Tix.is

Um viðburðinn

Upplýsingar til gesta
Samkvæmt núgildandi reglugerð um sóttvarnir verða allir gestir að sýna neikvæða niðurstöðu úr hraðprófi við komu á viðburði, og á það því við um þessa tónleika. ásamt grímuskyldu. Hraðpróf eru gjaldfráls og gilda í 48 klst

Á höfuðborgarsvæðinu er hægt að fara í hraðpróf á eftirfarandi stöðum: Mikilvægt er að skrá sig í próf áður en mætt er

• Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins býður upp á hraðpróf á Suðurlandsbraut 34; www.hradprof.covid.is
• Covidtest; býður upp á hraðpróf bæði á Kleppsmýrarvegi 8 og í Hörpu. Aðstaðan í Hörpu er í kjallara hússins, beint á móti inngangi frá bílastæðakjallara. www.covidtest.is athugið að hraðprófsstöð í Hörpu lokar kl. 18
• Öryggismiðstöðin býður upp á hraðpróf við Kringluna og BSÍ; www.testcovid.is
Utan höfuðborgarsvæðis www.hradprof.covid.is


Flytjendur:
Ásta Dóra Finnsdóttir píanó
Grímur Helgason klarínetta
Guðrún Dalía Salómonsdóttir píanó
Þórarinn Már Baldursson víóla

Efnisskrá:
Robert Schumann: Märchenerzählungen, Op. 132
W. A. Mozart: Kegelstatt tríó, KV498
Clara Schumann: Þrjár Rómönsur, Op. 21
Rakhmanínov: Corelli tilbrigðin, Op. 42

Clara Schumann skrifaði í dagbók sína þann 11. október árið 1853: „Í dag lauk Robert við að semja fjóra þætti fyrir klarínettu, víólu og píanó og er mjög ánægður með verkið. Honum segist svo hugur um að þessi hljóðfærasamsetning muni þjóna vel hinu rómantíska inntaki tónlistarinnar.“ Verkið sem hún vísar til, Märchenerzählungen (Ævintýri) Op. 132, reyndist eitt af síðustu verkunum sem eiginmaður hennar lauk við um ævina. Unnendum tónlistar Roberts dylst ekki að í verkinu talar hið rómantíska hjarta og hugur skáldsins af sömu einlægni og endranær, sér í lagi í hæga þætti verksins. Ekki eru mörg verk til fyrir hljóðfæraskipanina sem hér um ræðir, en Kegelstatt tríó Mozarts, KV498, virðist hafa verið hið allra fyrsta. Nú kórónar það fyrri hluta tónleikanna, fullt af fjöri og fegurð.  Píanóleikarinn Ásta Dóra Finnsdóttir opnar opnar annan hluta tónleikanna með unaðslegum rómönsum eftir Clöru Schumann. Það er vart hægt að neita hversu mikilli atorku Clara útgeislar. Við eigum henni margt að þakka. Þrjár Rómönsur Op. 21 samdi hún á erfiðum tíma í lífi sínu og þær eru jafnframt meðal seinustu verkanna sem hún samdi. Robert var mjög veikur og þau höfðu verið aðskilin um langan tíma vegna þess. Clara var ein, hrædd, en hún samdi þetta fallega verk sem sýnir okkur hve mikilvæg listin er þegar á reynir. Corelli tilbrigðin Op. 42 eftir Rakhmanínoff voru einnig samin undir lok ferils tónskáldsins, en þau eru seinasta verkið sem hann samdi fyrir eitt píanó. Verkið hrífur hlustendur með sér á ótrúlegt ferðalag í gegnum 20 tilbrigði á hinni aldagömlu foliu, laglínu frá lokum 15. aldarinnar.

