Tix.is

Um viðburðinn

Flytjendur:
Bjarni Thor Kristinsson, bassi
Eva Þyri Hilmarsdóttir, píanó
Hanna Dóra Sturludóttir, mezzó-sópran
Helen Whitaker, þverflauta
Margrét Hannesdóttir, sópran
Þorsteinn Freyr Sigurðsson, tenór

Efnisskrá:
Clara Schumann: Drei Romanzen, Op. 22
Lili Boulanger: Nocturne
Robert Schumann: Spanisches Liederspiel, Op. 74

Clara Schumann samdi Drei Romanzen Op. 22 árið 1853 og tileinkaði það góðum vini sínum og fiðluleikara Joseph Joachim. Joachim og Robert Schumann spiluðu verkið víðsvegar á sínum tíma og í dag er þetta eitt þekktasta verk Clöru. Rómönsurnar þrjár hafa hver sinn stíl og eru mjög spennuþrungnar og fallegar. Lili Boulanger samdi verkið Nocturne árið 1911. Þá voru verk kvenna enn sjaldheyrð. Lili Boulanger er einna þekktust fyrir að hafa verið fyrst kvenna til að vinna Prix de Rome. Hún samdi fjöldann allan af fallegum verkum þó ævi hennar hafi verið stutt. Nocturne var upphaflega samið fyrir fiðlu og píanó og er innblásið af töfrum næturinnar, þar sem glitrandi tónar píanósins heyrast undir laglínu sem svífur yfir undirleiknum. Verkið endar á því að hljóðfærin tvö fléttast saman, tónlistin hljóðnar og hverfur inn í nóttina. Spanisches Liederspiel Op. 74 samdi Robert Schumann árið 1849 við spænsk ljóð úr safni Emanuels Geibels. Lögin eru tíu talsins og eru ýmist fyrir einsöngvara, dúett eða kvartett auk píanóleiks. Þar gætir áhrifa frá spænskri tónlist en m.a. má heyra bolero stíl í fimmta lagi flokksins. Ljóðaleikurinn byrjar á því að stúlka sér pilt milli rósarunna og segir móður sinni frá því. Pilturinn tekur svo við og biður stúlkuna um að vakna og gera sig tilbúna til að fara frá heimili sínu. Flokkurinn endar svo í raun á níunda laginu þegar pilturinn og stúlkan játa ást sína hvort á öðru þrátt fyrir kjaftasögur fólks. Tíunda lagið, Der Kontrabandiste, er einsöngslag sem bassinn flytur. Það tengist sögunni ekki beint. Lagið er um smyglara og hans líf en setur virkilega líflegan og fallegan endi á verkið, og tónlistarhátíðina Seiglu í senn.

Bjarni Thor Kristinsson er hópi þeirra íslensku óperusöngvara sem náð hefur hvað lengst á erlendri grund. Hann hóf söngnám við tónlistarskólann í Njarðvík hjá Ragnheiði Guðmundsdóttur og stundaði það síðan með hléum áfram í Tónskóla Sigursveins og Söngskólanum í Reykjavík. Haustið 1994 hélt Bjarni til frekara náms við óperudeild Tónlistarháskólans í Vín og naut þar leiðsagnar Helene Karusso og Curt Malm. Vorið 1997 var Bjarni síðan ráðinn sem aðalbassasöngvari Þjóðaróperunnar þar í borg. Þar var hann fastráðinn til þriggja ára og að þeim tíma liðnum sneri hann sér einungis að lausamennsku. Meðal helstu óperuhlutverka Bjarna má nefna: Barón Ochs í Rósariddaranum, Osmin í Brottnáminu úr kvennabúrinu, Pímen í Boris Godunow, Rocco í Fidelio, John Falstaff í Kátu konunum frá Windsor, van Bett í Zar und Zimmermann, að ógleymdum ýmsum hlutverkum í óperum Wagners: Wotan í Rínargullinu, Pogner í Meistarasöngvurunum, Daland í Hollendingnum fljúgandi, Hinrik konung í Lohengrin, Gurnemanz í Parsifal og risanum Fáfni í Niflungahringnum. Eftir að Bjarni gerðist lausamaður í söng hefur hann verið fastur gestur í Ríkisóperunni í Berlín auk þess að koma fram í óperuhúsum í Chicago, París, Feneyjum, Verona, Flórenz, Palermo, Róm, Lissabon, Barcelona, Hamborg, Dresden, München, Wiesbaden, Karlsruhe og Dortmund svo eitthvað sé nefnt. Bjarni söng hlutverk Osmin í Brottnáminu úr kvennabúrinu hjá Íslensku óperunni haustið 2006 og fékk Grímuna, íslensku leiklistarverðlaunin, sem söngvari ársins fyrir hlutverkið. Þá tók hann þátt í flutningi á verkinu Edda 1 eftir Jón Leifs með Sinfóníuhljómsveit Íslands haustið 2006 og söng einnig með hljómsveitinni við opnun tónlistarhússins Hörpu.

