Tix.is

Um viðburðinn

Rokkið er ódrepandi!

Hljómsveitin Nykur hefur rísið úr hafi á ný og heldur sína fyrstu tónleika í Kaldalóni, Hörpu föstudaginn 17. september n.k.

Á efnisskrá verður úrval af kraftmikilli tónlist sveitarinnar af tveimur plötum hennar og líka verður nokkrum velþekktum íslenskum rokkslögurum, sem meðlimir hafa komið að í gegnum tíðina, blandað saman til kryddunar. Herlegheitin munu síðan hljóma í víðóma hátalarakerfi Kaldalóns ásamt öflugri mynda- og ljósasýningu til áhrifaauka – Öllu verður tjaldað til að hámarka rokkupplifun gesta þetta kvöld.

Nýlega gekk Magnús Stefánsson trommari, sem áður gerði garðinn frægan með Utangarðsmönnum, Egó og Sálinni hans Jóns míns, til liðs við sveitina og fyrir eru svo enn á fleti þeir Davíð Þór Hlinarson (Buttercup, Dos Pilas) söngur og gítar, Guðmundur Jónsson (Sálin hans Jóns míns, GG blús) gítar og bakraddir og Jón Svanur Sveinsson (Númer núll, Daysleeper) á bassa og bakraddir.

Rokksveitin Nykur var stofnuð sumarið 2013 og gaf út það ár sína fyrstu plötu, samnefnda hljómsveitinni. Frumraunin fékk prýðis viðtökur, tónlistin járnblendin, grípandi og var líka gerður góður rómur af tónleikahaldi bandsins. Önnur plata Nykurs, Nykur II, kom síðan út 2016 með sterkum höfundareinkennum sveitarinnar en hún fetaði líka nýja krókastigu því tónlistin var margræðnari með þyngri undiröldu - rökrétt framhald var sagt og tónleikarnir sem fylgdu í kjölfarið sönnuðu það.

Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og kostar 3900 krónur inn.


Hér má lesa ummæli um tónlist og hljómleika sveitarinnar :

Nykur II var valin Plata vikunnar á Rás 2 í apríl 2016 og þá skrifaði hinn síkviki t
ónlistargagnrýnandi Arnar Eggerts m.a. eftirfarandi :
…Hér eru menn að fá vissa útrás, Nykur er það sem kalla má ástríðusveit og sú tilfinning skilar sér í eyrun. En til viðbótar við það rokkar platan skrambi vel, lagasmíðar eru hinar fínustu og spilamennska er til mikillar fyrirmyndar. Gítarar Guðmundar og Davíðs Þórs (Dos Pilas) eru í fallegum samfléttum og Davíð er auk þess góður söngvari, fer aldrei upp í yfirkeyrðar falsettur og ljær textum Guðmundar þann kraft og skýrleika sem þeir kalla eftir. Kristján B. Heiðarsson (trommur) og Jón Svanur Sveinsson (bassi) eru þá vel þéttir í hryndeildinni. Stundum er þeyst áfram af krafti, stundum er aðeins hægt á sér, og stundum er hlaðið í grípandi smelli…
…Einfaldast er að segja, að hér tekst það sem var lagt upp með. Sannfærandi rokkskífa, haganlega mótuð eftir þeim forsendum sem ég hef reifað, og aðstandendum til mikils sóma.”

Björn Jónsson tónlistarspekúlant og síðuhaldari Tónskrattans hafði þetta að segja um tónleikana Nykurs á Græna Hattinum í apríl 2016 á Akureyri :
„Hin frábæra rokksveit Nykur hélt útgáfutónleika á Hattinum en frekar fáir virtust með á nótunum því einungis um 20 manns sáu sér fært að mæta. Strákarnir létu það ekki á sig fá og gáfu sig alla í flutninginn. Endalaus virðing á tónlistarmenn sem leggja það á sig að ferðast um skerið og spila svo kannski fyrir örfáar hræður, en halda samt kúlinu. Þeir eru rétt að byrja þessir drengir og eiga sannarlega framtíðina fyrir sér og ég spái því að ef þeir gefast ekki upp þá eiga Dimma og Skálmöld heldur betur eftir að vinna fyrir kaupinu sínu ef þær sveitir ætla að hafa roð í þessa pilta. Búinn að renna nýju plötunni oft í gegn um helgina og það er fljótsagt að hún er frábær. Þessi fyrsta er fín en hér er það komið sem uppá vantaði á henni. Til hamingju Nykur og takk fyrir gott gigg á föstudaginn.“

