Tix.is

Um viðburðinn

Ath. Að hámarki 50 gestir eru leyfðir á hverja tónleika og því verður ekki krafist hraðprófa.

Hér er um að ræða tónleika með nýjum íslenskum samsöngslögum, dúettum, tríóum og kvartettum. Lögin eru fyrir söngvara og píanó og skiptast í þrjá flokka eftir efni: Sumarlög, Matarlög og Lög um ástina. Þórunn Guðmundsdóttir semur bæði texta og tónlist, en hún hefur getið sér gott orð fyrir bæði tónverk og sviðsverk (leikrit og óperur). Flestir textarnir eru bráðfyndnir. Orðaleikir og glettni eru í fyrirrúmi auk þess sem tónlistin er á léttum nótum en heillandi og falleg. Lögin eru auk þess ljóðræn og yndisleg áheyrnar.

Flytjendur:

Björk Níelsdóttir sópran

Eyjólfur Eyjólfsson tenór

Erla Dóra Vogler mezzó-sópran

Eva Þyri Hilmarsdóttir, píanóleikari

Hafsteinn Þórólfsson baritónn


Efnisskrá:

Meðlæti

Leiðin að hjartanu

Veislumatur

Vinátta

Drykkir

Er sólin hnígur – Ljóð eftir Hannes Hafstein

Slæðingur – Ljóð eftir Hannes Hafstein

Tjarnarbakkinn

Úrkoma í grennd

Skvett úr klaufum

Sólarglenna

Kennarinn

Planið

Sólin og þú – Ljóð eftir Sævar Sigurgeirsson

Arfi

Ferðalagalag

Straumar

Björk Níelsdóttir stundaði nám í klassískum söng við Tónlistarskólann í Hafnarfirði hjá Þórunni Guðmundsdóttur og við Tónlistarskólann í Amsterdam. Árið 2015 útskrifaðist Björk með hæstu  einkunn úr mastersnámi þaðan og fékk hún auk þess sérstaka viðurkenningu fyrir listsköpun. Björk hefur komið fram í frumflutningi fjöldamargra ópera, leikuppfærsla og tónverka, t.d.  Wozzeck eftir Romain Bischoff, Beeldenstorm eftir Jan-Paul Wagemans, Aarappelvreters eftir  David Dramm, Plastóperunni eftir Gísla J. Grétarsson og Arnar Kristjánsson, Konunni og  selhaminum eftir Hróðmar I. Sigurbjörnsson og Ragnheiði Erlu Björnsdóttur og Ruimtevlucht sem var tilnefnd sem barnasýning ársins 2020 á leiklistarverðlaununum í Hollandi. Á Íslandi hefur Björk verið í framvarðasveit í flutningi á samtímatónlist og frumflutt hátt í 40  kammerverk og óperur. Björk hefur samið verk fyrir hljómsveitir sínar. Hún hlaut styrk frá tónskáldasjóði  RÚV fyrir verk sitt Allt er ömurlegt, sem var frumflutt á Myrkum Músíkdögum 2019. Einnig hafa verk hennar hljómað á Hljóðön og Wonderfeel Festival. Árið 2018 var fyrsta smáskífa Bjarkar gefin út af SmitRecords með eigin verkum og spuna sem nefnist sog/geit/puði. Björk Níelsdóttir hefur túrað með Björk Guðmundsdóttur og Florence and the Machine sem  söngkona og trompetleikari. Einnig hefur hún sungið á mörgum af helstu djass- og tónlistarhátíðum í Evrópu með hljómsveitunum Kaja Draksler Oktett og Polyband s.s. Gaudeamus Festival,  Copenhagen Jazz Festival, L´alarme Festival Berlin, Tampere Jazz Happening, Ljubljanda Jazz Festival. Björk söng í barnaóperunni Fuglabjargið í uppfærslu Borgarleikhússins og leikhópsins CGFC í janúar. Einnig komu út tvær hljómplötur á síðasta ári, fyrsta breiðskífa Gadus Morhua, Peysur og Parruk og annars vegar smáskifa Dúplum dúós, Flowers of Evil. Björk er fastur meðlimur í Kaja Draksler Oktett, Dúplum dúó, Polyband, Gadus Morhua, Cauda Collective og Stirni Ensemble.

Eyjólfur Eyjólfsson öðlaðist sína fyrstu sviðsreynslu sem hundurinn Spakur í söngleiknum Kolrössu eftir Þórunni Guðmundsdóttur. Eftir framhaldsnám í Lundúnum hefur hann meðal annars sungið við Ensku þjóðaróperuna, Opera North í Leeds og Íslensku óperuna. Nýverið fór hann með hlutverk Don Curzio í uppfærslu Íslensku óperunnar á Brúðkaupi Fígarós í Þjóðleikhúsinu. Eyjólfur er meðlimur í tónlistarhópunum Voces Thules og Gadus Morhua Ensemble (í. Hið íslenska þorskatríó) þar sem hann syngur, kveður, blæs í barokkflautu og slær á langspil.


