Tix.is

Um viðburðinn

Flygladúóið Sóley leikur verk frá mismunandi tímabilum tónlistarsögunnar, sem veita innsýn í hinn margbrotna tónheim tveggja flygla. Á tónleikunum verða flutt glæný íslensk verk sem samin eru sérstaklega fyrir dúóið. Auk þeirra munu hljóma verk eftir Händel, Mozart, Ravel, Piazzolla og Shostakovich. Sannkölluð flyglaveisla þar sem stíll hvers tímabils skín í gegn og möguleikar flyglanna nýttir til hins ýtrasta.

Tónleikarnir eru styrktir af Ýli Tónlistarsjóði, tónlistarsjóði Rannís og Reykjavíkurborg.

Laufey Sigrún Haraldsdóttir lauk mastersnámi í píanóleik vorið 2009 og hefur komið víða við í tónlistarflutningi síðan þá, bæði á Íslandi og erlendis. Hún hefur komið fram á og komið að skipulagningu fjölda tónleika í tengslum við ýmsar hátíðir og með kammerhópum og söngvurum. Hún kom reglulega fram í tónleikaröðinni Perlur íslenskra sönglaga í Hörpu í nokkur ár með fjölda söngvara og hefur lagt áherslu á flutning kammertónlistar ýmiskonar. Hún skipar nú dúóið Sóley með Sólborgu Valdimarsdóttur. Þá hefur hún komið fram á viðburðum eins og Jóga soundscape í Hörpu og gjörningi Ragnars Kjartanssonar "An die Musik" í Listasafni Reykjavíkur, og hefur þar að auki útsett og samið tónlist. Laufey lauk B.Mus prófi frá Listaháskóla íslands og M.Mus prófi frá Det Jyske Musikkonservatorium og tók þátt í fjölda námskeiða, þar á meðal dúó-píanó tónlistarhátíð í Noregi.

Sólborg Valdimarsdóttir hefur verið virkur þátttakandi í íslensku tónlistarlífi frá því hún lauk framhaldsnámi árið 2011. Auk þess að koma fram á tónlistarhátíðum eins og Pearls of Icelandic Songs í Hörpu, Tónlistarhátíð Unga fólksins, Óperudögum og með Caput hópnum hefur hún annast skipulagningu fjölda tónleika og komið fram heima og heiman. Helsta áhersla Sólborgar hefur verið á kammermúsík, einkum meðleik með söngvurum sem og flutning tónlistar fyrir tvo flygla, þar sem hún skipar dúó með Laufeyju Sigrúnu Haraldsdóttur píanóleikara.

Sólborg lauk B.Mus. gráðu frá Listaháskóla Íslands vorið 2009 undir handleiðslu Peters Máté og í kjölfarið mastersprófi frá Det Jyske Musikkonservatorium í Árósum undir handleiðslu Prof. Anne Øland og Thomas Tronhjem. Á námsárunum komst Sólborg í undanúrslit í háskólaflokki EPTA píanókeppninnar og tók jafnframt þátt í masterklössum hérlendis og erlendis hjá Irina Osipova, Murray McLachlan og Colin Stone, svo einhverjir séu nefndir. Einnig hefur hún hlotið leiðsögn í meðleik og kammertónlist hjá Gunnari Kvaran og Frode Stengaard.

Almennt miðaverð er 3.500 kr.
Eldri borgarar og nemendur fá miða á 2.500 kr. í miðasölu Hörpu
Frítt er fyrir 12 ára og yngri