Eva Þyri Hilmarsdóttir stundaði nám við Det Jyske Musikkonservatorium í Árósum, Danmörku, og lauk þaðan einleikaraprófi að loknum prófum frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Eftir það nam hún við The Royal Academy of Music í London, en þaðan útskrifaðist hún með hæstu einkunn, hlaut heiðursnafnbótina DipRAM og The Christian Carpenter Piano Prize fyrir framúrskarandi lokatónleika. Helstu kennarar hennar voru Þorsteinn Gauti Sigurðsson, Halldór Haraldsson, John Damgård og Michael Dussek. Auk fjölda einleikstónleika hefur Eva Þyri komið fram sem einleikari með hljómsveit og tekið þátt í frumflutningi íslenskra og erlendra verka m.a. á hátíðunum Myrkum Músíkdögum, Ung Nordisk Musik, Young Euro Classic Festival í Berlín, Young Composers Symposium í London og Óperudögum í Reykjavík. Undanfarin ár hefur hún einnig lagt mikla áherslu á flutning ljóðasöngs og kammertónlistar og kom m.a. fram á rúmlega hundrað tónleikum tileinkuðum íslenskum sönglögum í Hörpu, í tónleikaseríunni Pearls of Icelandic Song. Eva Þyri tók þátt í uppsetningu Íslensku óperunnar 2017 á Mannsröddinni eftir Poulenc og í desember 2018 gaf hún, ásamt Erlu Dóru Vogler, út geisladisk með sönglögum Jórunnar Viðar í tilefni 100 ára afmælis hennar, en diskurinn hlaut tilnefningu til tónlistarverðlaunanna sem plata ársins 2018.
Eva Þyri kennir við Listaháskóla Íslands samhliða tónleikahaldi.

Hanna Dóra Sturludóttir hefur um árabil verið ein af okkar fremstu söngkonum og hefur átt farsælan feril á óperusviði og tónleikapalli víða um heim. Fjöldi þeirra  hlutverka sem hún hefur sungið eru nú um 60 talsins. Hanna Dóra hefur komið reglulega fram á ljóðatónleikum, sungið með Sinfóníuhljómsveit Íslands á  fjölmörgum tónleikum og síðastliðin ár hefur hún sungið ýmis hlutverk í  sýningum Íslensku óperunnar. Má þar helst nefna titilhlutverkið í Carmen, Eboli  prinsessu í Don Carlo, Donnu Elviru í Don Giovanni, Brothers eftir Daniel  Bjarnason og Marcellinu í Brúðkaupi Figarós. Árið 2014 hlaut Hanna Dóra  Íslensku tónlistarverðlaunin og fylgdi þeim nafnbótin „Söngkona ársins“ fyrir  túlkun hennar á Eboli prinsessu. Hanna Dóra leggur sérstaka áherslu á flutning  nýrrar tónlistar og hefur unnið náið með Snorra Sigfúsi Birgissyni tónskáldi  undanfarin ár. Hún vakti verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína í óperunni  KOK sem frumflutt var í Borgarleikhúsinu og hlaut tilnefningu til Grímunnar sem  söngvari ársins 2021. Hanna Dóra er aðjunkt og fagstjóri söngs við tónlistardeild  Listaháskóla Íslands.

Helen Whitaker is verðlaunaður flautuleikari með fjölbreyttan feril. Hún er aukaleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og hefur spilað með Caput. Hún stundaði nám við Trinity Laban Conservatoire of Music and Dance í London þar sem hún hlaut ýmis verðlaun og styrki, m.a. Director’s Prize og Howard Clarke Woodwind Prize. Hún hefur spilað með listamönnum eins og José González, Colin Currie Group, tekið reglulega upp með hinum þekkta upptökustjóra Butch Vig og hljómsveitinni Five Billion in Diamons og gefið út með þeim tvær plötur. Helen er meðlimur og einn stofnanda tónlistarhópsins Personal Clutter og hefur hópurinn hlotið styrk til að panta og setja saman ný tónverk fyrir tónleikaárið 2021-22. Helen er framkvæmdastjóri og fyrsti flautuleikari ALDAorchestra sem hún stofnaði árið 2016 ásamt Helga R. Ingvarssyni, tónskáldi og stjórnanda. Haustið 2019 túraði ALDAorchestra með Gerði Kristný rithöfundi til Englands og Danmerkur og flutti verk hennar DRÁPA við nýja tónlist Helga Rafns Ingvarssonar. Helen tók einnig þátt í síðasta óperuflutningi á Íslandi fyrir Covid, í mars 2020, en það var rafóperan Music and the brain í Salnum Kópavogi, eftir Helga R. Ingvarsson. Óperan var styrkt af List fyrir Alla.