Erla Dóra Vogler, mezzó-sópran, lærði söng við Tónlistarskóla Fljótsdalshéraðs, Tónlistarskólann í Reykjavík og Tónlistarháskóla Vínarborgar. Helstu kennarar hennar voru Keith Reed, Þórunn Guðmundsdóttir, Bernhard Adler, Marjana Burgstaller-Lipovšek og Rotraud Hansmann. Erla hefur sungið í ýmsum tónleikaröðum s.s. Klassík í Vatnsmýrinni, KÍTÓN og Sumartónleikum LSÓ, og komið fram sem einsöngvari með sinfóníuhljómsveitum, kammerhópum og kórum. Erla hefur gefið út tvo geisladiska: Víravirki – íslensk söngljóð, 2010, og Jórunn Viðar – Söngvar, ásamt Evu Þyri Hilmarsdóttur, 2019. Sá diskur var tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem plata ársins.



Að loknum prófum frá Tónlistarskólanum í Reykjavík stundaði Eva Þyri Hilmarsdóttir nám við Det Jyske Musikkonservatorium í Árósum, Danmörku, og lauk þaðan einleikaraprófi. Að því loknu nam hún við The Royal Academy of Music í London, en þaðan útskrifaðist hún með hæstu einkunn, hlaut heiðursnafnbótina DipRAM og The Christian Carpenter Piano Prize fyrir framúrskarandi lokatónleika. Helstu kennarar hennar voru Þorsteinn Gauti Sigurðsson, Halldór Haraldsson, John Damgård og Michael Dussek. Auk fjölda einleikstónleika hefur Eva Þyri komið fram sem einleikari með hljómsveit og tekið þátt í frumflutningi íslenskra og erlendra verka m.a. á hátíðunum Myrkum Músíkdögum, Ung Nordisk Musik, Young Euro Classic Festival í Berlín, Young Composers Symposium í London og Óperudögum í Reykjavík. Undanfarin ár hefur hún einnig lagt mikla áherslu á flutning ljóðasöngs og kammertónlistar og kom m.a. fram á rúmlega hundrað tónleikum tileinkuðum íslenskum sönglögum í Hörpu, í tónleikaseríunni Pearls of Icelandic Song. Eva Þyri tók þátt í uppsetningu Íslensku óperunnar 2017 á Mannsröddinni eftir Poulenc og í desember 2018 gaf hún, ásamt Erlu Dóru Vogler, út geisladisk með sönglögum Jórunnar Viðar í tilefni 100 ára afmælis hennar, en diskurinn hlaut tilnefningu til tónlistarverðlaunanna sem plata ársins 2018. Eva Þyri kennir við Listaháskóla Íslands samhliða tónleikahaldi.


Hafsteinn Þórólfsson hefur starfað sem tónlistarmaður um árabil. Hann hóf söngnám í Söngskólanum í Reykjavik og lauk síðar mastersnámi í söng frá Guildhall School of Music & Drama í Lundúnum. Hafsteinn hefur einnig numið tónsmíðar en hann lauk BA námi í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands og síðar meistaragráðu frá Konunglegu akademíunni í Árósum. Hann hefur starfað vítt á tónlistarsviðinu sem flytjandi, bæði sem einsöngvari og í raddhópum. Má þar nefna flutning eða upptökur á nútímatónlist, talsetningum, bakraddasöng, þjóðlagatónlist og dægurlögum. Hann hefur frumflutt mörg verk eftir íslensk or erlend tónskáld ásamt því að starfa með þekktum listamönnum að verkum þeirra, allt frá Björk til Arvo Pärt. Mörg þessara verkefna hafa hlotið viðurkenningar, unnið eða verið tilnefndar til margvíslegra verðlauna. Má þar nefna íslensku- og dönsku tónlistarverðlaunin, BAFTA og Grammy verðlaun.


Þórunn Guðmundsdóttir hefur getið sér gott orð fyrir leikritun og óperuskrif á undanförnum árum. Meðal verka hennar eru leikritin „Epli og eikur“ og „Systur“ og söngleikirnir „Kolrassa“, „Stund milli stríða“ og „Gestagangur“. Fyrstu óperuna samdi Þórunn árið 2006 og var hún sett upp af Tónlistarskólanum í Reykjavík það sama vor. Eftir það hefur hún skrifað ýmsar óperur sem hafa gjarnan verið miðaðar við nemendahóp skólans hvert ár. Má þar nefna „Gilitrutt“ (2009), „Hlina“ (2010), „Tónlistarskólann“ (2012), „Sæmund fróða“ (2015), „Hliðarspor“ (2017) og „Fjólu, stjúpu, puntstrá og prins“ (2018). Sönglögin sem flutt eru í dag eru frá ýmsum tíma, en í öllum tilfellum hafa þau verið færðan í nýjan búning á þessu ári og nokkur þeirra eru frumflutt á þessum tónleikum.

Tónlistarhátíðin Seigla er haldin af Íslenska Schumannfélaginu og er styrkt af Ýli tónlistarsjóði, Styrktarsjóði SUT og Ruthar Hermanns, Tónlistarsjóði Rannís, Barnamenningarsjóði og Menningarsjóði FÍH.

Nemendur, eldri borgarar og meðlimir Schumannfélagsins njóta afsláttarkjara á viðburði Seiglu. Þá þarf að framvísa skilríkjum til að sýna fram á aðild að félaginu eða staðfestingu á skólavist.