Gagnrý
ni á Nykur II í maí 2016 - Björn Jónsson, Tónskrattinn / 8/10
“...Þetta er plata með bæði hjarta og pung og ástríðan leynir sér ekki.  Engin tilgerð og maður finnur að þeir eru að meina þetta án þess að taka sig of alvarlega. Grimm gítarriff og geggjuð gítarsóló taka mann á vit fornra frægðartíma í rokkinu fyrir allt of mörgum árum án þess að þetta virki gamalt og þreytt...
... Erfitt er að gera upp á milli laga og ætli þau hafi ekki öll orðið uppáhaldslög á einhverjum tímapunkti.  Ekkert uppfillingarefni er hér í boði og leitun að jafnari gæðum á einni plötu. Samt, ef snúið væri upp á aðra hendi mína, myndi ég týna út hið epíska lokalag, Í úthafi eilífðar, mögnuð smíð. Eitt af þeim lögum þar sem Roland Hartwell hjálpar til á fiðlu við að ná fullnaðaráhrifum. Sjáið sólin þjást, er hörkurokkari sem er að heilla mig núna... „sjáið sólina þjást/ steypast niður með arnarkló/ Þessi sigur skal nást/eins og útrýming Karþagó“. Yfir urð og grjót, vil ég nefna líka svo og Mín eina von, fyrst ég er farinn að týna út lög. Já ég er sáttur við þennan grip og ég var þess fullviss er ég heyrði frumburðinn að drengirnir ættu mikið inni. Það var ekkert sjálfgefið að það kæmi önnur plata og því er það ákaflega gleðilegt.”

Gagnrýni á Nykur II sumarið 2016 - Helgi J. Glatkistan / * * * *
“...Reyndar þurfti töluvert margar hlustanir til að fanga athyglina og gæðin, það vantar reyndar alls engin gæði í hljóðfæraleikinn, hann er alls staðar fyrirtaks sem og söngur Davíðs en hann sprettur nú fram sem fullþroska rokksöngvari eftir að hafa svo oft staðið í skugga annarra. Tónlistin er hreint og klárt gamaldags rokk úr ýmsum áttum, þarna má heyra gítarvísanir héðan og þaðan úr rokksögunni, allt frá Hendrix (Í úthafi eilífðar) til Rammstein (Sjáið sólina þjást) og því er ekki verið að finna upp nein hjól – sem er vel því svona á rokk að hljóma, raddaðir gítarfrasar, fyrirferðamikil sóló og auðmeltar melódíur sem þó eru ekki of grípandi í byrjun, mér finnst ég jafnvel heyra óminn af Drýsli svo enn eitt dæmið sé hér nefnt. Allar söngraddanir eru enn fremur eftir bókinni. Sígilt, tímalaust og fullkomlega heiðarlegt rokk...
...En sem fyrr segir er Nykur II jöfn að gæðum, hún er mun þyngri en fyrri platan en vinnur á við hverja hlustun og það er líka heilmikil stígandi í henni, þannig er síðari hluti plötunnar betri að mínu mati og nær í raun hámarki í þremur síðustu lögunum. Niðurstaðan er því að gamla góða rokkið og rólið lifir enn ágætu lífi.”

