Tix.is

Um viðburðinn

Útþensluferð Mannyrkjustöðvarinnar

Mannyrkjustöðin býður upp á plöntutengsla leiðangur í rútu um Kleifarvatn og nágrenni. Í ferðinni verður farið í gegnum plöntutengsla æfingar sem geta skapað titring sem aðstoðar manneskjur í mótun plöntumiðaðra viðhorfa. Þannig er ferðast um bæði ytra og innra landslag. Eins er leiðangurinn eiginlegt frí frá mannmiðuðum viðhorfum, sem valda oft streitu og angist.

Lykilþemu ferðarinnar eru rödd, sjón, hreyfing og nesti. Þannig er ferðalaginu skipt upp í fjögur þemastopp sem byggja á þátttöku plöntuverðanda. Innlegg og æfingar eru við hvert stopp þar sem söngur, plöntugreiningar, skali og ganga munu koma við sögu.

Pick-up verður í Hellisgerð, Hafnarfirði. 

Áætlaður tími eru u.þ.b. 2,5 klst.

Innifalið í ferð er vatn, matur og kaffi.  Börn 6 ára og yngri fá frítt og börn 7-12 ára frá miðann á hálfvirði.

Ferðin er hugsuð sem fyrstu skref í átt að mótun nýs hugarfars, þar sem plöntur veita tækifæri til lærdóms, skilnings og vaxtar.

Nánar um listamennina:

Búi Bjarmar Aðalsteinsson er hönnuður sem hefur fengist við tengsl hönnunar við aðrar listgreinar og skoðað hvernig má nýta hugmyndir um hönnun í nýju samhengi. Undanfarið hefur hann fengist við að skoða mörk sviðslista og hönnunar þar sem eiginleikar hins stórbrotna augnabliks eru færðar í hversdagsleikan. Þar sem sviðsmyndin, leikmunir, búningar og framvinda eru hnýtt inní borgarlandslagið fær þátttakendur til að staldra við ævintýrin sem eru allt í kringum okkur.

Búi útskrifaðist úr sálfræði við Háskóla Íslands, vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands og samfélagsmiðaðri hönnun og list frá Hönnunar Akademíunni í Eindhoven. Búi er einnig meðstofnandi og þjónustufulltrúi Mannyrkjustöðvarinnar.

Hrefna Lind Lárusdóttir er sviðslistakona sem starfar á mörkum listforma, sviðslistar, myndlistar, tónlistar og hönnunar.

Verkin hennar eiga það til að færa áhorfendur inná mörk raunveruleika og fantasíu þar sem hún afbyggir hversdagsleikann í þeim tilgangi að hitta áhorfandann í ókönnuðu rými. Hrefna er ein af stofnmeðlimi hljómsveitarinnar The Post Performance Blues Band, meðstofnandi og þjónustufulltrúi Mannyrkjustöðvar Reykjavíkur sem er mannræktaraðstaða þar sem fólk getur tengst sinni innri plöntu og stofnandi verkefnisins Múrar brotnir sem er listavinnusmiðja í fangelsum landsins. Hrefna lærði sviðslistir við Naropa University og Listaháskóla Íslands.

Sviðslistamaðurinn Ragnar Ísleifur Bragason fæddist í Reykjavík árið 1977. Undanfarin ár hefur hann tekið þátt í bæði dans- og leiksýningum með leikhópunum 16 elskendur og Kriðpleir ásamt fjölda annarra hópa. Hann er einnig meðhöfundur og leikari í útvarpsleikritunum “Bónusferðin”, “Litlu jólin” og “Vorar skuldir” ásamt leikhópnum Kriðpleir. Ragnar hefur einnig skrifað eigin leikverk. Ragnar hefur kennt við Listaháskóla Íslands og Lungaskólann á Seyðisfirði. Hann útskrifaðist frá sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands.


-------------------------------------------------------------------------------


Plöntutíð er ný sviðslistahátíð sem haldin verður í annað sinn dagana 3. - 5. september næstkomandi. Hátíðin var stofnuð sem vettvangur fyrir listamenn sem fjalla um náttúruna og gera tilraunir til að fara handan við mannhverfa sviðslistasköpun.

Á Plöntutíð verða vinnustofur og fjöldi sviðsverka sýnd í óhefðbundnum rýmum víðsvegar um Reykjavík og Kópavog. Dagskránni verður formlega hleypt af stað með gjörningi í streymi fyrir dýr sem heitir ,,Takk fyrir að halda mér á lífi” eftir Wiolu Ujazdowska. Fyrripartur laugardagsins er tileinkaður ungviðinum og tengslaræktun fjölskyldunnar. Hljóðgangan BRUM eftir sviðslistahópinn Trigger Warning fer af stað í Heiðmörk, Plöntuleikhús vinnustofa í Gerðarsafni með Lóu Björk Björnsdóttur stendur frá eitt til þrjú og Unglingurinn í skóginum verður flutt af unglingum leiddum af Ásrúnu Magnúsdóttur í Öskjuhlíð klukkan fjögur. Um kvöldið taka Jakub Ziemann og Yelena Arakelow á móti fólki í matarupplifunarverkinu Kæra Gulrót, fyrirgefðu að ég gleymdi þér í kuldanum. Eva Halldóra Guðmundsdóttir og Vigfús Karl Sigfússon frumflytja þá hljóðverkið Plöntusnúður fyrir djammþyrstar plöntur í tóma rýminu í Skeljanesi. Á lokadegi hátíðarinnar verður boðið upp á Útþensluferð um Reykjanesið með Mannyrkjustöð Reykjavíkur og Plöntuleikhús í Grasagarði Reykjavíkur. Að lokum gefst forvitnum færi á að fara í æsandi ferðalag í Náttúruhneigð með Írisi Stefaníu Skúladóttur og nálgast jörðina sem elskhuga sinn.

Plöntutíð er styrkt af Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka, Borgarsjóði Reykjavíkur, Lista- og menningarráði Kópavogs og Barnamenningarsjóði. Takk kærlega!!!

Nánar má lesa um Plöntutíð á plontutid.com.


Ráðstafanir vegna COVID-19

Hátíðin verður haldin með einum eða öðrum hætti og allir viðburðir settir upp með tilliti til sóttvarna og tilmælum almannavarna. Flestir viðburðir fara fram utandyra og áhorfendur eru í litlum hópum fólks sem tengist. Á þeim örfáu viðburðum innandyra og þar sem erfiðara er hægt að viðhalda fjarlægðar takmörkunum verður grímuskylda. Fyrir nánari upplýsingar má hafa samband við plontutid@gmail.com.