Tix.is

Um viðburðinn

Orgelsumar í Hallgrímskirkju verður haldið hátíðlegt frá 3. júlí til 22. ágúst í sumar. Átta íslenskir organistar sem starfa við kirkjur víða um land leyfa Klais-orgeli Hallgrímskirkju að hljóma á hádegistónleikum frá 3. júlí til 14. ágúst. Orgelið hefur skipað stóran sess í tónleika- og helgihaldi kirkjunnar allt frá vígslu þess á aðventu 1992.


Kjartan Jósefsson Ognibene kemur fram á tónleikum Orgelsumarsins þann 7. ágúst.


Kjartan Jósefsson Ognibene stundar tónlistarnám við Konunglega danska Tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn (DKDM) og hefur nýlokið Bachelorgráðu í orgel- og kirkjutónlist. Í haust mun hann hefja framhaldsnám við háskólann og stefnir á að ljúka meistaragráðu í orgel- og kirkjutónlist vorið 2023. Hann byrjaði í píanónámi 6 ára að aldri og lauk framhaldsprófi árið 2012 undir handleiðslu Guðrúnar Dalíu Salómonsdóttur. Haustið 2015 hóf hann nám við Tónskóla Þjóðkirkjunnar á kirkjuorganistabraut undir leiðsögn Björns Steinars Sólbergssonar, Jónasar Þóris Þórssonar og Eyþórs Inga Jónssonar. Hann lauk Kirkjuorganistaprófi vorið 2017 og hóf nám um haustið í DKDM. Í Kaupmannahöfn hefur hann hlotið leiðsögn í orgelleik og spuna frá Hans Fagius, Monica Melcova, Yuzuru Hiranaka og Mads Høck.


Efnisskrá:

J.S. Bach (1685 - 1750): Fantasía og Fúga í g-moll, BWV 542

Rued Langgaard 1893 - 1952): Prelúdía í E-dúr

Léon Boëllmann (1862 - 1897): Gotneska svítan, Op. 25