Ásta Dóra Finnsdóttir, 14 ára, nemur píanóleik bæði á Íslandi og í Noregi. Hún stundar nám við Barratt Due í Osló hjá rússneska píanóleikaranum Marina Pliassova. Innanlands nemur hún hjá Peter Máté við Menntaskóla í tónlist. Ásta Dóra hefur verið dugleg við að taka þátt í píanókeppnum víða um heim í gegnum netið. Hún hefur tekið þátt í og unnið til verðlauna í fjölda alþjóðlegra píanókeppna. Ásta Dóra hefur komið fram sem sólóisti með eftirfarandi hljómsveitum: Sinfóníuhljómsveit Íslands, Athens camerata í Grikklandi, Skólasínfóníuhljómsveit Barratt Due í Noregi og Academic Symphony Orchestra of the Zaporizhzhya Regional Philharmonic í Úkraínu. Hún hefur leikið á hátíðum í Finnlandi, Danmörku, Grikklandi, Belgíu, Noregi og Íslandi. Hún hefur verið þátttakandi í masterklössum með mörgum prófessorum, þar á meðal N. Lugansky og M-A. Hamelin. Henni finnst gaman að leika af fingrum fram, semja tónlist, lesa bækur, skrifa sögur, búa til hreyfimyndbönd og stafrænni teikningu.

Grímur Helgason nam klarínettuleik hjá Sigurði I. Snorrasyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík og hjá Einari Jóhannessyni í Listaháshóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist árið 2007. Hann nam ennfremur við Conservatorium van Amsterdam hjá Hans Colbers og lauk þaðan M.Mus prófi vorið 2011. Grímur hefur komið víða við í íslensku tónlistarlífi undanfarin ár sem kammertónlistarmaður, hljómsveitarspilari og flytjandi nýrrar tónlistar. Meðal hljómsveita og tónlistarhópa sem hann hefur leikið með má nefna Sinfóníuhljómsveit Íslands, þar sem hann hlaut fastráðningu árið 2016, Caput, Hljómsveit íslensku óperunnar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Stirni ensemble, Kúbus og Kammersveit Reykjavíkur auk samstarfs við fjölbreyttan hóp tónskálda og annarra tónlistarmanna.

Guðrún Dalía Salómonsdóttir píanóleikari kemur reglulega fram sem einleikari, í kammermúsík og sem meðleikari söngvara. Hún stundaði píanónám við Tónlistarskólann í Reykjavík og útskrifaðist frá Tónlistarháskólanum í Stuttgart 2007. Síðar stundaði hún framhaldsnám í París. Guðrún hefur hlotið fjölda styrkja og viðurkenninga og leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit unga fólksins og á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Út hafa komið tveir söngdiskar með leik hennar, Sönglög Jórunnar Viðar með Helgu Rós Indriðadóttur og Gekk ég aleinn, lög Karls Ottós Runólfssonar með KÚBUShópnum. Guðrún Dalía starfar sem meðleikari við Tónlistarskóla Garðabæjar.

Þórarinn Már Baldursson fæddist á Húsavík og ólst upp í Aðaldal. Hann stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Guðmundi Kristmundssyni og Helgu Þórarinsdóttur og í Stuttgart hjá Prof. Hermanni Voss. Þórarinn hefur verið fastráðinn hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands frá árinu 2002. Hann leikur reglulega með stórum og smáum kammerhópum, s.s. Caput, Kammersveit Reykjavíkur, Elektru og Kúbus. Hann er meðlimur í Kordo strengjakvartettnum. Þórarinn myndskreytir barnabækur í hjáverkum, þar á meðal bækurnar um Maxímús Músíkús. Hann hefur verið tilnefndur til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar, og bækur sem hann hefur myndskreytt hlotið sömu verðlaun, Fjöruverðlaunin og Íslensku barnabókaverðlaunin og verið þýddar á fjölmörg tungumál.

Tónlistarhátíðin Seigla er haldin af Íslenska Schumannfélaginu og er styrkt af Ýli tónlistarsjóði, Styrktarsjóði SUT og Ruthar Hermanns, Tónlistarsjóði Rannís, Barnamenningarsjóði og Menningarsjóði FÍH.

Miðaverð fyrir nemendur, eldri borgara og meðlimi Íslenska Schumannfélagsins er 3000 kr. Það má nálgast miða á afsláttarverði í miðasölu Hörpu.  

Nánar um hátíðina www.seiglafestival.is