Gagnrýni á Nykur II sumarið 2016 - Tónlistargagnrýnandinn, facebook / 3/5
“Hér eru komin önnur plata Nykurs. Gummi Jóns og co gáfu út sína fyrstu plötu árið 2013 og vöktu athygli. Þeir hafa tekið ákvörðun um að keyra á sömu ímynd með svipaðri plötumynd og áframhaldandi rokki. Beint í mark er fínt lag. Opnir og epískir gítarhljómar keyra lagið áfram. Textinn setur strax svip á plötuna enda um ákveðið þema að ræða. Nánar um það síðar. Gummi er einn okkar allra besti gítarleikari og hann sýnir klærnar í þessu fyrsta lagi. Þéttur rokkari sem minnir á samblöndu af Guns‘n‘Roses og Metallicu...
...Þessi plata snýst samt aðallega um gítarinn. Blóði drifin slóð er til að mynda verulega flott gítarrúnk, sjá mín 2:58. Væri eiginlega til í að fá sýnikennslu í hvernig þessi gítar var tekinn upp. Hljómurinn í Sjáið sólina þjást er t.d. þéttari en páfagauksrass. Mér finnst hins vegar eins og bassinn falli aðeins í skuggann fyrir vikið enda er hann mjög lágt stilltur í sama lagi til að mynda. Mín eina von byrjar þar sem síðasta lag skildi við. Áframhaldandi gítar drifið rokk en núna keyrir bassinn þetta skemmtilega áfram....
... Heilt yfir er hér klassískt þungarokk á ferð... ... Ef hljómsveitirnar Dimma og Skálmöld myndu eignast barn þá liti það svona út.”

Björn „Bubbi“ Jónsson síðuskrifari Tónskrattans gaf fyrstu Nykur plötunni ***1/2 stjörnu í nóvember 2013 og segir meðal annars;
„Já maður heyrir sterk minni frá gullaldarárunum án þess að það sé verið að fá áberandi mikið að láni. Eitt besta lagið á plötunni Illskufullar kenndir er þó undir sterkum Rainbow (Gates of Babylon) áhrifum, en það hefur aldrei verið bannað að vera undir áhrifum... annarra hljómsveita“. Og í annan stað segir; „ Gamaldags melódískt rokk með popp ívafi og þeir gera þetta af heiðarleika og einlægni og geta þrátt fyrir allt verið ánægðir með útkomuna. Vonandi kemur meira síðar og ég vil taka fram að sveitin er mjög góð á tónleikum... þar nýtur tónlistin sín best“.

Árni Mattíhasson sagði m.a. í Mogganum nóvember 2013 um fyrstu Nykur plötuna /  ***1/2 :
„ Í Nykri sameinast menn um rafmagnað gítarrokk með tilheyrandi gítarsólóum og fjöri og skila skemmtilegri skífu“ og á öðrum stað segir; „Sum laganna semja sig í ætt við glys og hárrokk níunda áratugarins, en önnur sækja innblástur lengra aftur. Lykilatriði er þó að leyfa gítarnum að hljóma, væla, grenja og öskra. Þetta er mikil gítarplata, rokkuð í eitt með grimmdargítarsólóum og bjögun“.

Umfjöllun Tinu Solda frá Eistnaflugshátíðinni júlí 2016 :
“…less heavy but more melodic was the following band, Nykur. Their new release had recently been Album of the Week on RÁS 2 (as a foreign-based student of Icelandic I greatly appreciate the benefits of internet radio), so I was halfway familiar with it and actually ended up buying it after the show, although the studio versions do not completely match the band’s live energy. Straightforward hard rock with good melodies, and I’m rather glad that the occasional nods to power metal are more discrete than the cover and the lyrics might lead the listener to expect.”

Gagnrýni á Nykur II maí 2016 - Marcin Kozicki :
„Album " Nykur II " sounds damn good. The new material is fantastic, predatory, has the strength, pugnacity and rock soul. The compositions are solid and exemplary arrangements. It is clean energy, adequate power and clarity. It's loud and juicy, but sometimes atmospherically and lyrically. It's really really good.