Reykjavíkur og Plöntuleikhús hljóðverk eftir krakka og plöntuvini þeirra í Grasagarði Reykjavíkur. Að lokum gefst forvitnum færi á að fara í æsandi ferðalag í Náttúruhneigð með Írisi Stefaníu Skúladóttur og nálgast jörðina sem elskhuga sinn.

Plöntutíð er styrkt af Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka, Borgarsjóði Reykjavíkur, Lista- og menningarráði Kópavogs og Barnamenningarsjóði. Takk kærlega!!!

Nánar má lesa um Plöntutíð á plontutid.com.

Ráðstafanir vegna COVID-19

Hátíðin verður haldin með einum eða öðrum hætti og allir viðburðir settir upp með tilliti til sóttvarna og tilmælum almannavarna. Flestir viðburðir fara fram utandyra og áhorfendur eru í litlum hópum fólks sem tengist. Á þeim örfáu viðburðum innandyra og þar sem erfiðara er hægt að viðhalda fjarlægðar takmörkunum verður grímuskylda. Fyrir nánari upplýsingar má hafa samband við plontutid@gmail.com.