Tix.is

Um viðburðinn

Plöntusnúður

Dj-sett

Þær eru þöglar, fagrar, sveigjanlegar, viðkvæmar en samt sterkar og lífseigar. Andstæðan við okkar dýrslegu hvatir. Plöntusnúður þeytir skífum fyrir mannfólk og plöntur í réttu rakastigi á meðan mannfólkið sleppir tökunum í nærandi umhverfi.

Plöntur og fólk djamma saman! Plöntusnúður er hljóðverk sem frumflutt verður í Tóma rýminu 4. september en síðar gefið út til streymis svo hægt verður að djamma með sínum eigin plöntum heima fyrir.

Aðstandendur eru Eva Halldóra Guðmundsdóttir og Vigfús Karl Steinsson.

Eva Halldóra Guðmundsdóttir er menntaður sviðshöfundur og söngkona. Vigfús Karl Steinsson er plötusnúður og tónlistarmaður. Saman erum við Eyrð. Hljóðheimar, tónlist og áhrif hljóðs heltekur huga okkar. Við erum undir miklum áhrifum diskósins og boðskapar stefnunnar í heild sinni. Við trúum á jafnvægi, jafnrétti og ást. Markmið Eyrðar að rannsaka, vinna með og upplifa hljóð í víðum skilningi. Með því að móta og vinna með hljóð höfum við fundið áhrif. Ekki bara á okkur sjálf heldur umhverfið í heild sinni. Við leitumst eftir því að ná stjórn á áhrifum þess en að sleppa tökum á hljóðinu. Fylgjast með því smjúga inn í hvern krók og kima veraldar okkar og vonandi dreifa boðskap ástar sem víðast.


---------------------------------------------------------------

Plöntutíð er ný sviðslistahátíð sem haldin verður í annað sinn dagana 3. - 5. september næstkomandi. Hátíðin var stofnuð sem vettvangur fyrir listamenn sem fjalla um náttúruna og gera tilraunir til að fara handan við mannhverfa sviðslistasköpun.

Á Plöntutíð verða vinnustofur og fjöldi sviðsverka sýnd í óhefðbundnum rýmum víðsvegar um Reykjavík og Kópavog. Dagskránni verður formlega hleypt af stað með gjörningi í streymi fyrir dýr sem heitir ,,Takk fyrir að halda mér á lífi” eftir Wiolu Ujazdowska. Fyrripartur laugardagsins er tileinkaður ungviðinum og tengslaræktun fjölskyldunnar. Hljóðgangan BRUM eftir sviðslistahópinn Trigger Warning fer af stað í Heiðmörk, Plöntuleikhús vinnustofa í Gerðarsafni með Lóu Björk Björnsdóttur stendur frá eitt til þrjú og Unglingurinn í skóginum verður flutt af unglingum leiddum af Ásrúnu Magnúsdóttur í Öskjuhlíð klukkan fjögur. Um kvöldið taka Jakub Ziemann og Yelena Arakelow á móti fólki í matarupplifunarverkinu Kæra Gulrót, fyrirgefðu að ég gleymdi þér í kuldanum. Eva Halldóra Guðmundsdóttir og Vigfús Karl Sigfússon frumflytja þá hljóðverkið Plöntusnúður fyrir djammþyrstar plöntur í tóma rýminu í Skeljanesi. Á lokadegi hátíðarinnar verður boðið upp á Útþensluferð um Reykjanesið með Mannyrkjustöð Reykjavíkur og Plöntuleikhús í Grasagarði Reykjavíkur. Að lokum gefst forvitnum færi á að fara í æsandi ferðalag í Náttúruhneigð með Írisi Stefaníu Skúladóttur og nálgast jörðina sem elskhuga sinn.

Plöntutíð er styrkt af Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka, Borgarsjóði Reykjavíkur, Lista- og menningarráði Kópavogs og Barnamenningarsjóði. Takk kærlega!!!

Nánar má lesa um Plöntutíð á plontutid.com.


Ráðstafanir vegna COVID-19

Hátíðin verður haldin með einum eða öðrum hætti og allir viðburðir settir upp með tilliti til sóttvarna og tilmælum almannavarna. Flestir viðburðir fara fram utandyra og áhorfendur eru í litlum hópum fólks sem tengist. Á þeim örfáu viðburðum innandyra og þar sem erfiðara er hægt að viðhalda fjarlægðar takmörkunum verður grímuskylda. Fyrir nánari upplýsingar má hafa samband við plontutid@gmail.com.