Margrét Hannesdóttir er heillandi og metnaðarfull sópransöngkona sem útskrifaðist með láði frá Westminster Choir College (WCC) í maí 2013 með MM í söng og söngkennslu. Margrét hóf söngnám sitt árið 2006 hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur í Söngskólanum í Reykjavík og var svo hjá Sigrúnu Hjálmtýsdóttur í Söngskóla Sigurðar Demetz. Strax eftir nám hennar í Bandaríkjunum söng hún sópran solo í Sálumessu Mozarts með Sinfóníuhljómsveit unga fólksins og Háskólakórnum undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar. Margrét hefur svo sungið hlutverk í óperuuppfærslum bæði hérlendis og erlendis m.a. Norinu í Don Pasquale eftir Donizetti, Susönnu í Brúðkaupi Figaros eftir Mozart, Oberto í Alcina eftir Handel og Fyrsta piltinn í töfraflautu Mozarts. Í umfjöllun um Don Pasquale var Margréti lýst sem heillandi Norinu í þýska tímaritinu Wiesbadener. Margrét bjó fyrstu þrjú árin eftir útskrift úr meistaranáminu í Þýskalandi og á Ítalíu þar sem hún var í einkanámi hjá þekktum söngvurum á borð við Joseph Protschka, Margherita Guglielmi, Denia Mazzola-Gavazzeni og á Íslandi hjá Sigríði Ellu Magnúsdóttur. Hún hefur sungið á tónleikum víðsvegar bæði hérlendis og erlendis og tekið þátt í námskeiðum með kennurum á borð við Dalton Baldwin, Julius Kalmar og Maria Pia Piscitelli.

Þorsteinn Freyr Sigurðsson hóf söngnám árið 2005 hjá Elísabetu Erlingsdóttir við Tónskóla Reykjavíkur. Frá 2007 til 2010 hélt hann námi sínu áfram með Elísabetu en í þetta sinn við Listaháskóla Íslands. Hann lauk mastersgráðu í söng árið 2013 við Hanns Eisler í Berlín undir handleiðslu Prof. Scot Weir og eftir útskrift með Prof. Janet Williams, Jóni Þorsteinssyni og Hlín Pétursdóttur Behrens. Árið 2014 hóf Þorsteinn störf við Óperuhúsið Theater Ulm í Suður-Þýskalandi til ársins 2017 þar sem Þorsteinn söng fjölmörg aðalhlutverk. Þar mætti helst telja Ferrando í Cosí fan tutte, Don Ottavio í Don Giovanni í óperum eftir Mozart. Nemorino í L’elisir d’amore e. Donizetti, Camille de Rossillon í Die lustige Witwe e. Lehár. Þorsteinn hefur einnig mikla reynslu af ljóðasöng og hefur komið fram á tónleikum í Þýskalandi sem og á Íslandi. Síðan Þorsteinn flutti aftur til Íslands í byrjun árs 2017 hefur hann tekið þátt í ýmsum verkefnum; Haustið 2017 söng Þorsteinn hlutverk Spoletta í uppfærslu íslensku óperunnar af Tosca e. G. Puccini, ljóðaflokkinn Serenade no. 31 fyrir tenór og horn ásamt strengjasveitinni Íslenskir Strengir og Joseph Ognibene Hornblásara í Salnum kópavogi haustið 2018 og veturinn 2019 í norðurljósasalnum í Hörpu, Ljóðaflokkana Liebesliederwalzer e. J. Brahms og Spanisches Liederspiel e. R. Schumann vorið 2019 í Salnum kópavogi og sumarið 2019 í Norðurljósasal Hörpu, Svaninn í Carmina Burana e. Carl Orff haustið 2019 með Ungfóníu og háskólakórnum. Þorsteinn er virkur meðlimur í ýmsum sönghópum þ.m.t. Schola Cantorum, Voces Mascolorum og Rekkvartettinn ásamt fleirum. Ásamt einsöng og kórsöng stjórnar Þorsteinn Drengjakór Reykjavíkur, útsetur fyrir sönghópa og kóra, raddþjálfar sönghópa og kennir söngtækni.

Tónlistarhátíðin Seigla er haldin af Íslenska Schumannfélaginu og er styrkt af Ýli tónlistarsjóði, Styrktarsjóði SUT og Ruthar Hermanns, Tónlistarsjóði Rannís, Barnamenningarsjóði og Menningarsjóði FÍH.

Miðaverð fyrir nemendur, eldri borgara og meðlimi Íslenska Schumannfélagsins er 3000 kr. Það má nálgast miða á afsláttarverði í miðasölu Hörpu.

Nánar um hátíðina www.seiglafestival.is