Tix.is

Um viðburðinn

Vegna áframhaldandi óvissu vegna Covid-19 hefur tónleikunum sem vera áttu þann 12. febrúar n.k. verið frestað, miðahafar fá sendar frekari upplýsingar í tölvupósti

Flytjendur:
Dagur Þorgrímsson, tenór
Matthildur Anna Gísladóttir, píanó
Ólafur Freyr Birkisson, bassi
Vera Hjördís Matsdóttir, sópran
Þórhildur Steinunn Kristinsdóttir, mezzó-sópran

Efnisskrá:
Clara Schumann: Ich stand in dunkeln Träumen
                             Die stille Lotusblume

Edward Grieg:     Med en vandlilje
                            Zur Rosenzeit
                            En dröm
                            Jeg elsker dig

Franz Schubert:  Gute Nacht
                            Die Forelle

Robert Schumann: Minnespiel Op. 101



Ljóðaflokkurinn Minnespiel Op. 101 eftir Robert Schumann og Friedrich Rückert samanstendur af kvartettum, dúettum og einsöngsljóðum fyrir fjórar raddir og píanó. Ástin sem ort er um í Minnespiel er tær og djúp. Hún einkennist af virðingu og einlægni. Bjart er yfir og þakklætið er allsráðandi, sem og blómstrandi ástin. Hinn elskandi ljóðmælandi notar tónana sem óð til ástarinnar og viðtakandi finnur hvernig þeir lyfta sér upp. Ljóðin átta eru ákall um að nýta lífsins gjafir vel. Hátíð vorsins varir aðeins fáa daga. Ef þú átt ástvin, krýndu hann rósum áður en þeim lýkur. Hér fáum við að heyra þennan fallega ljóðaflokk umvafinn hlýju frá vel völdum sönglögum Clöru Schumann, Grieg og Schuberts.

Dagur Þorgrímsson tenór, fæddur 1993, ólst upp í Aðaldal í Þingeyjarsveit. Hann hóf tónlistarnám 6 ára gamall og lærði fyrst á píanó og gítar. Fyrst leiðsögn í söng fékk hann strax í grunnskóla. Dagur fékk ungur fjölda tækifæra til að stíga á svið og þroskast sem leikari og tónlistarmaður. Hann lék með leikdeild Eflingar á Breiðumýri og leikfélagi MA. Samhliða menntaskólagöngu hóf hann formlegt klassískt söngnám í Tónlistarskólanum á Akureyri undir handleiðslu Michael Jóns Clarke og Daníels Þorsteinssonar. Árið 2014 hóf Dagur nám í Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 2018 með Bakkalárgráðu í söng. Kennarar hans þar voru Hanna Dóra Sturludóttir, Kristinn Sigmundsson og Ólöf Kolbrún Harðardóttir og Þóra Einarsdóttir. Á námsárunum í Reykjavík söng Dagur hlutverk Tamions úr töfraflautunni í nemendauppfærslu tónlistarskólana Kópavogs og fór með hlutverk í frumflutningi á kammeróperunni Kornið eftir Birgit Djupedal. Einnig tók hann þátt í fjölbreyttum verkefnum með Dómkórnum, Kammerkór Seltjarnarneskirkju, Kór Langholtskirkju og Schola Cantorum. Haustið 2019 hóf dagur meistaranám í óperusöng við Mozarteum tónlistarskólann í Salzburh. Þar lærir hann hjá prófessor Christoph Strehl og prófessor Kai Röhrig. Sumarið 2020 söng hann eitt af fjórum hlutverkum í frumflutningi óperunnar Ekkert er sorglegra en manneskjan, tónlist eftir Friðrik Margrétar-Guðmundsson í leikstjórn Adolfs Smára Unnarssonar. Sýningin fékk sjö Grímutilnefningar 2021 og hlaut Grímuna fyrir tónlist ársins. Síðastliðið ár hefur Dagur sungið í uppfærslum við Mozarteum hlutverk prinsins í óperunni Tea: A mirror of soul eftir óskarsverðlauna tónskáldið Tan Dun, í leikstjón Wolf Widder og hlutverk Taminos í Töfraflautunni eftir Mozart í nýrri uppfærslu Alexöndru Szemerédy og Magdolnu Partditka.

Matthildur Anna Gísladóttir lauk bakkalárnámi í einleik frá Listaháskóla Íslands árið 2007. Næst lá leiðin til London þar sem hún lauk mastersnámi í meðleik við Royal Academy of Music. Árið 2014 útskrifaðist hún frá Alexander Gibson Opera School í Royal Conservatoire of Scotland með master í óperuþjálfun. Þar hlaut hún James H. Geddes Repetiteur verðlaunin. Þá hefur hún einnig komið að óperuuppsetningum m.a. hjá Íslensku Óperunni, Óperudögum í Kópavogi, British Youth Opera, Clonter Opera, Edinburgh Grand Opera, Lyric Opera Studio í Weimar, Scottish Opera, Royal Academy Opera og Co-Opera Co í London. Matthildur gegnir nú stöðu aðjúnkts í hljóðfæraleik við Listaháskóla Íslands auk þess sem hún er meðleikari við Söngskóla Sigurðar Demetz.

Ólafur Freyr Birkisson bassa-baritónn nemur söng við Listaháskóla Íslands hjá Hönnu Dóru Sturludóttur, Kristni Sigmundssyni, Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og Stuart Skelton. Áður nam hann við Söngskólann í Reykjavík hjá Agli Árna Pálssyni og Hrönn Þráinsdóttur. Ólafur hefur t.a.m. sótt og sungið á masterklössum hjá Roland Schubert og Stuart Skelton. Ólafur hefur farið með ýmis hlutverk. Þar má helst nefna hlutverk í hlutverk Dantes í samtímaóperunni Ekkert er sorglegra en manneskjan eftir Friðrik Margrétar-Guðmundsson og Adolf Smára Unnarsson, óperan hlaut 7 tilnefningar til Grímunnar árið 2021. Einnig hlutverk Gísla í óperunni Raven‘s Kiss eftir Evan Fein og Þorvald Davíð Kristjánsson og Tevye í söngleiknum Fiðlarinn á þakinu undir leikstjórn Þórhildar Þorleifsdóttur. Ólafur hefur komið fram sem einsöngvari með Kór Langholtskirkju, þ.á.m. í Requiem eftir Fauré og vorið 2021 fór hann með hlutverk Pílatusar í flutningi kórsins á Jóhannesarpassíu J.S. Bach undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar. Önnur hlutverk sem Ólafur hefur farið með eru: Falke í die Fledermaus eftir Johann Strauss II, hlutverk Úlfsins í ævintýrasöngleiknum Skilaboðaskjóðan eftir Jóhann G. Jóhannsson, hlutverk músarinnar og Svarta Konungsins í Furðuveröld Lísu eftir John Speight, der Sprecher og erster Priester í Töfraflautunni eftir W.A, Mozart og Kaífas í Jesus Christ Superstar eftir Andrew Loyd Webber. Þá komst Ólafur í úrslit Nótunnar, uppskeruhátíð tónlistarskóla, árið 2018 ásamt því að sigra sinn flokk í söngkeppninni Vox Domini.

Vera Hjördís Matsdóttir er 25 ára gömul sópran söngkona. Hún hefur sungið í kór frá fjögurra ára aldri. Lengst af undir stjórn Jóns Stefánssonar í hinum ýmsu kórum Langholtskirkju en einnig í Hamrahlíðarkórunum undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur um nokkura ára skeið. Frá 2013-2020 var Vera meðlimur í dömukórnum Graduale Nobili og sinnti þar formennsku frá árunum 2016-2019. Vera Hjördís lærði á þverflautu í Skólahljómsveit Austurbæjar um 3 ára skeið undir stjórn Vilborgar Jónsdóttur. Vera lauk framhaldsprófi frá Söngskólanum í Reykjavík árið 2016 undir leiðsögn Hörpu Harðardóttur og Hólmfríðar Sigurðardóttur. Þar tók Vera þátt í uppfærslu nemendaóperu Söngskólans á L'Enfant et les Sortiléges eftir Ravel. Veturinn 2016 - 2017 stundaði Vera söngnám við Tónlistarskólann í Reykjavík (nú MÍT) hjá Hlín Pétursdóttur. Vera hefur einnig tekið þátt í Óperuakademíu Unga Fólksins í Hörpu. Vera söng í úrslitum Vox Domini árið 2019 og 2020. Hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands sumarið 2020 með bakkalárgráðu í söng. Kennarar hennar voru Hanna Dóra Sturludóttir, Matthildur Anna Gísladóttir, Ólöf Kolbrún Harðardóttir, Kristinn Sigmundsson og Þóra Einarsdóttir. Um vorið það sama ár hlaut Vera viðurkenningu úr styrktarsjóði Halldórs Hansen fyrir frammistöðu sína í Listaháskólanum. Vera hefur tekið þátt í ýmsum fjölbreyttum tónlistartengdum verkefnum, m.a. farið með eitt af fimm hlutverkum í óperunni Kornið eftir Birgit Djupedal sem flutt var á Óperudögum 2018. Vera er meðlimur í Trillutríóinu sem ferðast um landið og flytur eyjalög þeirra Ása í Bæ og Oddgeirs Kristjánssonar í sjaldheyrðum útsetningum Atla Heimis Sveinssonar. Vera stefnir á meistaranám erlendis í söng næsta haust.

Þórhildur Steinunn Kristinsdóttir er 23 ára mezzó-sópran. Hún stundar klassískt söngnám við tónlistarháskólann Mozarteum í Salzburg, Austurríki. Vorið 2018 hlaut hún styrk úr minningarsjóði Vilhjálms Vilhjálmssonar fyrir skólaárið 2018-2019. Þórhildur hlaut 1. sæti í framhaldsflokki klassísku söngkeppninnar Vox Domini vorið 2019. Þórhildur hefur tekið þátt í mörgum nemendaóperuuppfærslum í Söngskólanum í Reykjavík, þar sem hún hefur meðal annars sungið eitt af aðalhlutverkunum í Leðurblökunni eftir Johann Strauss. Í október 2018 tók Þórhildur þátt í Óperudögum í Reykjavík þar sem hún söng á dúettatónleikum í Árbæjarlaug og Sundhöll Reykjavíkur fyrir sundgesti. Í júlí 2019 tók hún þátt í Minningartónleikum til heiðurs Atla Heimis Sveinssonar á vegum Sönghátíðar í Hafnarborg. Sumarið 2020 var Þórhildur hluti af tónlistarhópnum Borgarblómunum sem var einn af Listhópum Hins hússins í Reykjavík. Borgarblómin héldu marga tónleika víða um Reykjavík, m.a. í Hörpu, Hallgrímskirkju, Árbæjarsafni og Ráðhúsi Reykjavíkur. Í ágúst 2020 söng Þórhildur á hádegistónleikum í Fríkirkjunni í Reykjavík ásamt Sigurði Helga Oddssyni píanóleikara. Tónleikarnir voru hluti af tónleikaröðinni Á ljúfum nótum í Fríkirkjunni. Í sumar mun Þórhildur taka þátt í uppfærslu óperudeildarinnar í Mozarteum af Töfraflautunni eftir W.A. Mozart.

Tónlistarhátíðin Seigla er haldin af Íslenska Schumannfélaginu og er styrkt af Ýli tónlistarsjóði, Styrktarsjóði SUT og Ruthar Hermanns, Tónlistarsjóði Rannís, Barnamenningarsjóði og Menningarsjóði FÍH.

Miðaverð fyrir nemendur, eldri borgara og meðlimi Íslenska Schumannfélagsins er 3000 kr. Það má nálgast miða á afsláttarverði í miðasölu Hörpu.

Nánar um hátíðina https://seiglafestival.is/en